Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1108  —  654. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands.


Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Oddný G. Harðardóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að tryggja að stofnanir sem undir ráðuneytið heyra sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki til Grikklands, óháð því hvort viðkomandi hafi þegar hlotið þar alþjóðlega vernd eða ekki, þar sem hætta er á að flóttafólk í Grikklandi verði fyrir meðferð sem telst ómannúðleg í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna og óheimilt að senda fólk til slíkra svæða. Í tilvikum barna verði þess gætt að aðbúnaður og meðferð sé í samræmi við skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Greinargerð.

    Markmið með tillögu þessari er að tryggja að stjórnvöld sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki á svæði þar sem aðstæður eru óviðunandi og hætt er við að fólk verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Á tillagan sér stoð í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, sem felur í sér bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. 
    Íslenska ríkið hefur áður metið aðstæður tiltekinna svæða til móttöku flóttafólks óviðunandi. Má þar nefna að árið 2010 hætti útlendingastofnun  að senda hælisleitendur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands vegna þess að þarlend stjórnvöld gátu ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um aðbúnað flóttafólks. Með tillögunni er lagt til að það verði gert áfram og taki einnig til annarra ákvarðana um brottvísanir, óháð því hvort umsækjandi hafi þegar hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi eða ekki, þar til hægt verður að tryggja að aðbúnaður og mannréttindi séu virt. Athuga ber að orðalag 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki takmarkað við flóttafólk sem hefur tiltekna réttarstöðu í því landi sem til stendur að senda það.
    Flutningsmenn tillögunnar telja yfir vafa hafið að aðstæður í Grikklandi gefi fullt tilefni til þess að stöðva allar brottvísanir og endursendingar flóttafólks þangað. UNICEF og Barnaheill hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir endursendingar barna til Grikklands. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi að auki ítrekað bent á að aðstæður þeirra sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi séu síst skárri en þeirra sem hafi umsókn sína til meðferðar þar í landi. Er það sjónarmið stutt af alþjóðlegum skýrslum og frásögnum aðila sem starfað hafa fyrir alþjóðleg hjálparsamtök í Grikklandi, líkt og fram kom m.a. í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks 4. febrúar sl.
    Fyrir liggur að undirbúin er endursending a.m.k. fimm fjölskyldna til Grikklands á grundvelli þess að þær njóti þar þegar alþjóðlegrar verndar. Í ályktun Rauða krossins á Íslandi um þá ákvörðun segir m.a.: „Rauði krossinn á Íslandi ítrekar fyrri tilmæli sín til hérlendra stjórnvalda og hvetur eindregið ríkisstjórn Íslands til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk og í ljósi frétta af ástandinu í Grikklandi sl. daga er ljóst að stjórnvöldum er enn síður stætt á að senda í fyrsta sinn börn og foreldra þeirra í aðstæður sem þessar. Fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk og það er ljóst að endursending þess til Grikklands við þessar aðstæður er til þess fallið að það fái ekki notið þeirra.“
    Flutningsmenn tillögunnar lýsa yfir eindregnum stuðningi við sjónarmið Rauða krossins og leggja jafnframt  áherslu á að mannúð og mannvirðing sé höfð í hávegum við móttöku flóttafólks.