Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1231  —  673. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?


    Ríkisstjórnin samþykkti á síðasta ári að skipa verkefnahóp til að undirbúa átak á vegum Stjórnarráðsins við að skilgreina störf í ráðuneytum og stofnunum þeirra og auglýsa þau án staðsetningar. Það er í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar en í byggðaáætlun er aðgerð sem kallast „B.7. Störf án staðsetningar“. Stofnaður var verkefnahópur með fulltrúum allra ráðuneyta um sameiginlega framkvæmd verkefnisins en framkvæmdastjórn verkefnisins er á ábyrgð fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
    Markmið aðgerðarinnar er að skapa aukin tækifæri til atvinnu um land allt og jafna búsetuskilyrði. Í framhaldinu hófst vinna innan ráðuneyta og stofnana við að skilgreina störf á þeirra vegum sem gætu verið án sérstakrar staðsetningar. Starf án staðsetningar þýðir að starfið er ekki bundið tiltekinni starfsstöð innan veggja ráðuneytis eða stofnunar heldur er hægt að vinna það hvar sem er á landinu, að því gefnu að viðunandi starfsaðstaða sé fyrir hendi. Góð greining á störfum er því ein af forsendum þess að markmið aðgerðarinnar gangi eftir. Greiningarvinnu á störfum heilbrigðisráðuneytis og stofnunum þess er ekki lokið en vænta má þess að niðurstaða liggi fyrir bráðlega. Ekki verður gerð áætlun tengd þessari aðgerð fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir. Ráðningar í störf taka svo mið af því.