Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1242  —  516. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um kröfur til hópferðabifreiðastjóra.


     1.      Hvaða kröfur eru gerðar um ökufærni erlendra hópferðabifreiðastjóra sem koma til tímabundinna starfa hér á landi?
    Gerðar eru kröfur um aukin ökuréttindi. Ökuréttindi sem veitt eru á Evrópska efnahagssvæðinu eru jafngild þeim sem gefin eru út hér á landi enda sömu reglur sem gilda og sömu kröfur gerðar.
    Þeir sem hafa heimild til aksturs í atvinnuskyni hér á landi fá sérstaka tákntölu, 95, í ökuskírteini sínu því til auðkennis. Þetta er gert skv. III. kafla I. viðauka reglugerðar um ökuskírteini, nr. 830/2011. Krafan er hin sama á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ökuréttindi sem fengin eru utan Evrópska efnahagssvæðisins veita ekki rétt til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni. Umsækjandi þarf að þreyta próf fyrir B-flokk, þ.e. fólksbifreið, og jafnframt próf fyrir hvern ökuréttindaflokk sem sótt er um að fá að undangenginni fræðslu.

     2.      Hvernig er leitast við að tryggja að erlendir bifreiðastjórar hópferðabifreiða fullnægi alþjóðlegum kröfum um ökufærni, t.d. evrópskum kröfum um færni ökumanna hópferðabifreiða?
    Þeir sem stunda akstur í atvinnuskyni þurfa að sækja endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti. Sú skylda er innleidd í 14. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 830/2011. Námskeiðið er samtals 35 stundir í sjö klukkustunda lotum. Þeir sem stunda akstur á stærri ökutækjum í atvinnuskyni hér á landi eiga því allir að hafa sótt endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti.
    Eftirlit með þessum þáttum er í höndum lögreglu, bæði í almennu umferðareftirliti og öðru eftirliti á vegum. Þá fá þeir sem hafa fengið útgefin skírteini hér á landi ekki endurútgefin atvinnuréttindi nema þeir hafi uppfyllt kröfur um endurmenntun.

     3.      Hvaða reglur gilda um veitingu tímabundinna leyfa til borgara utan EES-svæðisins til að aka hópferðabifreiðum í atvinnuskyni?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Telur ráðherra í ljósi séríslenskra aðstæðna, sem lúta t.d. að vegakerfi og veðurfari, að rök séu fyrir því, með umferðaröryggi fyrir augum, að gera auknar kröfur í þessu efni umfram þær kröfur sem t.d. Evrópureglur gera ráð fyrir?
    Gagnkvæm viðurkenning ökuréttinda er í gildi hér á landi. Þannig viðurkennir íslenska ríkið ökuskírteini til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni sem gefin eru út í ríkjum sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins viðurkenna á móti skírteini sem gefin eru út hér á landi. Hvert og eitt aðildarríki setur síðan reglur um ökunám til réttinda til aksturs stærri ökutækja sem byggðar eru á samevrópskum reglum. Í slíku ökunámi ber m.a. að taka mið af veðri og ástandi vega.
    Í tilskipuninni sem reglur um þjálfun hópferðabifreiðastjóra byggjast á segir m.a. að viðkomandi skuli vera fær um að gera sér grein fyrir mismunandi vega-, umferðar- og veðurfarsskilyrðum, um að geta aðlagað aksturinn að slíkum skilyrðum og að geta skipulagt ferð við óeðlileg veðurfarsskilyrði o.fl. Þetta á því við um öll aðildarríkin.
    Í námskrá fyrir hópbifreiðaréttindi ( Farþegaflutningar í atvinnuskyni) sem gefin er út af Samgöngustofu og staðfest af ráðherra samgöngumála segir m.a. að við prófdæmingu skuli prófdómari huga sérstaklega að því hvort próftaki taki tillit til ástands vegar og veðurskilyrða. Þá segir í námskránni að nemi skuli þekkja lögmál um akstur ökutækja við ólíkar aðstæður, svo sem á bundnu slitlagi, á malarvegum, í lausamöl, í hálku, í snjó eða yfir óbrúaða á. Einnig skuli nemi gera sér grein fyrir ýmsum hættum við akstur ökutækja, svo sem þegar vegkantar eru lélegir eða háir eða vatn er á vegi, og vita hvernig heppilegast er að aka við þær aðstæður. Þannig er gert ráð fyrir því að ökunám hópbifreiðastjóra taki mið af aðstæðum hér á landi með tilliti til veðurfars, ástands vega o.fl.

     5.      Hvaða áform hefur ráðherra um aðgerðir sem lúta að ökufærni bifreiðastjóra hópferðabifreiða til að auka öryggi í umferð í þéttbýli og á vegum úti?
    Hafin er yfirgripsmikil endurmenntun atvinnubílstjóra í samræmi við kröfur reglugerðar sem innleidd hefur verið. Samgöngustofa telur það styðja við bætta ökufærni atvinnubílstjóra.
Að öðru leyti er vísað til svars við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.