Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1249  —  678. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.

     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Ráðuneytið hóf nýlega, í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar, vinnu við skilgreiningu starfa sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þessari vinnu er ekki lokið og þau störf sem falla alla jafna undir þessa skilgreiningu eru einkum ýmis störf sérfræðinga ráðuneytisins.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Ráðuneytið hefur ekki ráðið í starf utan höfuðborgarsvæðisins.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Ráðuneytið hefur ekki mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um hlutfall auglýstra starfa sem skuli vera án staðsetningar. Góð greining á störfum er ein forsenda þess að hægt sé að setja fram áætlun en ráðuneytið hefur unnið með verkefnahópi um störf án staðsetningar með fulltrúum allra ráðuneyta um sameiginlega framkvæmd verkefnisins. Greining ráðuneytisins nær einnig til stofnana þess og vænta má að henni verði lokið innan tíðar og ráðningar í störf án staðsetningar munu svo taka mið af þeirri áætlun sem sett verður fram.