Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1265  —  731. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna launa þingmanna og ráðherra (frysting og niðurfelling hækkunar).

Flm.: Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Þór Ólafsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 79/2019, um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 25/2020.

1. gr.

    Í stað orðanna „II.–VII. kafla“ í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum kemur: IV.–VII. kafla.

II. KAFLI

Breyting á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. skal þingfararkaup sem kemur til greiðslu 1. maí 2020 vera 823.694 kr. Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. skal þingfararkaup vera 1.101.194 kr. á mánuði og haldast óbreytt til 31. desember 2021 en þá skal þingfararkaup taka breytingum í samræmi við hlutfallslega breytingu á reglulegum meðallaunum ríkisstarfsmanna eins og þau birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2020.

III. KAFLI

Breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. skulu laun forsætisráðherra sem koma til greiðslu 1. maí 2020 vera 1.512.325 kr. og laun annarra ráðherra 1.366.053 kr. Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. skulu laun forsætisráðherra vera 2.021.825 kr. á mánuði en laun annarra ráðherra 1.826.273 kr. á mánuði og haldast óbreytt til 31. desember 2021 en þá skal breyta laununum í samræmi við hlutfallslega breytingu á reglulegum meðallaunum ríkisstarfsmanna eins og þau birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2020.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 30. apríl 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sú hækkun sem á að verða á þingfararkaupi og á launum ráðherra 1. júlí nk., og frestað var til 1. janúar 2021 með lögum nr. 25/2020, falli niður. Þá er lagt til að laun þingmanna og ráðherra verði fryst fram yfir næstu alþingiskosningar, eða til 31. desember 2021, og breytist þá í samræmi við breytingar á reglulegum meðallaunum opinberra starfsmanna á árinu 2020 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þá er lagt til að laun þingmanna og ráðherra sem koma til greiðslu 1. maí 2020 lækki um það sem nemur þeirri hækkun sem tók gildi 1. janúar 2020 og til stendur að greiða afturvirkt 1. maí 2020.
    Frestun launahækkunar þingmanna sem átti að koma til framkvæmdar 1. júlí 2020 var gerð með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. lög nr. 79/2019, um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum. Var lögfest nýtt bráðabirgðaákvæði við lög nr. 79/2019 sem kveður á um frestun launahækkunar þeirra sem getið er í II.– VII. kafla laganna til 1. janúar 2021, þ.e. alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þeirri tilvísun verði breytt þannig að sú frestun eigi ekki við um þingfararkaup og laun ráðherra. Samhliða eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup og lögum um Stjórnarráð Íslands um frystingu launa þeirra.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað þar sem kveðið verði á um að laun þeirra verði fest við þá krónutölu sem er í gildandi lögun og hefur í framkvæmd verið óbreytt síðan 2016. Er þannig lagt til að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, þar sem kveðið er á um reglubundnar hækkanir á launum þingmanna, haldist þingfararkaup óbreytt til 31. desember 2021 og breytist þá miðað við tölur Hagstofunnar um breytingu á reglulegum meðallaunum ríkisstarfsmanna fyrir árið 2020. Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til sambærileg breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands um laun ráðherra.
    Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að laun ráðherra og þingmanna lækki 1. maí 2020. Þannig verði reglubundin hækkun sem koma átti til framkvæmda 1. júlí 2019 og frestað var til 1. janúar 2020 með lögum nr. 79/2019, um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, felld niður. Við launagreiðslur frá 1. janúar láðist að framkvæma hækkunina gagnvart þingmönnum og ráðherrum og á því uppsöfnuð hækkun þessara mánaða að koma til greiðslu 1. maí 2020. Flutningsmenn telja í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, stöðu á vinnumarkaði og þeirra kostnaðarsömu aðgerða sem nauðsynlegar eru til að bregðast við sé rétt að ekki verði af umræddri launahækkun þingmanna og ráðherra. Því er lagt til að laun þessara aðila lækki tímabundið við útgreiðslu 1. maí 2020 til að mæta þeirri hækkun sem greiða á vegna fyrstu fjögurra mánaða ársins frá 1. janúar til 30. apríl. Fjárhæð lækkunarinnar miðast við að laun þingmanna hafi hækkað um 69.375 kr., ráðherra um 115.055 kr. og laun forsætisráðherra um 127.375 kr. á mánuði. Launagreiðslur til þeirra 1. maí verða því færðar niður um sem svarar fjögurra mánaða hækkun fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Með samþykkt þessa frumvarps má því jafna út umrædda kjarahækkun og haldast því heildarlaun þingmanna og ráðherra óbreytt frá því sem kveðið er á um í 1. mgr. 15. gr. laga um þingfararkaup o.fl. og 2. mgr. 3. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.
    Flutningsmenn telja að með samþykkt frumvarpsins gangi þingmenn sem þjóðkjörnir fulltrúar almennings á undan með góðu fordæmi og sýni ábyrgð á þeim tímum sem nú fara í hönd þegar glímt er við áhrif heimsfaraldursins með því að fella niður þá hækkun sem átti að verða á þingfararkaupi og frysta laun sín fram yfir næstu alþingiskosningar til 31. desember 2021.