Ferill 661. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1309  —  661. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um urðun úrgangs.


     1.      Hefur magn úrgangs verið áætlað á gömlum urðunarstöðum sem ekki höfðu starfsleyfi, sbr. yfirlit í töflu 3 í svari ráðherra á þskj. 429 (234. mál)? Ef ekki, hefur ráðherra uppi áform um að svo verði gert og að hættustig úrgangsins verði metið?
    Ekki er til vitneskja um skráningu eða aðrar aðgengilegar upplýsingar um magn úrgangs, eða áætlað magn úrgangs, sem urðaður var á gömlum urðunarstöðum á Íslandi. Í yfirliti í töflu 3 í svari ráðherra á þskj. 429 eru taldir upp 43 gamlir urðunarstaðir víðs vegar um landið. Í svarinu kemur fram að áætlað hafi verið að magn úrgangs á gömlum urðunarstöðum í Reykjavík hafi verið frá nokkrum tugum upp í tugþúsundir tonna og er vísað til skýrslu sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar tók saman árið 2006 um gamla urðunarstaði í Reykjavík. Nánar tiltekið er þar vísað til almennrar fullyrðingar sem kemur fram í ágripi skýrslunnar en af umfjöllun í skýrslunni að dæma var magn úrgangs ekki áætlað sérstaklega fyrir hvern þeirra 16 urðunarstaða sem skýrslan fjallar um. Skýrsluhöfundar gerðu hins vegar tilraun til að áætla flatarmál hluta þessara urðunarstaða á grundvelli ljósmynda og frásagna. Af 16 urðunarstöðum sem fjallað er um í skýrslunni er flatarmál sjö staða birt, sjá töflu 1.

Tafla 1. Áætlað flatarmál nokkurra gamalla urðunarstaða í Reykjavík.
Staðsetning Nánari staðsetning Áætlað flatarmál
Reykjavík Frá Grandavegi vestur að býlinu Eiði 70–90 þús. m2
Reykjavík Við Reykjavíkurtjörn og fyrir neðan Háskólann 40–50 þús. m2
Reykjavík Við sorpeyðingarstöðina á Stórhöfða nokkur þús. m2
Reykjavík Við Fossaleyni 20 þús. m2
Reykjavík Í Stekkjabrekku við Vesturlandsveg 90–100 þús. m2
Reykjavík Á Geirsnefi 30–40 þús. m2
Reykjavík Í Gufuneshaugum 400–450 þús. m2

    Eins og fyrr segir liggja ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar um magn og eðli þess úrgangs sem urðaður var á urðunarstöðum sem starfræktir voru á síðustu öld. Ef ætlunin væri að afla slíkra upplýsinga, og meta áætlað magn og eðli úrgangs (t.d. hættustig), myndi það kalla á ítarlega rannsókn á hverjum stað. Gera má ráð fyrir að slíkar rannsóknir yrðu kostnaðarsamar og að svo stöddu eru ekki uppi áform um að ráðast í slíkt. Ráðuneytið telur hins vegar mikilvægt að unnið verði að því að bæta þekkingu á svæðum á Íslandi sem mögulega eru menguð, svo sem gömlum urðunarstöðum, og stuðla að betri yfirsýn yfir þau svæði.
    Ráðuneytið hefur haft til skoðunar að setja reglugerð um mengaðan jarðveg, m.a. í þeim tilgangi að stuðla að betri yfirsýn yfir mögulega menguð svæði á Íslandi. Setning slíkrar reglugerðar teldist nýmæli því sértækar reglur um mengun jarðvegs hafa ekki áður verið settar hér á landi. Hluti af þessari vinnu er að ráðuneytið hefur til skoðunar að halda opinbera skrá yfir menguð svæði og svæði þar sem grunur er um mengun. Ef til slíkrar skráningar kæmi yrði nauðsynlegt að ráðast í kortlagningu þessara svæða til að afla frekari upplýsinga um tilvist þeirra, m.a. kortlagningu gamalla urðunarstaða. Gera má ráð fyrir að slík skráning fæli í sér mikilvægt skref í þá átt að byggja upp nauðsynlega grunnþekkingu á menguðum svæðum, t.d. um staðsetningu þeirra og flatarmál.

     2.      Hvaða tilteknu úrgangsefnum er fargað við stóriðjur hér á landi, sbr. töflu 1 í þskj. 429? Hvert er hættustig þessa úrgangs og hvernig er háttað fyrirkomulagi og frágangi við urðun hans (Grundartangi og Straumsvík)?
    Í töflu 1 á þskj. 429 eru taldir upp þrír rekstraraðilar sem stunda iðnaðarstarfsemi og hafa starfsleyfi til förgunar eigin úrgangs í svokölluðum flæðigryfjum. Það eru Elkem Ísland ehf., Norðurál Grundartangi ehf. og Rio Tinto á Íslandi hf. Umhverfisstofnun er útgefandi þeirra starfsleyfa sem þessir rekstraraðilar starfa eftir og byggist svarið við þessum tölul. fyrirspurnarinnar hvað þessa starfsemi varðar á upplýsingum frá stofnuninni. Starfsleyfin eru gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og reglugerð sem sett er með stoð í þeim lögum. Almenn ákvæði um aðbúnað við urðun úrgangs og frágang á urðunarstöðum koma fram í lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum, einkum í sérákvæðum X. kafla laganna, og í reglugerð nr. 738/2003, um urðun úrgangs, með síðari breytingum. Í starfsleyfi setur Umhverfisstofnun öll þau starfsleyfisskilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að uppfylltar séu m.a. umhverfisgæðakröfur og meginreglur um grundvallarskyldur rekstraraðila samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Þannig er heimilt í starfsleyfi að setja ákvæði til nánari útfærslu þeirra ákvæða sem koma fram í lögum og reglugerðum sem taka til viðkomandi starfsemi. Gildandi lög og reglugerðir ganga þó ávallt framar ákvæðum starfsleyfa, sem skulu endurskoðuð reglulega, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.
    Elkem Ísland ehf. og Norðurál Grundartangi ehf. reka starfsemi sína á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi Elkem Ísland ehf., sem gefið var út 20. ágúst 2009, hefur fyrirtækið heimild til að farga eftirfarandi framleiðsluúrgangi í flæðigryfjum með útskolun efna í sjó, enda sé styrkur mengunarefna ekki umfram viðmiðanir í reglugerðum: köggluðu kísilryki, vættu forskiljuryki, magnesíumoxíð-ryki, seti úr setþróm, föstum efnum frá síustöðvum, gjalli og málmleif, þ.m.t. gjalli frá málmhreinsun, uppsópi og fínefnum af hráefnum og framleiðslu, fóðringum og eldföstum efnum. Í starfsleyfinu kemur fram að meðhöndlun og frágangur úrgangs í flæðigryfjum skuli vera í samræmi við áhættumatsgreiningu sem unnin er í samræmi við 25. gr. reglugerðar um urðun úrgangs og tölul. 3.4 í I. viðauka við sömu reglugerð.
    Samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi Norðuráls Grundartanga ehf., sem gefið var út 16. desember 2015, er fyrirtækinu heimilt að koma fyrir í flæðigryfju föstu efni sem ekki fer í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu. Samkvæmt starfsleyfinu getur slíkt efni verið: kerbrot, málmsori sem er óendurnýtanlegur, kolaryk og súrálsryk frá hreinsun skautleifa, byggingarefni, uppsóp af fínefnum frá hráefnum, óseljanlegt gjall og málmleifar og ónýtar múrfóðringar frá ofnum. Í starfsleyfinu koma fram þau skilyrði sem flæðigryfjur fyrirtækisins verða að uppfylla:
     1.      Staðsetning skal vera samþykkt af Umhverfisstofnun og vera hnitsett í samræmi við gildandi deiliskipulag.
     2.      Meðhöndlun og frágangur skal vera í samræmi við aðlögunaráætlun og áhættumatsgreiningu, sbr. 25. gr. reglugerðar um urðun úrgangs og tölul. 3.4 í I. viðauka við sömu reglugerð.
     3.      Flæðigryfjan skal eingöngu vera fyrir úrgang rekstraraðila eða á svæði í flæðigryfju sem eingöngu er ætlað fyrir úrgang frá rekstraraðila og loka skal staðnum með aðgangsstýringu til að hindra ólöglega losun.
     4.      Flæðigryfjan skal varin fyrir ágangi sjávar.
     5.      Þegar efni er sett í flæðigryfju skal losun til lofts haldið í lágmarki.
     6.      Þegar svæði flæðigryfju er fullnýtt skal það hulið með þekjuefni sem fellur inn í umhverfið.
    Rio Tinto á Íslandi hf. rekur starfsemi sína í Straumsvík í Hafnarfirði. Samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi fyrirtækisins, sem gefið var út 7. nóvember 2005, er heimilt að farga tilgreindum, föstum úrgangi í flæðigryfju með útskolun sigvatns í sjó. Heimildin tekur til eftirfarandi úrgangs: fóðringa og eldfastra efna, gjalls frá frumframleiðslu, skána, kolaryks, annarra agna og ryks. Í starfsleyfinu kemur fram að meðhöndlun og frágangur úrgangs í flæðigryfjum skuli vera í samræmi við aðlögunaráætlun og áhættumatsgreiningu sem unnin er í samræmi við 25. gr. reglugerðar um urðun úrgangs og tölul. 3.4 í I. viðauka við sömu reglugerð. Jafnframt kemur fram að staðsetning flæðigryfja skuli ákveðin í samráði við Umhverfisstofnun, bæjarstjórn og hafnaryfirvöld á staðnum, að flæðigryfja skuli varin ágangi sjávar og að hindra skuli aðgang almennings. Þegar förgun er lokið skal hylja úrgang með skeljasandi og þekjuefni sem fellur inn í umhverfið og úrgang sem getur dreifst með vindi skal þekja án tafar eða farga með öðrum hætti.
    Hluti þess úrgangs sem heimilt er að urða á grundvelli framangreindra starfsleyfa telst vera spilliefni. Á það t.d. við um gjall, skánir, kerbrot, fóðringar og eldföst efni. Urðun slíks úrgangs fer fram samkvæmt verklagi sem Umhverfisstofnun samþykkir.

     3.      Hvaða tilteknu úrgangsefnum er fargað við önnur stóriðjuver (Reyðarfjörður og Bakki við Húsavík), hvert er hættustig þessa úrgangs og hvernig er háttað fyrirkomulagi og frágangi við urðun hans?
    Gildandi starfsleyfi PCC BakkiSilicon hf. í Norðurþingi, sem gefið var út 8. nóvember 2017, og Alcoa Fjarðaáls sf. á Reyðarfirði, sem gefið var út 8. nóvember 2010, veita ekki heimild til förgunar úrgangs. Enn fremur er í umræddum starfsleyfum sérstaklega tekið fram að urðun og brennsla úrgangs sé óheimil. Öllum úrgangi frá viðkomandi starfsemi ber því að skila á viðurkennda móttökustöð fyrir úrgang.