Ferill 763. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1310  —  763. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við íþróttaiðkun barna vegna COVID-19.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að veita styrk til íþróttaiðkunar fyrir hvert barn á aldrinum 6–18 ára sem búsett er á Íslandi. Styrkurinn verði í formi gjafabréfs að andvirði 25.000 kr. sem heimilt verði að nýta til greiðslu iðkendagjalda í skipulögðu íþróttastarfi hjá íþróttafélögum til 1. júní 2021. Ráðherrar veiti fjármagn í verkefnið og greiði íþróttafélögum um hver mánaðamót andvirði þeirra gjafabréfa sem félögin hafa tekið við þann mánuðinn.
    Ráðherrar geri tillögu að nauðsynlegum breytingum á lögum og fjárlögum og leggi fyrir þing tímanlega svo að dreifa megi gjafabréfum fyrir lok maímánaðar 2020.

Greinargerð.

    Íþróttafélög landsins standa frammi fyrir því ærna verkefni að takast á við skerðingar á tekjum og starfsemi vegna COVID-19-sjúkdómsins án þess að það komi niður á öflugu og samfélagslega mikilvægu starfi þeirra það sem eftir er ársins og næstu ár.
    Því miður liggur fyrir að aðgerðir stjórnvalda til að mæta efnahagsáhrifum COVID-19-sjúkdómsins munu ekki gagnast íþróttafélögunum. Almenn skilyrði lokunarstyrkja og stuðningslána eru þannig útfærð að íþróttafélög falla utan þeirra. Þar að auki eru langflestir þjálfarar og starfsmenn íþróttafélaga lausráðnir og í hlutastörfum sem ná ekki því 45% starfshlutfalli sem sett er sem skilyrði fyrir nýtingu hlutabótaleiðar ríkisstjórnarinnar.
    Á sama tíma og flutningsmenn tillögu þessarar telja mikilvægt að ríkisstjórnin uppfæri skilyrði almennra úrræða á þann hátt að þau gagnist íþróttafélögunum óttast þeir þó að það dugi ekki til. Stór hluti tekna félaganna kemur í gegnum mótshald og auglýsingar sem ekki er til að dreifa núna og ekki er unnt að mæta með fyrrnefndum úrræðum. Þá hefur félögunum verið ófært að halda uppi hefðbundinni starfsemi sinni og því viðbúið að hluti félagsmanna þeirra muni óska eftir endurgreiðslu iðkendagjalda í heild eða að hluta. Nokkuð ljóst er að ekkert íþróttafélag hefur burði til að mæta slíkum kröfum ofan á tekjumissi sinn. Því er hætta á að rekstrarvandinn bitni á starfi og þjónustu félaganna í sumar og komandi ár.
    Fjölmargar íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á þau jákvæðu áhrif sem skipulagt íþróttastarf hefur á námsárangur, líðan og sjálfsvirðingu barna og ungmenna. Nær óþarft er að auki að nefna forvarnagildi íþróttastarfs að því er snertir skaðlega hegðun á borð við afbrot og vímuefnaneyslu. Samdráttur í starfi íþróttafélaga, sér í lagi skerðing á fjölbreytni starfsins, eykur líkurnar á því að hópur ungmenna hætti þátttöku í íþróttastarfi eða hefji hana aldrei. Einnig er sérstök hætta á því í ljósi neikvæðra áhrifa efnahagssamdráttarins á tekjur fjölda fjölskyldna. Það er því miður hætt við því að íþrótta- og tómstundastarf barna mæti afgangi hjá þeim sem verst verða úti.
    Flutningsmenn leggja til að ráðherrar tryggi nauðsynlegt fjármagn til að veita öllum börnum á aldrinum 6–18 ára sem búsett eru á Íslandi gjafabréf að andvirði 25.000 króna, sem nýta megi til greiðslu iðkendagjalda hjá íþróttafélögum í skipulögðu íþróttastarfi í sumar og næsta vetur. Sú lausn mun koma í veg fyrir að börn og ungmenni þurfi að láta af þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi íþróttafélaga þrátt fyrir efnahagssamdrátt og auðvelda félögunum á sama tíma að mæta fyrirliggjandi tekjutapi. Þessi leið tryggir einnig jafnrétti iðkenda og styður íþróttafélög án mismununar.
    Börn á aldrinum 6–18 ára eru um 60.000 talsins. Verður heildarkostnaður því að hámarki 1,5 milljarðar kr. ef allar fjölskyldur nýta styrkinn að fullu. Árið 2018 voru 42.066 börn á framangreindum aldri iðkendur hjá íþróttafélögum innan ÍSÍ. Er því líklegt að hámarksnýting verði ekki meiri en 70%. Það er þó mat flutningsmanna tillögunnar að best væri ef styrkurinn kæmi sem flestum börnum að gagni.