Ferill 591. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1423  —  591. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um sérákvæði um gróðurhús í byggingarreglugerð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra setja sérákvæði um gróðurhús í byggingarreglugerð, eins og tíðkast víða erlendis, þ.m.t. á Norðurlöndum, í ljósi þess að túlkun ákvæða og gjaldheimta vegna gróðurhúsabygginga hefur verið breytileg á milli sveitarfélaga?

    Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru settar fram tæknilegar kröfur til mannvirkja og er þeim skipt í ýmsa flokka eftir notkun. Einn slíkur flokkur er „Landbúnaðarbyggingar“ en gerðar eru lægstu mögulegar kröfur til slíkra mannvirkja, svo sem hvað varðar svignun burðarvirkis, orkunýtingu, loftþéttleika og fleira. Gróðurhús eru sérstakur undirflokkur landbúnaðarbygginga. Ýmis sérákvæði gilda um gróðurhús, til dæmis hvað varðar kröfur um svignun burðarvirkja, en þar eru lægstu mögulegu kröfur gerðar til gróðurhúsa. Í grein 12.4.4 er fjallað um slysahættu vegna glers og settar fram ákveðnar kröfur um öryggi þar að lútandi, en gróðurhús eru undanþegin þeirri kröfu. Segja má að tæknilegar kröfur byggingarreglugerðar til gróðurhúsa séu tiltölulega litlar og hafa ráðuneytinu ekki borist kvartanir um misjafna framkvæmd sveitarfélaga hvað það varðar.
    Ákvæði um gjaldheimtu, svo sem leyfisgjöld, gatnagerðargjöld eða ákvörðun fasteignagjalda, eru hins vegar ekki sett fram í lögum um mannvirki, nr. 160/2010, eða í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þau ákvæði koma fram í öðrum lögum og reglum sem ekki heyra undir félags- og barnamálaráðherra.
    Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga á Íslandi er nokkuð ríkur hvað gjaldheimtu varðar og ekki óvenjulegt að gjaldheimtan sé mismunandi eftir sveitarfélögum.
    Ráðuneytinu hafa hingað til ekki borist beinar tillögur um breytingar á byggingarreglugerð hvað varðar tæknilegar kröfur um gróðurhús. Byggingarreglugerð nr. 112/2012 er endurskoðuð reglulega og hafa samtök garðyrkjumanna óskað eftir því að koma sjónarmiðum á framfæri við næstu endurskoðun reglugerðarinnar. Ráðherra fagnar öllum tillögum sem bæta starfsumhverfi garðyrkjubænda enda er starfsemi þeirra afar mikilvæg fyrir fæðuöryggi landsmanna eins og glöggt hefur sést undanfarnar vikur og mánuði.