Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1473  —  685. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samninga samkvæmt lögum um opinber fjármál.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða samninga sem í gildi eru hefur ráðuneytið og stofnanir þess gert skv. 40. og 41. gr. laga um opinber fjármál?
     2.      Samkvæmt hvaða heimild hefur hver þeirra verið gerður, sbr. heimildir í fyrrnefndum lagagreinum?
     3.      Hver er gildistími hvers samnings?
     4.      Fellur gildistími einhvers samnings utan ákvæða 40. og 41. gr. laganna? Sé svo, hvers vegna?
     5.      Hver er samanlögð árleg fjárskuldbinding hvers samnings og hvert er hlutfall hennar af árlegri fjárveitingu þess ríkisaðila sem ber ábyrgð á samningnum?
     6.      Hvaða stefnumörkun samkvæmt gildandi fjármálaáætlun liggur til grundvallar hverjum samningi fyrir sig?
     7.      Hvenær var síðast metið hvort hver samningur uppfyllti kröfur um umfang og gæði eins og gert er ráð fyrir í 5. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál?
     8.      Við hvaða gæðamælikvarða var miðað í tilviki hvers samnings?
     9.      Hafa verið gerðir samningar um framkvæmdir, rekstur eða afmörkuð verkefni sem falla utan 40. eða 41. gr. laga um opinber fjármál?
     10.      Eru í gildi samningar sem gerðir voru fyrir gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015?


    Stofnanir og nefndir félagsmálaráðuneytisins eru eftirfarandi: Úrskurðarnefnd velferðarmála, Vinnueftirlit ríkisins, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Fjölmenningarsetur, umboðsmaður skuldara, embætti ríkissáttasemjara, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun, Barnaverndarstofa, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem fellur bæði undir A- og B-hluta ríkissjóðs.
    Ekki hafa verið gerðir samningar á vegum félagsmálaráðuneytisins og ríkisaðila þess sem falla undir 41. gr. fyrrnefndra laga. Það sama gildir um samninga sem falla undir 2. mgr. 40. gr. laganna.
    Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 40. gr. laganna er ríkisaðilum í A-hluta heimilt að gera samninga sem snúa að rekstri stofnunar án atbeina ráðherra. Í almennum athugasemdum með lagafrumvarpinu er rekstur tölvukerfa og ræsting nefnt sem dæmi um slíka samninga. Að jafnaði eru fjárhæðir rekstrarsamninga af þessum toga, lágar miðað við heildarfjárveitingar hvers árs. Með framangreint að leiðarljósi var tekin ákvörðun um að afmarka fyrirspurnina til ríkisaðila eingöngu við samninga sem falla undir 1. mgr. 40. gr.
    Eftirtaldar stofnanir ráðuneytisins eru ekki með gildandi samninga skv. 1. mgr. 40. gr. laganna: Úrskurðarnefnd velferðarmála, Vinnueftirlit ríkisins, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Fjölmenningarsetur, umboðsmaður skuldara, embætti ríkissáttasemjara, Vinnumálastofnun, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.
    Eftirfarandi stofnanir eru með gildandi samninga sem falla undir 1. mgr. 40 gr. laganna og eru svör stofnana eftirfarandi:

Tryggingastofnun ríkisins.
     Liður 1: Í gildi eru samningar Tryggingastofnunar (TR) við verktakalækna. TR kaupir þjónustu samkvæmt samningum stofnunarinnar við viðkomandi lækna, sem tekur til mats verksala á færni umsækjanda um örorkubætur lífeyristrygginga almannatrygginga samkvæmt örorkustaðli, sbr. 18. gr. laga nr. 100/2007. Innifalið í mati læknis er viðtal, skoðun og frágangur matsgerðar til TR sem eru hluti af læknisfræðilegu mati sem TR þarf að byggja á við úrvinnslu mála. Kaupin á þjónustunni miðast við gjaldskrá og einingagjald fyrir færnimat sérfræðilækna sem gefið er út af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). TR heldur lista yfir lækna sem hafa samhljóða samninga til að sinna og framkvæma framangreinda þætti.
    Liður 2:
Samningarnir byggjast á 1. mgr. 40 gr. í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015.
     Liður 3: Við verktakalækna er gildistími hvers samnings eitt ár.
     Liður 4: Nei.
     Liður 5: Heildarútgjöld TR vegna verktakasamninga á árinu 2019 voru um 90 millj. kr. og var kostnaður hvers og eins samnings á bilinu 0,8 millj. kr. til 16,4 millj. kr.
     Liður 6: Samningar TR við verktakalækna eru liður í að afla gagna og mats svo að TR geti rækt kjarnastarfsemi sem stofnuninni er sett samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þeir styðja við lykilþátt í heildarferlinu við örorkumat og grundvallast á stefnumörkun og markmiðum sem sett eru fram á málefnasviði nr. 27 í opinberri fjármálaáætlun. Skoðun matslækna sem samningarnir ná til eru ekki aðeins lykilþáttur í því að TR geti rækt hlutverk sitt við örorkumat heldur einnig liður í að leggja mat á einstaklingsbundnar leiðir við aukna áherslu á að efla getu fólks til starfa eins og fram kemur í markmiði 27.1.2 í fjármálaáætlun og endurspeglast í markmiðum stofnunarinnar.
     Liður 7: Þessi spurning á raun og veru ekki við út frá 40. gr. laga um opinber fjármál. Hver samningur er metinn árlega hjá TR og tímanlega áður en gildistíma lýkur. Samið er að nýju við aðila og byggt á mati samnings. Allir samningar við verktakalækna voru síðast metnir fyrir árslok 2019 og tóku nýir samningar gildi 10. janúar 2020.
     Liður 8: Í hverjum samningi við verktakalækna eru ákvæði um skyldur verksala er varða gæðamál samningsins:
                  i.      Fullnægjandi aðstaða til matsins hjá verksala.
                  ii.      Þagnarskylda verksala.
                  iii.      Rafrænn frágangur gagna til verkkaupa.
                  iv.      Vernd á viðkvæmum persónuupplýsingum hjá verksala.
                  v.      Starfsábyrgð og sjúklingatrygging verksala, auk þess hafa þeir sótt námskeið hjá TR um framkvæmd örorkumats.
     Liður 9: Nei.
     Liður 10: Nei.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Liður 1: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gert samninga vegna innheimtuþjónustu, lögfræðiþjónustu (vegna mætingarmanna), samninga vegna greiðslumatskerfa auk samninga vegna markaðseftirlits með rafföngum og lögbundinna verkefni Brunamálaskólans.
     Liður 2: Þeir samningar sem HMS yfirtók frá Íbúðalánasjóði voru gerðar utan gildissviðs laga um opinber fjármál þegar þeir voru gerðir. Helgast það af því að Íbúðalánasjóður var ríkisaðili í B-hluta en ekki A-hluta. Alþingi heimilaði þó að HMS yfirtæki þessa samninga með setningu laga nr. 137/2019, sbr. 18. gr. laganna.
     Liður 3: Samningarnir hafa gildistíma frá einu ári til þriggja ára.
     Liður 4: Já, það helgast af því að Íbúðalánasjóður var ríkisaðili í B-hluta en ekki A-hluta. Alþingi heimilaði þó að HMS yfirtæki þessa samninga með setningu laga nr. 137/2019, sbr. 18. gr. laganna.
     Liður 5: Samanlögð árleg fjárskuldbinding, sé miðað við fjárhæðir 2019, er um 36,5 millj. kr. Enginn kostnaður fellur til vegna verkefna tengdum húsnæðisbótum á fjárlögum en samningur um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta felur í sér að kostnaður leggst á skuldara. Á sviði mannvirkjamála er hlutfall samninga um 5% af árlegri fjárveitingu vegna verkefnanna.
     Liður 6: Samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010, ber stofnunin ábyrgð á markaðseftirliti með rafföngum. Stofnunin felur faggiltum skoðunarstofum framkvæmd eftirlitsins og er það boðið út reglulega í samstarfi við Ríkiskaup. Að undangengnu slíku útboði var gerður samningur hjá Mannvirkjastofnun við BSI á Íslandi ehf. til þriggja ára árið 2018. HMS yfirtók þann samning um síðustu áramót, sbr. 18. gr. laga nr. 137/2019.
     Liður 7 og 8: Þar sem stofnunin er nýtekin til starfa eru öll samningamál stofnunarinnar í endurskoðun.
     Liður 9: Íbúðalánasjóður heyrði ekki undir lögum um opinber fjármál sem B-hluta stofnun. HMS tók yfir þá samninga sem Íbúðalánasjóður var með og eru samningamál stofnunarinnar í endurskoðun. Mannvirkjastofnun var ekki með samninga utan 40. og 41. gr. laga um opinber fjármál.
     Liður 10: Nei, engir samningar eru fyrir gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Barnaverndarstofa.
     Liður 1: Barnaverndarstofa hefur gert einn samning sem fellur undir 1. mgr. 40. gr. og er sá samningur vegna reksturs heimilis fyrir börn og unglinga.
     Liður 2: Sjá svar við lið 1 hér að framan.
     Liður 3: Gildistími samnings er tvö ár.
     Liður 4: Nei.
     Liður 5: Árleg fjárskuldbinding vegna samningsins er 155 millj. kr. sem er ríflega 8% af heildarfjárveitingu í fjárlögum yfirstandandi árs.
     Liður 6: Stuðningur við börn og fjölskyldur vegna sértækra þarfa barna í þeim tilgangi að búa börnum og fjölskyldum þeirra gott líf.
     Liður 7: Á árinu 2020 á sér í raun stað símat á ákvæðum samnings, stöðugt er verið að meta þau með t.d. reglulegum heimsóknum, viðtölum við börnin, þvingunarskýrslum. Jafnframt hefur Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verið með eftirlit með heimilinu og barnaverndarnefndir fylgjast með þeim börnum sem þau hafa sent á heimilið.
     Liður 8: Miðað var við bestu þekkingu og vitneskju um hvernig þjónustu við börn á meðferðarheimili skuli háttað.
     Liður 9: Nei.
     Liður 10: Nei, engir samningar fyrir gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Félagsmálaráðuneytið.
     Liður 1: Félagsmálaráðuneytið hefur gert samninga um ýmis verkefni sem falla undir 1. mgr. 40. gr. laganna. Tiltekin verkefni byggja á ákvæðum laga. Þar má nefna samninga um NPA-þjónustu samkvæmt ákvæðum laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Lög og reglur gera ráð fyrir að ríkið leggi fram 25% af kostnaði vegna samninga á móti 75% hlut sveitarfélaga. Einnig eru samningar við sveitarfélög um móttöku kvótaflóttamanna. Ráðuneytið hefur einnig gert samninga vegna reksturs meðferðarheimilis í Krýsuvík og vegna sambýlis á Kópavogsbraut. Að auki eru í gildi samningar vegna kjararannsóknarnefndar, Félagsmálaskóla alþýðu, samningur við Hagstofu Íslands vegna félagsvísa, samningur við Neytendasamtökin vegna húsaleiguráðgjafar og við félagasamtök vegna Bjarkarhlíðar, Stígamóta og samtaka um kvennaathvarf.
     Liður 2: Samningarnir hafa verið gerðir, sbr. heimildir í 1. mgr. 40. gr. laganna.
     Liður 3: Gildistími umræddra samninga er allt frá einu ári og til ótímabundinna samninga sem endurnýjast sjálfkrafa ár frá ári nema samningsaðilar óski sérstaklega eftir að gera breytingar þar á.
     Liður 4: Nei.
     Liður 5: Samningar sem eru taldir upp í svari við lið 1 hér að framan eru fjármagnaðir af mismunandi fjárlagaliðum í umsjón ráðuneytisins, bæði af safnliðum og af sérstökum fjárlagaviðföngum vegna tiltekinna verkefna. Fyrirkomulagið er því nokkuð annað en gengur og gerist hjá stofnunum. Í fjárlögum yfirstandandi árs nemur fjárveiting til 25% hluta ríkisins í NPA-þjónustu um 410 millj. kr. Samningar við sveitarfélög vegna móttöku kvótaflóttamanna verða á yfirstandandi ári að öllum líkindum á milli 700–800 millj. kr. Samningar um rekstur endurhæfingar og sambýlis eru í heildina um 280 millj. kr. Samningar við félagasamtök vegna reksturs athvarfa og stuðnings við þolendur ofbeldis eru um 240 millj. kr. Samningar við Hagstofu Íslands vegna kjararannsóknarnefndar og menningar- og fræðslusamband alþýðu vegna Félagsmálaskóla alþýðu eru um 80 millj. kr.
     Liður 6: Fyrrnefndir samningar falla undir mismunandi málaflokka en samnefnari markmiða miðar að því að búa börnum og fjölskyldum þeirra gott líf og þjónusta miðast að þörfum íbúa þar sem jöfn tækifæri og öryggi leiða til betri lífsgæða.
     Liður 7 og 8: Eins og fram kemur í svörum hér að framan eru samningar félagsmálaráðuneytis af misjöfnum toga. Einstakir samningar kveða á um að veita lögbundna þjónustu og taka því mið af ákvæðum laga og reglna. Aðrir samningar kveða á um að félagasamtök sinni skilgreindum verkefnum eða veiti tiltekna þjónustu sem er þá metin með reglubundnum hætti á samningstímanum, t.d. með upplýsingum um ráðstöfun fjármuna eða um framgang einstakra verkefna.
     Liður 9: Nei.
     Liður 10: Já, örfáir samningar eru ótímabundnir og endurnýjast sjálfkrafa sé ekki sérstaklega óskað eftir því að gera breytingar þar á.