Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1484  —  468. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum (hleðslubúnaður fyrir rafbíla).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnhildi Gunnarsdóttur og Ástu Margréti Sigurðardóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Árna Davíðsson, Stefán Birni Sverrisson og Jóhann G. Ólafsson frá Rafbílasambandi Íslands, Kristján Daníel Sigurbergsson frá Samtökum rafverktaka og Berg Þorra Benjamínsson frá Sjálfsbjörgu – landssambandi hreyfihamlaðra. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Árna Davíðssyni, Rafbílasambandi Íslands, Samorku, SART – samtökum rafverktaka og Sjálfsbjörgu – landssambandi hreyfihamlaðra.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um hleðslubúnað fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum fyrir rafbíla um hvernig eigandi, sem óskar eftir því að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við bílastæði á lóð fjöleignarhúss, skuli bera sig að. Nefndinni bárust umsagnir frá fimm aðilum sem flestar voru jákvæðar. Umsagnaraðilar taka flestir undir markmið frumvarpsins og telja mikilvægt að það nái fram að ganga.

Kostnaður við hleðslubúnað.
    Í frumvarpinu er lagt til að kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla verði sérkostnaður eiganda ef um sérstæði/séreign viðkomandi er að ræða. Ef um er að ræða sameign er aftur á móti gert ráð fyrir því að um sé að ræða sameiginlegan kostnað allra eigenda sem hafa heimild til afnota af viðkomandi stæði.
    Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að með frumvarpinu væri gengið of langt í að veita eigendum rafbíla rétt til að skylda aðra eigendur í fjöleignarhúsum til að standa undir byggingu og rekstri hleðslubúnaðar fyrir ökutæki sín og eðlilegra væri að hver bæri kostnað af sinni bifreið og rekstri hennar en einnig mætti skoða að færa rekstur bílastæða í sérfélög eins og þekkist í sumum nágrannalöndum þannig að notendur stæðu undir rekstri bílastæða en ekki aðrir.
    Þá var nefndinni bent á að margir rafbílaeigendur hafi nú þegar sett upp sína eigin hleðslustöð og staðið undir kostnaði af því. Því væri ósanngjarnt að þeir þyrftu að greiða fyrir sameiginlega hleðslustöð og þannig borga í raun tvöfaldan kostnað við uppsetningu slíkra stöðva
    Meiri hlutinn bendir á að skv. 9. mgr. d-liðar 5. gr. frumvarpsins (33. gr. d) verður húsfélagi heimilt að krefjast þóknunar fyrir notkun stæða sem greidd hafa verið sameiginlega af húsfélagi en ekki þeirra sem rafbílaeigendur hafa nú þegar sett upp. Frumvarpinu er auk þess ætlað að tryggja að þeir sem ekki eiga hagsmuna að gæta þurfi ekki að bera kostnað af uppsetningu hleðslubúnaðar. Þannig kemur fram í greinargerð að það verði að telja „sanngjarnt og eðlilegt að allir þeir sem hafa afnotamöguleika af viðkomandi bílastæðum taki þátt í umræddum kostnaði, enda verður þeim og fólki á þeirra vegum heimilt að nýta sér umrædda aðstöðu til framtíðar.“ Í greinargerð kemur auk þess fram dæmi um að fylgi ákveðnum hluta íbúða ekki stæði, hvorki sérstæði né sameiginleg og óskipt, þurfi eigendur slíkra íbúða ekki að bera kostnað af hleðslubúnaði enda teljist hann einungis sameiginlegur kostnaður þeirra sem hafa bílastæði í séreign, bílastæði í sameign sem fylgir séreignarhluta viðkomandi eða heimild til afnota af sameiginlegum og óskiptum bílastæðum á lóð fjöleignarhúss.
    Auk þess er mikilvægt að líta til þeirrar samfélagslegu sáttar sem hefur skapast um að nýta raforku landsins til umhverfisverndar og áréttar meiri hlutinn að frumvarpið er liður í að ýta frekar undir þá þróun. Frekari rafbílanotkun geti skapað hreinna og betra samfélag fyrir alla og því um mikilvægt framfaraskref að ræða.

Hleðslubúnaður í stæðum fyrir fatlaða.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að með frumvarpinu væri ekki tryggt samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var 23. september 2016 með ályktun Alþingis nr. 61/145. Í 9. gr. samningsins er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart aðgengi og ryðja úr vegi hindrunum til gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum. Ákvæðið á m.a. við um samgöngur, aðgengi að upplýsingatækni, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Til að ákvæði samningsins væru uppfyllt bæri að kveða á um að þar sem hleðslubúnaði yrði komið fyrir yrði einnig að setja hann upp í stæðum sem ætluð eru fyrir fatlaða einstaklinga. Þá var nefndinni bent á að við uppsetningu hleðslubúnaðar og hleðslustæða á vegum sveitarfélaga hefði slíkur búnaður ekki verið settur í stæði fyrir fatlaða einstaklinga og aðgengi þeirra að honum ekki tryggt.
    Meiri hlutinn bendir á að fatlaðir einstaklingar sem búa í fjöleignarhúsum hafa sömu réttindi og aðrir til að óska eftir hleðslustöðvum við stæði. Auk þessa geta húsfélög ákveðið að setja hleðslustöðvar við stæði fyrir fatlaða eða jafnvel á mörkum slíkra stæða og almennra svo að stöð geti nýst fleirum. Mikilvægt er einnig að huga að aðgengi þess hleðslubúnaðar sem komið er upp þannig að ekkert hamli aðgengi að búnaðinum, hjólastólar komist að svo að fatlaðir einstaklingar geti notað hann þó svo að hann sé ekki við stæði sem ætlað er fötluðum einstaklingum. Meiri hlutinn áréttar enn fremur mikilvægi þess að aðgengi sé tryggt fyrir alla og brýnir fyrir stjórnvöldum að huga að aðgengismálum í ákvarðanatöku sinni hvort sem um er að ræða staðsetningu og uppsetningu hleðslustöðva eða aðra þætti.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar tæknilegar breytingar til lagfæringa og til að tryggja réttar tilvísanir til ákvæða sem fá með frumvarpinu ný greinarnúmer. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað b- og c-liðar 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „húsinu“ í 1. málsl. og orðinu „fjöleignarhúsi“ í 2. málsl. 7. tölul. kemur: eða á lóð þess.
     2.      Á eftir 6. gr. komi þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (7. gr.)
             Í stað „33. gr. d“ í 8. mgr. 33. gr. a (sem verður 33. gr. e) kemur: 33. gr. h.
                  b.      (8. gr.)
             Í stað „33. gr. a“ í 1. mgr. 33. gr. b laganna (sem verður 33. gr. f) kemur: 33. gr. e.
                  c.      (9. gr.)
             Í stað „33. gr. a“ og „33. gr. b“ í 1. og 4. mgr. 33. gr. c laganna (sem verður 33. gr. g) kemur: 33. gr. e; og: 33. gr. f.

     3.      Á eftir c-lið 9. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað „33. gr. a“ í 10. tölul. b-liðar 1. mgr. kemur: 33. gr. e.
     4.      11. gr. orðist svo:
             Við 74. gr. laganna bætist: sbr. 33. gr., og hleðslubúnað fyrir rafbíla, sbr. 33. gr. a – 33. gr. d.
     5.      12. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Guðmundur Ingi Kristinsson ritar undir nefndarálit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 22. maí 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Halldóra Mogensen.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.