Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1494  —  737. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um mat á gerðum fjórða orkupakka Evrópusambandsins.


     1.      Hvaða vinna hefur verið unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við að greina áhrif hugsanlegrar innleiðingar á gerðum fjórða orkupakka Evrópusambandsins á raforkukerfið, þar á meðal stjórnskipulag þess, og raforkumarkaðinn hér á landi?
    Í lok maí 2019 var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði ESB löggjafarpakki sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB. Er sá pakki kallaður „Clean energy for all Europeans“ og mætti því nefna pakkann „Hrein orka fyrir alla Evrópubúa“ eða „hreinorkupakkann“. Tekur hann við af gerðum í þriðja orkupakka ESB en er hins vegar víðtækari þar sem hann nær til gerða um endurnýjanlega orku, orkunýtni o.fl. Um er að ræða átta gerðir (fjórar reglugerðir og fjórar tilskipanir) og hafa þær verið birtar í Stjórnartíðindum ESB.
    Fram hefur komið að íslensk stjórnvöld munu efla hagsmunagæslu varðandi hreinorkupakkann og er verkefnið á forgangslista ríkisstjórnarinnar um EES-mál. Á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hefur verið settur á laggirnar starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og Orkustofnunar til að halda utan um þá hagsmunagæslu og rýnivinnu sem þegar er hafin vegna hreinorkupakkans. Mun starfshópurinn í þeirri vinnu hafa náið samráð við hagsmunaaðila. Í raun hófst það samráð þegar haustið 2017 þegar gerðirnar voru í mótun af hálfu ESB.
    Í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála verða viðkomandi þingnefndir Alþingis reglubundið upplýstar um gang málsins, þ.m.t. um beiðnir um undanþágur og aðlaganir vegna gerða hreinorkupakkans fyrir upptöku þeirra í EES-samninginn.
    Er það ferli hafið og má þar vísa til þess að á fundi utanríkismálanefndar 16. ágúst 2019 fóru fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og utanríkisráðuneytis yfir efnisatriði hins nýja löggjafarpakka Evrópusambandsins. Í framhaldi af því var utanríkismálanefnd sent minnisblað frá ráðuneytunum um það efni, dags. 26. ágúst 2019, þar sem bæði er rakin staða málsins og efnisatriði hreinorkupakkans og gögnum deilt sem varða hann.

     2.      Hver er tilhögun þessarar undirbúningsvinnu og hverjar eru helstu tímasetningar í þeirri verkáætlun sem fylgt er, ef við á? Hvernig er háttað verkaskiptingu gagnvart utanríkisráðuneyti í þessum efnum?
    Hreinorkupakkinn hefur undanfarna mánuði verið til skoðunar á vettvangi EFTA-ríkjanna innan EES hjá vinnuhópi EFTA um orkumál. Í vinnuhópnum sitja sérfræðingar frá EFTA-ríkjunum á þessu sviði. Ítarlega rýni og greining á hreinorkupakkanum stendur yfir og mun sú vinna halda áfram á þessu ári og því næsta. Að því loknu munu viðkomandi EFTA-ríki setja fram sínar kröfur um undanþágur og/eða aðlaganir eftir þörfum og í samráð við sín þjóðþing.
    Í framhaldi af því munu hefjast viðræður EFTA-ríkjanna innan EES við framkvæmdastjórn ESB um undanþágur og/eða aðlaganir fyrir EFTA-ríkin innan EES. Því ferli lýkur með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn.
    Gera má ráð fyrir að framangreint ferli getið tekið um fjögur til fimm ár, eins og utanríkismálanefnd Alþingis hefur þegar verið upplýst um. Hafa má til hliðsjónar að þriðji orkupakki ESB var samþykktur á vettvangi ESB á árinu 2009 en ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku hans í EES-samninginn (með viðkomandi aðlögunum og undanþágum fyrir EFTA-ríkin) var samþykkt átta árum síðar eða í maí 2017 og öðlaðist síðan gildi í október 2019.
    Við þetta ferli verður að venju farið eftir reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Þingnefndir verða upplýstar jafnóðum og leitað verður eftir skýru umboði frá ríkisstjórn og Alþingi, á sama hátt og verið hefur, áður en lagðar verða fram beiðnir um undanþágur eða aðlaganir fyrir Ísland á ákvæðum hreinorkupakkans og áður en ákvarðanir verða teknar um hvað beri að leggja áherslu á í samningaviðræðum í því samhengi.

     3.      Hvaða viðmiðum auk samræmis við stjórnarskrá er beitt við mat á því hvort ástæða sé til að fara fram á undanþágur fyrir Ísland á einstökum gerðum fjórða orkupakkans?
    Beiðnir um undanþágur fyrir Ísland á einstökum gerðum hreinorkupakkans verða þegar þar að kemur lagðar fram að fengnu umboði ríkisstjórnar og Alþingis. Umræða um mat á því hvort ástæða sé til að fara fram á undanþágur eða aðlögun á tilteknum atriðum viðkomandi gerða á sér stað á vettvangi þingnefnda Alþingis.
    Af hálfu stjórnvalda er leitast við að upplýsa Alþingi um efnisatriði hreinorkupakkans til þess að unnt sé að leggja upplýst mat á hverju beri að leita eftir undanþágum frá út frá hagsmunum Íslands. Auk samræmis við stjórnarskrá ber þar, nú sem áður, að taka almennt mið af sérstöðu landsins á sviði orkumála, greina hvaða nýmæli kunna að felast í hreinorkupakkanum, hvaða ákvæði kunna síður að eiga við hér á landi vegna sérstöðu Íslands, leggja mat á stjórnskipuleg atriði o.s.frv. Þar er um heildstætt mat að ræða og má hér almennt vísa til þess ferlis sem unnið var eftir við upptöku þriðja orkupakka ESB í EES-samninginn, sbr. fyrrgreint. Það er ferlið sem unnið hefur verið eftir og er í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála.