Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1497  —  811. mál.
Flutningsmaður. Fyrirvari.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Gunnar Björnsson og Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Snorra Olsen ríkisskattstjóra og Elínu Ölmu Arthursdóttur og Ingvar J. Rögnvaldsson frá Skattinum, Drífu Snædal og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Jóhannes Þór Skúlason og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ágúst Karl Guðmundsson og Sigurjón Högnason frá KPMG ehf. og Andra Val Ívarsson frá Bandalagi háskólamanna.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Airport Associates, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Indriða H. Þorlákssyni, KPMG ehf., Samkeppniseftirlitinu og Skattinum. Þá barst sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna þeirra efnahagslegu áfalla sem heimsfaraldur COVID-19-sjúkdómsins hefur í för með sér og kemur til viðbótar ýmsum lagabreytingum sem Alþingi hefur þegar samþykkt, sbr. m.a. lög nr. 25/2020, 37/2020 og 38/2020.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að veittur verði fjárstuðningur úr ríkissjóði til greiðslu hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launamanna með það að markmiði að draga úr líkum á fjöldagjaldþroti fyrirtækja. Fjárstuðningur á grundvelli frumvarpsins miðast við uppsagnir sem verða raktar beint eða óbeint til aðstæðna sem hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru og er m.a. háður því skilyrði að atvinnurekandi hafi orðið fyrir a.m.k. 75% tekjusamdrætti miðað við tilgreind tímabil. Jafnframt er mælt fyrir um réttindi þeirra launamanna sem sagt er upp störfum og atvinnurekandi nýtur stuðnings vegna, m.a. um að þeir njóti forgangs í sambærilegt starf hjá atvinnurekandanum í tiltekinn tíma að uppsagnarfresti liðnum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins.
    Það frumvarp sem hér um ræðir er hluti af víðtækum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til með það fyrir augum að milda tjón af faraldri kórónuveiru. Markmiðið er að draga úr tekjusamdrætti heimila og fyrirtækja sem glíma við vanda og um leið örva efnahagsleg umsvif.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir hluta þeirra aðgerða sem þegar hefur verið gripið til eða eru í þinglegri meðferð og yfir áætluð fjárhagsleg umsvif þeirra:
     *      Hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs um 34 milljarðar kr.
     *      Stuðningur ríkisins vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Brúttókostnaður ríkisins alls 27 milljarðar kr.
     *      Endurgreiðsla ríkissjóðs vegna launa starfsmanna í sóttkví. Kostnaður ríkisins um 1 milljarður kr.
     *      Helmingi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds á gjalddaga í mars 2020 frestað fram til 1. janúar 2021. Áætlað umfang er 11 milljarðar kr.
     *      Launagreiðendum veitt heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðsluskila á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020 til 15. janúar 2021 með möguleika á greiðsludreifingu þeirrar skuldar sem þannig safnast fram til 15. ágúst 2021. Bætir lausafjárstöðu fyrirtækja á yfirstandandi ári um allt að 75 milljarða kr.
     *      Gistináttaskattur felldur niður tímabundið frá 1. apríl 2019 til ársloka 2021. Áætlað tekjutap ríkissjóðs er 1,6 milljarðar kr.
     *      Brúarlán/viðbótarlán með 70% ábyrgð ríkisins allt að 1,2 milljarðar króna. Heildarfjárhæð ábyrgðar ríkisins allt að 50 milljarðar kr.
     *      Stuðningslán lítilla fyrirtækja með 85-100% ábyrgð ríkisins að hámarki 40 millj. kr. Heildarumfang lána er allt að 40 milljarðar kr.
     *      Heimilt að jafna tap yfirstandandi árs á móti hagnaði síðasta árs. Bætir lausafjárstöðu fyrirtækja um 13 milljarða kr.
     *      Lokunarstyrkir. Um 2,5 milljarðar kr. til fyrirtækja sem gert var að loka vegna sóttvarna.
     *      Lækkun bankaskatts flýtt. Umfang 11 milljarðar kr.
     *      Tollafgreiðslugjöld felld niður og gjalddögum aðflutningsgjalda frestað. Umfang 13,6 milljarðar kr.
     *      Alþjóðlegt markaðsátak fyrir ferðamannalandið Ísland. Kostnaður 1,5 milljarðar kr.
     *      Rafrænt gjafabréf til greiðslu á ferða- og veitingaþjónustu innan lands. Kostnaður 1,5 milljarðar kr.
     *      „Allir vinna“. Full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við viðhald, endurbætur og nýbyggingar íbúða og við sumarhús, og vegna bílaviðgerða. Kostnaður ríkissjóðs um 8 milljarðar kr.
     *      Allt að 3.000 sumarstörf fyrir námsmenn. Kostnaður 2,2 milljarðar kr.
     *      40% fjölgun listamanna á listamannalaunum. Kostnaður um 250 millj. kr.
     *      Auknar fjárfestingar ríkisins og opinberra fyrirtækja umfram það sem áður var áætlað. Alls 22,5 milljarðar kr.
     *      Stutt við nýsköpun. Aukin fjármögnun nýsköpunar og hækkun endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs um 5,2 milljarðar kr.
     *      Aukin heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum.
     *      Stuðningur við einkarekna fjölmiðla. Útgjöld ríkissjóðs 400 millj. kr.
     *      Nýtt fljótvirkara úrræði til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja með einföldun reglna.
    Markmið framangreindra aðgerða stjórnvalda er þríþætt. Í fyrsta lagi að tryggja stöðu launafólks og verja ráðningarsamband þess við launagreiðanda. Í öðru lagi að styðja við bakið á fyrirtækjum með það að markmiði að gera þeim kleift að takast á við alvarlegt tekjufall. Í þriðja lagi að örva atvinnulífið og leggja grunn að efnahagslegri uppbyggingu framtíðarinnar sem byggist á fjölbreyttari stoðum en áður um leið og viðskiptahagkerfið er betur í stakk búið til að ná viðspyrnu á komandi missirum. Auk beinna aðgerða sem styðja við vinnumarkaðinn og atvinnulífið almennt hafa stjórnvöld aukið stuðning við barnafjölskyldur með sérstökum barnabótaauka, hugað að öryrkjum, m.a. með sérstakri eingreiðslu, gripið til aðgerða til að verja þá sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður, m.a. með fjárveitingum til nýrra geðheilbrigðisúrræða og félagslegra úrræða, og staðið við bakið á börnum og ungmennum með sérstökum tómstundastyrkjum. Þá hafa framlög til heilbrigðisútgjalda verið aukin. Innbyggð sveiflujöfnun ríkisfjármála hefur einnig vegið þungt í að tryggja hag heimila og fyrirtækja.
    Í maíhefti Peningamála kemur fram að umfang aðgerða stjórnvalda til að styðja við fyrirtæki, launafólk, barnafjölskyldur, öryrkja, sveitarfélög og námsmenn, til að örva efnahagslífið jafnt með skattalegum aðgerðum og auknum fjárfestingum og til að ýta undir nýsköpun, rannsóknir og þróun sé um 352 milljarðar kr. eða sem samsvarar 11,9% af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Seðlabankinn bendir á að ef eingöngu er horft til aðgerða sem fela í sér bein áhrif á afkomu ríkissjóðs samsvarar umfang aðgerðanna um 4,2% af landsframleiðslu sem er svipað umfanginu sem stjórnvöld í Noregi og Danmörku hafa kynnt.
    Meiri hlutinn bendir á tekist hefur að samþætta umfangsmiklar aðgerðir ríkisins við peningastefnu Seðlabankans með árangursríkum hætti. Seðlabankinn hefur stigið fast til jarðar með markvissum aðgerðum á sviði peningamála. Vextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri í sögunni. Meginvextir bankans eru nú 1% en voru 3% í byrjun árs. Bindiskylda banka við Seðlabankann hefur verið lækkuð, slakað á eiginfjárkröfum og sveiflujöfnunarauki á fjármálafyrirtæki felldur niður. Þannig hefur bolmagn bankakerfisins til að styðja við heimili og fyrirtæki í formi nýrra útlána verið stóraukið. Þá hefur Seðlabankinn beitt magnbundinni íhlutun og hafið kaup á ríkisskuldabréfum á eftirmarkaði. Seðlabankinn hefur tilkynnt að kaupin gætu numið allt að 150 milljörðum króna eða um 5% af vergri landsframleiðslu. Þessar aðgerðir hafa leitt til þess að þrátt fyrir aukna lánsfjárþörf ríkissjóðs hafa langtímavextir lækkað.
    Í nýrri spá Seðlabankans er reiknað með að efnahagssamdrátturinn á yfirstandandi ári geti orðið um 8%. Gangi spáin eftir yrði þetta mesti efnahagssamdráttur sem hefur orðið hér á landi á einu ári síðan árið 1920. Ljóst er að afleiðingar farsóttarinnar hefðu orðið mun alvarlegri fyrir heimili og fyrirtæki ef ekki hefðu komið til umfangsmiklar aðgerðir á sviði ríkisfjármála og peningamála. Á komandi ári má reikna með viðsnúningi og góðum vexti efnahagslífsins.

Afmörkun tímabils fjárstuðnings (2. tölul. 5. gr.).
    Í 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins er fjallað um afmörkun tímabils stuðnings úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Í umsögn sinni bendir Skatturinn á misræmi sem gætir milli texta ákvæðisins og þess texta er finna má í greinargerð með frumvarpinu. Leggur Skatturinn þann skilning í ákvæðið að hafi starfsmanni með þriggja mánaða uppsagnarfrest verið sagt upp og uppsögn tekið gildi 1. apríl skuli stuðningur greiddur í maí og júní. Eigi starfsmaður sem sagt var upp á þeim tíma fjögurra eða fleiri mánaða uppsagnarfrest skuli greiða fjárstuðning fyrir maí, júní og júlí. Taki uppsögn gildi fyrr en 1. apríl falli uppsögn utan þessa úrræðis enda litið svo á að skilyrði 2. mgr. 1. gr. um að uppsögn sé til komin beint eða óbeint vegna faraldurs kórónuveiru sé ekki fullnægt.
    Meiri hlutinn tekur undir þessa túlkun sem sett er fram í umsögn Skattsins.

Skilyrði um fullnægjandi skil (7. gr.).
    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvörðun um stuðningsfjárhæð verði tekin af Skattinum með því skilyrði að atvinnurekandi hafi staðið fullnægjandi skil á staðgreiðslu skatts af launum viðkomandi mánaðar. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu er bent á að fyrirtækjum kunni að reynast örðugt að fullnægjandi skil á staðgreiðslu séu gerð að skilyrði. Gert sé ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði VI við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda að launagreiðendum í verulegum rekstrarörðugleikum sé heimilt að sækja um frestun á skilum afdreginnar staðgreiðslu af launum sem eru á gjalddaga 1. apríl til 1. desember 2020.
    Meiri hlutinn bendir á að í athugasemdum um greinina í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að útborgun stuðnings sé háð því að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu af launum fyrir sama tímabil eða hann hafi eftir atvikum sótt um frestun á greiðslu á henni skv. 2. og 3. gr. laga nr. 25/2020. Telur meiri hlutinn því ljóst að með fullnægjandi skilum sé jafnt átt við skil á staðgreiðslu og frestun skv. 2. og 3. gr. laga nr. 25/2020.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Viðmiðunartímabil tekjufalls (4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um þau skilyrði sem atvinnurekandi þarf að uppfylla svo að hann geti hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti. Í 2. tölul. kemur fram það skilyrði að meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda frá 1. mars 2020 til uppsagnardags hafi dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við eitthvert fjögurra nánar tilgreindra tímabila.
    Í umsögnum til nefndarinnar hefur verið bent á að töluvert hafi verið um ferðamenn á Íslandi í fyrri hluta marsmánaðar. Megi því gera ráð fyrir því að mörg fyrirtæki, m.a. í verslun og þjónustu, hafi fengið nokkrar tekjur í marsmánuði og að sá mánuður gefi ekki raunhæfa mynd af því tekjufalli fyrirtækja sem rétt væri að miða við. Í umsögn Airport Associates til nefndarinnar er vakin sérstök athygli á því að óbreytt kunni frumvarpið að skekkja samkeppnisstöðu með óeðlilegum hætti. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins er sérstök athygli vakin á umsögn Airport Associates.
    Að teknu tilliti til framangreindra athugasemda leggur meiri hlutinn til að upphafsdagur viðmiðunartímabils tekjufalls skv. 2. tölul. 4. gr. verði 1. apríl í stað 1. mars. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að dagsetningar í d-lið ákvæðisins breytist til samræmis.

Takmörkun á kaupum á eigin bréfum (3. tölul. 4. gr.).
    Á meðal skilyrða fyrir fjárstuðningi samkvæmt frumvarpinu eru að atvinnurekandi hafi ekki keypt eigin hluti frá 15. mars 2020 og skuldbindi sig til að gera það ekki fyrr en fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur, sbr. 3. tölul. 4. gr. Bent hefur verið á að ástæða kunni að vera til að veita undanþágu frá þessu skilyrði í þeim tilvikum þegar um er að ræða kaup á hlutum starfsmanns sem sagt hefur verið upp störfum og ljóst er að ekki verður endurráðinn.
    Í umsögn KPMG um málið kemur fram að skilyrðið geti verið eðlilegt þegar um verulegan eignarhlut er að ræða enda megi í slíku tilviki gera ráð fyrir að starfssambandið sé fremur afleiðing eignaraðildarinnar en öfugt. Þá kunni að vera uppi aðstæður þar sem það er starfsmanni hagfelldara að halda hlutum sínum í atvinnurekandanum þrátt fyrir uppsögn starfsins, svo sem vegna skattskyldra launatekna sem kunna að hafa myndast hjá starfsmanninum þegar hann eignaðist hlutina en koma fyrst til skattlagningar við sölu þeirra. Loks kunni atvik að vera með þeim hætti að félag hafi í kaupréttarsamningi skuldbundið sig til að kaupa hluti starfsmanns við starfslok og að í slíku tilviki geti verið óeðlilegt að bann við kaupum á eigin hlutum girði fyrir efndir slíkra samninga.
    Í síðastnefnda tilvikinu má gera ráð fyrir að ákvörðun um kaup hlutanna hafi verið tekin fyrir 15. mars enda hafi samningur um kaup hluta við starfslok verið gerður fyrir það tímamark. Samkvæmt orðalagi 3. tölul. 4. gr. frumvarpsins, og af útskýringum í greinargerð með frumvarpinu, er ljóst að miða skuli við dagsetningu ákvörðunar um ráðstöfun en ekki dagsetningu ráðstöfunar. Í umsögn KPMG er bent á að þetta sé fyllilega skýrt um úthlutun arðs en að orðalagið í 3. tölul. 4. gr. geti valdið vafa þegar kemur að lækkun hlutafjár og kaup eigin hluta. Til að skýra þetta atriði leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 3. tölul. 4. gr. þannig að einsætt sé að tímamarkið 15. mars í ákvæðinu miðist við ákvörðun um slíka gjörninga. Þannig verði ljóst að bann við kaupum á eigin hlutum komi ekki í veg fyrir að kaupréttarsamningar um kaup á hlutum starfsmanns við starfslok verði efndir. Eftir sem áður telur meiri hlutinn að við túlkun slíkra samninga, hafi úrræðið sem mælt er fyrir um í frumvarpinu verið nýtt í tengslum við starfslok, verði litið svo á að kaupskylda virkist við það tímamark þegar ljóst er að viðkomandi starfsmaður verði ekki endurráðinn á grundvelli forgangs í sambærilegt starf, sbr. 11. gr., en ekki dagsetningu uppsagnar.

Undanþága frá skilyrði um arðsúthlutun vegna nýs hlutafjár (nýtt ákvæði).
    Á meðal skilyrða fyrir fjárstuðningi samkvæmt frumvarpinu er að atvinnurekandi hafi ekki ákvarðað úthlutun arðs frá 15. mars 2020 og skuldbindi sig til að gera það ekki fyrr en fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur, sbr. 3. tölul. 4. gr. Bent hefur verið á að ástæða kunni að vera til að heimila undanþágu frá þessu skilyrði í tilvikum þegar um nýtt hlutafé er að ræða sem orðið hefur til á grundvelli hlutafjáraukningar sem ráðist er í eftir að fjárhagslegir erfiðleikar, sem rekja má beint eða óbeint til heimsfaraldursins, komu upp. Skilyrðið gæti að öðrum kosti haft fælandi áhrif á fjárfesta, takmarkað þar með möguleika atvinnurekanda á að halda velli og þannig unnið gegn markmiði frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði þar sem Skattinum verði veitt heimild til að veita undanþágu frá skilyrðinu um arðsúthlutun í 3. tölul. 4. gr. frumvarpsins í framangreindum tilfellum enda mæli sérstök rök með því. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu er að hinir nýju hlutir tilheyri sérstökum hlutaflokki, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og að sá hlutaflokkur og forgangur hans til mögulegrar arðgreiðslu verði skilgreindur í samþykktum félags, sbr. 2. mgr. 20. gr. og 12. tölul. 2. mgr. 9. gr. sömu laga.
    Ákvæðið er undanþága frá þeirri meginreglu að ekki skuli koma til arðsúthlutunar fyrr en fjárstuðningur samkvæmt frumvarpinu hefur verið að fullu tekjufærður eða endurgreiddur. Túlka ber undanþáguheimildina þröngt. Í þessu felst að Skatturinn hefur rúmar heimildir til að hafna beiðni um undanþágu samkvæmt ákvæðinu telji hann ekki að sérstök rök mæli með veitingu hennar. Þetta getur t.d. átt við ef sýnt þykir að ákvörðun um hlutafjáraukningu hafi verið tekin í þeim tilgangi fremstum að komast hjá skilyrðinu um arðsúthlutun eða ef slík ákvörðun var tekin áður en ljóst varð að faraldur kórónuveiru mundi hafa verulega slæmar efnahagslegar afleiðingar hér á landi. Ákvörðun Skattsins um veitingu undanþágu samkvæmt ákvæðinu verður endanleg á stjórnsýslustigi, sbr. 6. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Ráðherra getur mælt nánar fyrir um skilyrði undanþágu samkvæmt ákvæðinu í reglugerð, sbr. 16. gr.

Stuðningur vegna orlofslauna (3. tölul. 5. gr.).
    Í 3. tölul. 5. gr. kemur fram að atvinnurekandi geti fengið sérstakan stuðning vegna orlofslauna sem launamaður kunni að eiga rétt á sem nemi að hámarki 85% orlofslauna starfsmanns eða að hámarki 1.014.000 kr. miðað við fullt starf. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að gera verði ráð fyrir að til greiðslu orlofslauna komi í flestum tilvikum, ekki síst í ljósi viðmiðunartímabils stuðnings samkvæmt frumvarpinu sem og í ljósi þess að óheimilt er að láta starfsmann taka orlof á uppsagnarfresti samkvæmt dómaframkvæmd.
    Nefndinni var bent á að ekki væri nægjanlegt að taka fram í ákvæðinu að stuðningurinn skyldi greiðast vegna orlofslauna sem launamaður kynni að eiga rétt á heldur stæðu efni til að taka fram að orlofslaunin hefðu verið greidd við starfslok. Þannig yrði skýrt að heimild til að greiða atvinnurekanda stuðning vegna orlofslauna virkjaðist þegar starfssambandi væri lokið. Með þessu móti yrði ljóst hvernig ákvarða ætti stuðninginn og að gert væri ráð fyrir að sótt yrði um stuðning vegna orlofsuppgjörs við lok uppsagnarfrests. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu í þessu skyni.

Tekjufærsla (8. gr.).
    Í 8. gr. frumvarpsins er útskýrt hvernig atvinnurekandi skuli færa fjárstuðning til tekna í skattskilum sínum. Komi til þess að fjárstuðningur sé umfram það sem dugar til að jafna að fullu tap á yfirstandandi rekstrarári og yfirfæranlegt tap frá fyrri árum skal samkvæmt ákvæðinu tekjufæra stuðninginn á næstu sex árum þar á eftir, 10% á ári fyrstu tvö árin og 20% á ári næstu fjögur ár þar á eftir. Meiri hlutinn leggur til að í stað þessa verði miðað við fjögur ár og 25% á ári.

Birting upplýsinga um fjárstuðning (14. gr.).
    Í 14. gr. frumvarpsins kemur fram að Skattinum sé heimilt að birta upplýsingar um hvaða atvinnurekendum hefur verið ákvarðaður stuðningur úr ríkissjóði samkvæmt lögunum.
    Í umræðum nefndarinnar um málið komu fram sjónarmið um að betur færi á því að kveða á um skyldu Skattsins til birtingar upplýsinga fremur en heimild. Samræmdist það betur sjónarmiðum um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinbers fjár. Meiri hlutinn tekur undir þetta og leggur til að orðalagi 14. gr. verði breytt á þann veg að kveðið verði á um skyldu Skattsins til birtingar upplýsinga um nöfn styrkþega. Jafnframt verði tekið fram að birta skuli upplýsingar um fjárhæð stuðnings til hvers atvinnurekanda fyrir sig.

Fyrirvarar við undirritun nefndarálits.
    Jón Steindór Valdimarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara.

Fyrirvari Jóns Steindórs Valdimarssonar.
    Ég tek undir þær breytingartillögur sem meiri hlutinn gerir eins langt og þær ná. Lagfæringar meiri hlutans eru tvímælalaust til bóta.
    Fyrirvari minn varðar einkum þann kafla álitsins sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins. Þar er fjallað um atriði sem eru alls óskyld frumvarpinu. Hann verður því að vera á ábyrgð stjórnarþingmanna.

Fyrirvari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
    Í fyrri nefndarálitum efnahags- og viðskiptanefndar um mál sem tengjast heimsfaraldri kórónuveiru hef ég minnt á eigin yfirlýsingar um að ég muni greiða fyrir öllum málum sem geti talist til þess fallin að takast á við vandann sem af faraldrinum leiðir. Sú afstaða er enn í gildi þótt ég hefði í sumum tilvikum talið æskilegra að fara aðrar leiðir en þær sem ríkisstjórnin hefur lagt til.
    Sem fyrr hefur starf nefndarinnar leitt til verulegra endurbóta á máli sem vart gat talist fullbúið þegar það var lagt fyrir Alþingi. Breytingartillögurnar samkvæmt álitinu eru almennt til bóta og sumar bráðnauðsynlegar. Tilraun til að leysa þann vanda sem felst í banni við arðgreiðslum fyrirtækja, á sama tíma og mörg fyrirtæki eiga erfitt með fjármögnun, er þó of óljós og flókin til að leysa málið svo að vel sé. Ekki verður þó fram hjá því litið að málið er erfitt viðfangs.
    Óljóst er hvaða erindi upptalning á öðrum aðgerðum stjórnvalda á í þetta nefndarálit. Gera mætti nokkrar athugasemdir við þá upptalningu og kostnaðarmat aðgerðanna. Slík upptalning á þó ekki erindi í nefndarálitið fremur en upptalningin sjálf.
    Að því sögðu skrifa ég undir álitið og þakka þær úrbætur sem þar birtast.

Tillaga um afgreiðslu.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. maí 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
með fyrirvara.

Willum Þór Þórsson.