Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1538  —  811. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Árið 2020 hefur verið ár margra nýjunga, sumra betri en annarra, en þó verður að segjast að 2. minni hluti átti ekki von á því að meiri hlutinn myndi ákveða að skapa sterka hvata fyrir gríðarlega umfangsmiklum, jafnvel sögulegum, hópuppsögnum.
    Þótt vissulega sé girt fyrir ákveðnar gerðir misnotkunar og ýmislegt gert til að tryggja starfsmönnum réttindi sé þeim boðin vinna á ný þá er ljóst að hér er á ferðinni réttur fyrir ótilgreindan fjölda fyrirtækja til opinbers fjárstuðnings í tengslum við uppsagnir ótilgreinds fjölda starfsmanna. Starfsmönnum verður gert að vinna á uppsagnarfresti, á kostnað ríkissjóðs. Að uppsagnarfresti liðnum er atvinnurekandi hvattur til að bjóða starfsmanni sem sagt var upp endurráðningu með sömu kjarasamningsbundnu réttindum og hann hafði áður en ekki endilega sömu launum, hafi þau verið hærri en kjarasamningar segja til um.
    Vandamálið sem er kveikja að þessari lausn meiri hlutans er raunverulegt og alvarlegt. Gríðarlegur fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir verulegu tekjufalli á undanförnum mánuðum vegna þeirra lokana sem hafa þótt nauðsynlegar til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19-sjúkdómsins. Hætt er við því að fjöldagjaldþrot séu á næsta leiti og má líta á tillögu meiri hlutans sem tilraun til að bregðast við óviðráðanlegum aðstæðum (force majeure) með því að treysta efnahagslegan stöðugleika fyrirtækja, jafnvel þótt það raski verulega efnahagslegu öryggi almennings. En þótt vandamál atvinnulífsins séu þetta umfangsmikil er ástæða til að velta því fyrir sér hvort tilgangurinn helgi meðalið og hvort annað og skaðminna meðal hefði staðið til boða. Að því marki tekur 2. minni hluti undir með Alþýðusambandi Íslands sem segir í umsögn sinni: „Fyrirséð er að þorri fyrirtækjanna myndu að öðrum kosti standa frammi fyrir gjaldþroti með tilheyrandi atvinnumissi og tjóni fyrir starfsmenn þeirra“. Þótt þetta væri rétt ef ekkert yrði að gert er 2. minni hluti ósammála þeirri niðurstöðu að styðja þetta tiltekna frumvarp með þeim rökum einum.
    Aðrar leiðir eru í boði en til að kortleggja þær þyrfti að grípa til sértækari lausna. Sértækar lausnir eru stundum illa séðar en þær eru oft viðeigandi. Önnur Evrópulönd hafa komist að þessari niðurstöðu og beitt blöndu sértækra og almennra aðgerða til að styðja við efnahag sinn á undanförnum mánuðum með sameiginlegan skilning um að takmarkandi ríkisstyrkjareglur séu hugsanlega óviðeigandi núna í miðjum faraldri og hafi hugsanlega alltaf verið rangt útfærðar. 2. minni hluti lítur svo á að 3. gr. EES-samningsins, sem er mikilvægasta lagalega forsenda þess að ríkisaðstoð sé óheimil, þarfnist endurskoðunar á komandi árum til að taka mið af þeim sannindum að framþróun hefur oftar en ekki á undangengnum öldum verið fjármögnuð af ríkjum. Að láta sem ríkið sé ekki hluti af hagkerfinu er í besta falli úrelt hugsun. Að reyna að viðhalda slíkum aðskilnaði á kostnað alls annars í miðjum faraldri er hættuleg kredduhyggja. Það er ekki óeðlilegt að setja einhver mörk á ríkisstuðning, ekki síst á innri markaði EES, en það þyrfti að gera með varfærnari hætti.
    Eðlilegt gjald fyrir gagnrýni er betri hugmynd. Hvað myndi 2. minni hluti leggja til frekar? Með fyrirvara um að 2. minni hluti hefur ekki heil ráðuneyti til að vinna greiningarvinnu fyrir sig er hægt að leggja til nokkrar tillögur.
    Í fyrsta lagi gæti ríkið boðist til að kaupa nýtt útgefið hlutafé fyrirtækja sem reka mikilvæga samfélagslega innviði með þeim áhrifum að hlutur eigenda minnkar en að fyrirtækin fyrirgeri sér á móti rétti til útgreiðslu arðs og viðlíka ráðstafana þar til hlutur ríkisins hefur verið keyptur til baka af fyrirtækinu sjálfu. 2. minni hluti telur líklegt að þessi leið verði að endingu farin hvort eð er, enda hefur þessi leið með einum eða öðrum hætti verið farin í ýmsum nágrannalöndum.
    Í öðru lagi mætti liðka fyrir endurreisn þeirra fyrirtækja sem ekki teljast reka mikilvæga samfélagslega innviði með því að ríkissjóður keypti skuldir fyrirtækjanna. Slíka leið þyrfti að meta með hliðsjón af því hvernig mætti tryggja jafnræði og halla síður á þau fyrirtæki sem hafa litlar eða engar skuldir. Miðað við hversu lítið mat virðist hafa farið fram á þeirri leið sem lögð er til í þessu frumvarpi er ekki víst að þetta sé verri nálgun.
    Í þriðja lagi mætti nýta hlutabótaleiðina betur og lengur samhliða öðrum aðgerðum. Það er raunar mikil mótsögn að keyra þessar tvær lausnir samhliða þar sem hvatarnir stangast á. Líklegt er að nokkur fjöldi fyrirtækja hafni hlutabótaleiðinni um leið og tækifæri gefst til að segja upp starfsfólki á kostnað ríkissjóðs. Með því að samkeyra hlutabótaleiðina við öflugan nýsköpunarpakka og jafnvel útvíkka hlutabótaleiðina þannig að hún tryggði skilyrðislausar atvinnuleysisbætur í einhvern tíma hefði mátt greiða fyrir því að atvinnulífið næði sér smám saman yfir lengra tímabil, og yrði jafnvel sterkara eftir á.
    Í fjórða lagi bendir 2. minni hluti á að uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera er gífurlega mikil. Nærtækt dæmi er að húsnæði sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans er ónýtt og hefur verið það í minnst fimmtán ár. Loka þurfti tveimur frumuræktunarstofum út af myglu sem skemmdi öll sýni 2006 en lítið sem ekkert hefur verið gert til að laga aðstæður þessarar deildar sem öll þjóðin hefur reitt sig á. Ef búinn væri til forgangslisti yfir öll þau verkefni sem vitað er að ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafa vanrækt, og ráðist í þau af ákefð á grunni góðrar skuldastöðu ríkissjóðs, mætti bæði efla atvinnustigið verulega og um leið auka líkurnar á því að fólk geti nýtt samfélagslega innviði landsins til að búa til enn frekari efnahagsleg, samfélagsleg og menningarleg tækifæri. Samkvæmt spátöflum Seðlabanka Íslands sem birtast í maíhefti Peningamála 2020 má sjá að gert er ráð fyrir að framleiðsluspenna minnki minnst næstu þrjú ár. Það er eðlilegt að ríkið nýti þessa vannýttu framleiðslugetu til góðra verka.
    Auðvitað mætti skoða fleiri nálganir en þær sem taldar eru upp hér. En réttast er að stakkur sé sniðinn eftir vexti.
    Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar ríkisstjórnin leggur fram sértæka aðgerð, dulbúna sem almenna aðgerð, í þeim tilgangi að leysa flókið og víðfeðmt vandamál. Það er hægt að lesa á milli línanna í frumvarpinu og sjá hvaða fyrirtæki það er hugsað fyrir. Almenningur á Íslandi hefur fullan skilning á því að núverandi ástand er flókið og erfitt og samstaðan undanfarna mánuði hefur sýnt vilja í verki til að íslenskt samfélag komi sterkara undan heimsfaraldrinum. Þegar hagsmunum almennings er hins vegar fórnað á altari örfárra fyrirtækja eins og hér er gert skal engan undra þótt skilningurinn fari þverrandi.
    Stundum koma upp já- eða nei-spurningar þar sem forsendur spurninganna eru rangar og hvorki já né nei er rétt svar. Þegar ónefndur forseti lagði til að slökkva mætti eldinn í Notre Dame kirkjunni með því að varpa tonnum vatns úr flugvél á miklum hraða var flestum ljóst að þótt sú aðferð myndi vissulega duga til að slökkva eldinn myndi hún líklega gereyða kirkjunni líka. Svarið var ekki já eða nei, heldur önnur og betri hugmynd.
    Fjölmörg fyrirtæki sjá að óbreyttu fram á gjaldþrot á næstu vikum og mánuðum. Þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar mun eflaust bjarga einhverjum þeirra en augljóst er að þónokkur hluti þeirra mun eigi að síður hætta rekstri. Svarið er ekki fólgið í einu risastóru sleggjufrumvarpi heldur mörgum minni og hnitmiðaðri aðgerðum. 2. minni hluti telur líklegt að sagan muni dæma þetta úrræði sem mistök þar sem hagsmunum og stöðugleika þorra launamanna var fórnað fyrir hagsmuni nokkurra fyrirtækjaeigenda.

Alþingi, 28. maí 2020.

Smári McCarthy.