Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1576  —  427. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kafbátaleit.


     1.      Hversu oft hafa flugvélar haldið til kafbátaleitar frá Keflavíkurflugvelli hvert undanfarinna fimm ára?
    Kafbátaeftirlitsflugvélar aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins hafa verið hér á landi reglulega frá maí 2014. Ekki er heimilt að upplýsa tíðni verkefna umfram það sem utanríkisráðherra hefur upplýst Alþingi um, m.a. í skýrslu sinni 7. maí sl.

     2.      Hversu mörgum hljóðsjárbaujum er að jafnaði dreift um hafflötinn í slíkum ferðum?
    Tæknilega geta flugvélarnar borið allt að 132 baujur þótt almennt séu um borð mun færri. Ekki er heldur dreift baujum í hvert sinn, oftar er eingöngu fylgst með þeim sem fyrir eru í sjónum.

     3.      Hver er tíðni og styrkur þess hljóðs sem hljóðsjárbaujurnar gefa frá sér og hversu lengi varir hljóðið?
    Með vísan til 2. tölul. er oftar um að ræða hlustun á þær baujur sem fyrir eru þó að einnig séu notaðar baujur sem senda frá sér veik merki neðansjávar. Hér er rétt að fram komi að baujurnar eru ekki stórar og þar af leiðandi er ekki mikið rými fyrir aflgjafa og því sendiafl takmarkað í orku og tíma. Ekki er heimild til að upplýsa sérstaklega um gerð og tegundir af baujum sem notaðar eru í Norður-Atlantshafi sérstaklega en aðgengilegar eru á netinu upplýsingar og tæknilýsingar um flestar gerðir.

     4.      Hefur verið kannað hvaða áhrif kafbátaleit með flugvélum kann að hafa á lífríki sjávar og þá sérstaklega á hvalategundir sem nota hátíðnihljóð til að rata um hafið?
    Eins og fram kemur í fyrri töluliðum snýst kafbátaleit að mestu um að hlusta og einnig leita eftir öðrum merkjum um umferð neðansjávar með annarri tækni. Þær þjóðir sem stunda eftirlitið leggja mikla áherslu á vernd lífs í hafinu og viðhafa verklagsreglur til að takmarka eins og hægt er áhrif af þeim baujum sem senda frá sér hljóðbylgjur. Bandaríkjamenn hafa stundað ítarlegar rannsóknir á þessu sviði undir vinnuheitinu „Marine Mammal Protection Programs“ og birt upplýsingar um slíkar rannsóknir opinberlega.
    Rétt er einnig að fram komi að engin tengsl hafa komið fram varðandi verkefni við kafbátaleit hér við land og hvaladauða, en benda má á að skipafloti hér við land hefur yfir að ráða mun öflugri sendi- og hljóðsjárbúnaði neðansjávar en notaður er við kafbátaleit.