Ferill 747. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1725  —  747. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Seðlabanka Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Seðlabanki Íslands?
    Lögbundið hlutverk Seðlabanka Íslands er skilgreint í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Um verkefni bankans er að öðru leyti getið í fjölmörgum öðrum lögum, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990, lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, lögum um gjaldmiðil Íslands, nr. 22/1968, lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og fleiri lögum.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Seðlabanka Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?     
    Seðlabanki Íslands er skilgreindur sem ríkisaðili í C-hluta, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 50. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, fær Seðlabankinn fjárveitingar úr A-hluta ríkissjóðs, svokallað eftirlitsgjald, sem standa á undir kostnaði við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þetta helgast af sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins sem gekk í gegn 1. janúar sl. Eftirlitsgjaldið telst skattur og Alþingi ákvarðar hlutfall einstakra liða gjaldsins með lögum sem samþykkt eru samhliða fjárlögum hvers árs. Í þessu sambandi skal bent á að í athugasemdum við frumvarp er varð að lögum nr. 123/2015 kemur fram í skýringum við 50. gr. laganna að almennt sé miðað við að ef starfsemi er að stærstum hluta fjármögnuð með tekjum af frjálsum viðskiptum við aðila utan ríkisins þá skuli hún flokkuð utan A-hluta. Samkvæmt framangreindu er Seðlabanki Íslands ríkisaðili í C-hluta sem fær greiðslur úr A-hluta ríkissjóðs í tengslum við fjármálaeftirlit. Er því litið svo á að þessi hluti fyrirspurnarinnar eigi ekki við um bankann.