Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1744  —  542. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Blöndal um gegnsæi umhverfisáhrifa við framleiðslu vara og þjónustu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Áformar ráðherra að skylda fyrirtæki til að greina frá kolefnisfótspori annars vegar og umhverfisáhrifum vegna t.d. plastnotkunar hins vegar við framleiðslu á vörum og þjónustu til að auka gegnsæi og auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun þegar kemur að neyslu?

    Ákvæði um skyldu atvinnurekenda og framleiðenda til að greina frá umhverfisáhrifum, kolefnisfótspori og plastnotkun falla almennt undir lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Má þar m.a. vísa til X. og XI. kafla laganna varðandi skyldur rekstraraðila sem og reglugerð nr. 160/2017, um umhverfismerki, sem sett er með stoð í 6. tölul. 5. gr. laganna. Er sú löggjöf á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og undirstofnanir þess sinna almennt ekki lögbundnum hlutverkum er varða gegnsæi umhverfisáhrifa við framleiðslu vara og þjónustu.
    Í þessu samhengi má benda á að 16. apríl 2020 lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, plastvörur). Meginmarkmið þess er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Með innleiðingunni er stefnt að því að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks, og vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara. Ráðstafanir sem beitt er til að ná þeim árangri sem að er stefnt eru t.d. bann við að setja á markað tilteknar plastvörur, ákvæði um sérstaka merkingu á tilteknum einnota plastvörum til upplýsingar fyrir neytendur, ákvæði um að óheimilt sé að afhenda tilteknar einnota plastvörur án endurgjalds á sölustöðum, kröfur sem varða gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta og átak í fræðslu og upplýsingagjöf um plastvörur.