Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1768  —  672. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur
um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur nýlega skilgreint störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki, þ.e. í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar. Þau störf sem um ræðir eru t.d. störf lögfræðinga og hagfræðinga og ýmis önnur störf sérfræðinga.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Ekki hafa ennþá verið auglýst laus störf án staðsetningar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Ríkisstjórnin hefur falið verkefnishóp að annast framkvæmd aðgerðarinnar „störf án staðsetningar“. Í verkefnishópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta en framkvæmdastjórn skipa fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið með verkefnishópnum og í starfsemi ráðuneytisins er gert ráð fyrir því að markmið stefnumótandi byggðaáætlunar og aðgerðir sem skilgreindar eru í aðgerðaáætlun verði að fullu innleiddar á umræddu tímabili.