Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1770  —  671. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Tólf opinberar stofnanir tilheyra starfsvettvangi félagsmálaráðuneytisins. Sex af þeim starfrækja útibú á landsbyggðinni. T.d. rekur Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun þjónustuskrifstofur í hverjum landshluta – allt upp í átta eða níu útibú og Fjölmenningarsetrið er staðsett á Ísafirði. Í tilviki Tryggingastofnunar eru það sýslumannsembættin um landið sem gegna hlutverki umboðsmanns TR á landsbyggðinni og því ekki á forræði stofnunarinnar sjálfrar að stjórna starfsmannamálum hjá embættum sýslumanns.
    Félagsmálaráðuneytið hefur lagt áherslu á að styrkja rekstur þjónustuskrifstofa sinna stofnana á landsbyggðinni og hvatt þær til þess að staðsetja verkefni þar, ekki bara þau er varða þjónustu við einstaka landshluta, heldur einnig verkefni á landsvísu svo sem þjónustusímaver, yfirferð og afgreiðslu umsókna af ýmsu tagi, sérfræðivinnu, tölvuþjónustu og miðlun upplýsinga. Hefur ráðuneytið hvatt þessar stofnanir til þess að staðsetja nýja starfsmenn eða viðbótarstarfsmenn á þessum þjónustueiningum sínum.
    Jafnframt hefur ráðuneytið í tvígang átt viðræður við alla forstöðumenn stofnana sinna og hvatt þá til þess að líta til áherslna stjórnvalda varðandi störf án staðsetningar. Markmiðið er skýrt að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess verði að finna á fleiri stöðum á landsbyggðinni en nú er.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Ráðherra opnaði í maí sl. starfseiningu á sviði brunamála á Sauðárkróki. Við þetta fjölgar stöðugildum á Sauðárkróki um sjö, en fyrir starfa þar um tuttugu manns við úthlutun húsnæðisbóta, í þjónustuveri og bakvinnslu fyrir húsnæðissvið HMS. Aðgerðin felst í að fjölga starfsmönnum sem sinna brunavörnum, en þær heyra undir HMS eftir sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Breytingarnar fela einnig í sér að sú eining sem sinnir skipulagningu brunaeftirlits færist til innan stofnunarinnar og verður framvegis hýst á starfsstöð HMS á Sauðárkróki.
    Vinnumálastofnun starfrækir þjónustuskrifstofu fyrir Norðurland vestra og greiðslustofu fyrir atvinnuleysistryggingar á Skagaströnd. Þar starfa nú 27 manns eftir nýlega fjölgun um tíu starfsmenn vegna mikils álags í kjölfar COVID-19-veirunnar. Jafnframt hefur verið bætt við starfsmönnum á Ísafirði, Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjanesbæ til þess að mæta álagi og allir þessir starfsmenn sinna þjónustu á landsvísu með gagnvirkum samskiptum. Alls hefur stofnunin bætt við 30 starfsmönnum nú undanfarið og 2/ 3 þeirra verið ráðnir til þjónustueininganna á landsbyggðinni. Aðrar stofnanir ráðuneytisins hafa ekki haft þörf fyrir viðbót að undanförnu né ráðuneytið sjálft þar sem starf án staðsetningar hefur komið til álita – en að því er stöðugt gætt.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Áætlun um þessi markmið er ekki fullmótuð en eins og áður er nefnt er umræða um þau hafin meðal stjórnenda ráðuneytisins og stofnana þess. Sú skoðun er uppi að góð reynsla fjölmargra af fjarvinnu og fjarfundum vegna sóttvarnaráðstafana vegna COVID-19-veirunnar hjálpi til við að ná markmiðum um fjölgun starfa án staðsetningar í framtíðinni. Félagsmálaráðuneytið stefnir að því markvisst að halda áfram að fjölga störfum á sínum vettvangi á landsbyggðinni hvort heldur er hjá þjónustueiningum sem þegar eru fyrir víða um land eða störfum án staðsetningar.