Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1777  —  804. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
    Á árunum 2015–2020 hafa ráðuneytinu borist samtals 227 fyrirspurnir frá þingmönnum. Ráðuneytið lítur á að svör við fyrirspurnum frá þinginu sé hluti af þeim skyldum sem ráðuneytinu ber að sinna. Það er því ekki sérstaklega haldið utan um vinnutíma eða fjölda starfsmanna sem hafa aðkomu að skriflegum svörum við fyrirspurnum, en tíminn getur numið frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Oft á tíðum þarf að kalla eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins sem getur reynst tímafrekt. Eðli og umfang fyrirspurna er mjög mismunandi og í mörgum tilfellum þarf aðkomu margra starfsmanna.

     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
    Ekki liggur fyrir kostnaður ráðuneytisins vegna fyrirspurna frá þingmönnum Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi eða hversu margar vinnustundir eru þar að baki, en samtals hafa borist 18 fyrirspurnir frá þingflokki Pírata á þessu tímabili.

     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?
    Hlutfall fyrirspurna frá þingmönnum Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi hefur verið um 40% allra fyrirspurna til ráðuneytisins. Björn Leví Gunnarsson er með 13 fyrirspurnir eða 29% allra fyrirspurna, Halldóra Mogensen með 3 eða um 6,6% og Jón Þór Ólafsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir með 1 hvort.

Löggjafarþing 145 146 147 148 149 150 Samtals %
Björt framtíð 8 8 3,9%
Flokkur fólksins 1 2 2 5 2,4%
Framsóknarflokkurinn 2 7 2 2 1 1 15 7,0%
Miðflokkurinn 10 6 7 23 11,2%
Píratar 5 15 5 11 11 18 65 31,4%
Samfylkingin 14 3 5 5 27 13,1%
Sjálfstæðisflokkurinn 3 1 4 3 4 15 7,3%
Utan flokka 2 2 1,0%
Viðreisn 1 2 2 1 6 2,9%
Vinstri græn 15 12 5 4 5 41 19,8%
Samtals 47 36 7 38 34 45 207 100,0%