Ferill 821. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1782  —  821. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Nýsköpunarmiðstöð Íslands?
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Samkvæmt lögunum skal stofnunin sinna eftirfarandi verkefnum á því sviði:
     a.      eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið,
     b.      móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja,
     c.      starfrækja frumkvöðlasetur,
     d.      annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja,
     e.      auka veg hönnunar í íslensku efnahagslífi og vekja fyrirtæki til vitundar um mikilvægi hönnunar í nýsköpun og vexti,
     f.      vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu,
     g.      efla samstarf á milli rannsóknastofnana, háskóla, fyrirtækja, fjárfesta og atvinnuþróunarfélaga,
     h.      miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni,
     i.      annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki.
    Rannsóknastarfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal samkvæmt lögunum starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Íslenskar tæknirannsóknir skulu sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      tæknirannsóknum sem leitt geta til aukinnar nýsköpunar, aukinnar framleiðni og betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins,
     b.      tækniþróun, tækniyfirfærslu og aðlögun tækni í nánu samstarfi við fyrirtæki og atvinnugreinar,
     c.      hafa yfir að ráða aðstöðu og færni til að takast á við rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem hafa eða munu hafa afgerandi áhrif á framþróun íslensks atvinnulífs,
     d.      ráðgjöf, mælingum, prófunum og vottunarstarfsemi.
    Samkvæmt lögum um byggingarvörur, nr. 26/2014, skal Nýsköpunarmiðstöð Íslands vera óháður aðili til staðfestingar á nothæfi byggingarvöru.
    Samkvæmt lögum um vísitölu byggingarkostnaðar skal vísitala byggingarkostnaðar reist á grunni sem Hagstofa Íslands ákveður í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.


     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Nýsköpunarmiðstöð Íslands heyrir undir málefnasvið 7 og málaflokk 7.20. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir að stofnunin hafi til ráðstöfunar 1.420,6 millj. kr. til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Skiptist framlagið annars vegar í 704,8 millj. kr. framlag úr ríkissjóði og hins vegar 715,8 millj. kr. rekstrartekjur.