Ferill 854. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1788  —  854. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Barnaverndarstofu.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Barnaverndarstofa?
    Barnaverndarstofan sinnir þeim lögbundnu verkefnum sem talin eru upp í 7. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum. Lögbundin hlutverk stofunnar eru m.a. eftirfarandi:
     a.      Að vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Barnaverndarstofa skal jafnframt hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar.
     b.      Að hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu.
     c.      Að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda.
     d.      Að annast leyfisveitingar til fósturforeldra, taka ákvarðanir og veita barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum skv. XII. kafla barnaverndarlaga.
     e.      Að fara með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk skv. XIII. kafla barnaverndarlaga og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum.
     f.      Að annast leyfisveitingar vegna reksturs heimila og annarra úrræða á ábyrgð sveitarfélaga skv. XIV. kafla barnaverndarlaga.
     g.      Að ákvarða hvar barn teljist eiga fasta búsetu ef ágreiningur rís um lögsögu máls milli barnaverndarnefnda.
     h.      Að skera úr ágreiningi um hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með mál barns sem ekki á lögheimili á Íslandi eða er hér án forsjáraðila sinna.
     i.      Að ákvarða hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með forsjá barns eftir að því hefur verið veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi skv. lögum um útlendinga, nr. 80/2016.
     j.      Að tryggja hagsmunagæslu barna skv. 31. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
    Barnaverndarstofa getur enn fremur rekið sérstakar þjónustumiðstöðvar í því skyni að treysta þverfaglegt samstarf, eflingu og samhæfingu stofnana við meðferð mála á sviði barnaverndar. Þá getur stofan einnig rekið sérhæfð úrræði fyrir börn sem glíma við fjölþættan vanda í samstarfi við önnur yfirvöld, t.d. á sviði fötlunar eða félags- eða heilbrigðisþjónustu. Þá er Barnaverndarstofu heimilt að bjóða barnaverndarnefndum aðra sérhæfða þjónustu, svo sem úrræði utan stofnana á sviði meðferðar fyrir börn, enda sé markmið hennar að auðvelda nefndum að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Samkvæmt 8. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga skal Barnaverndarstofa árlega gefa út skýrslu um starfsemi sína. Enn fremur skal stofan taka við skýrslum um starfsemi frá hverri barnaverndarnefnd árlega og halda utan um tölfræði m.a. um fjölda mála sem nefndirnar hafa haft til meðferðar á tímabilinu, hvers eðlis þau eru og lyktir þeirra, sbr. 1. mgr. 8. gr. barnaverndarlaga. Þá ber stofunni einnig að halda skrá yfir börn í fóstri, sbr. 2. mgr. 73. gr. barnaverndarlaga.
    Samkvæmt 89. gr. c barnaverndarlaga skal Barnaverndarstofa meta þörf fyrir úrræði fyrir börn sem vistast utan heimilis, safna upplýsingum um ráðstafanir og meta árangur tiltekinna úrræða með það að markmiði að auka gæði og stuðla að umbótum. Stofan skal enn fremur meta gæði og árangur þeirra úrræða sem ríkið ber ábyrgð á að séu tiltæk skv. 79. gr. Hefur stofan jafnframt eftirlit með því að úrræði á ábyrgð sveitarfélaga skv. 84. gr. uppfylli hverju sinni þær kröfur sem gerðar eru í lögum, reglugerðum og stöðlum.
    Barnaverndarstofa fer jafnframt með önnur verkefni sem henni eru falin í lögum þessum eða öðrum lögum.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Barnaverndarstofu og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 1.598,7 millj. kr. til reksturs Barnaverndarstofu árið 2020. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofunnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega á einstök verkefni.