Ferill 850. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1794  —  850. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni ríkissáttasemjara.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir ríkissáttasemjari?
    Embætti ríkissáttasemjara sinnir þeim lögbundnum verkefnum sem talin eru upp í 22. gr. laga nr. 80/1938, með síðari breytingum. Lögbundin hlutverk ríkissáttasemjara eru m.a. eftirfarandi:
    Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Hann skal fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Hann skal fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.
    Ríkissáttasemjari skal halda skrá yfir gildandi kjarasamninga og er samtökum launafólks og atvinnurekenda, svo og ófélagsbundnum atvinnurekendum, skylt að senda honum samrit allra kjarasamninga sem þeir gera jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir. Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti. Sömu aðilar skulu einnig senda sáttasemjara samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga. Samningsaðilar skulu enn fremur senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga, svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna ríkissáttasemjara og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 172,8 millj. kr. til reksturs embættis ríkissáttasemjara á árinu 2020. Fjárheimildin er ætluð í verkefni embættisins og er ekki sundurliðuð sérstaklega.