Ferill 872. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1826  —  872. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Rannsóknamiðstöðvar Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Rannsóknamiðstöð Íslands – Rannís?
    Í 12. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með áorðnum breytingum, kemur fram að Rannsóknamiðstöð Íslands sé ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Hlutverk stofnunarinnar sé að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Í því felst að:
     1.      Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs og Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra.
     2.      Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar.
     3.      Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra.
     4.      Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
     5.      Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð og nefndir þess um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
     6.      Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
     7.      Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
     8.      Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
     9.      Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
     10.      Sinna öðrum verkefnum sem mennta- og menningarmálaráðherra felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Rannís og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild til Rannsóknamiðstöðvar Íslands samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020, sbr. auglýsingu nr. 1379/2019 í B-deild Stjórnartíðinda, er 855,4 millj. kr. að frádregnum sértekjum að fjárhæð 545,1 millj. kr. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir lögbundnum verkefnum stofnana í fjárlögum. Eftirfarandi skipting á viðföng kemur fram í fylgiriti með fjárlögum:
     02-231               Rannsóknamiðstöð Íslands 855,4
    02-231.101     Rannsóknamiðstöð Íslands 855,4
    02-231.601     Tæki og búnaður 0,0