Ferill 761. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1852  —  761. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands?
    Fjármálaeftirlitið sinnir opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Eftirlitið fer fram á grundvelli laga nr. 87/1998 og fjölmargra annarra laga, reglugerða og reglna sem gilda um eftirlitsskylda aðila og þar er kveðið á um hlutverk og verkefni stofnunarinnar. Einnig starfar Fjármálaeftirlitið á grundvelli alþjóðlegra grunnreglna um árangursríkt eftirlit á hverju sviði fjármálamarkaðar. Ítarlegar upplýsingar um verkefni Fjármálaeftirlitsins og þá löggjöf sem um eftirlitið gildir er að finna á vef Seðlabanka Íslands undir hnappnum Fjármálaeftirlit.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Samkvæmt lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal sýna skiptingu fjárheimilda eftir málefnasviðum og málaflokkum í fjárlögum og er kostnaði því deilt niður með þeim hætti í fjárlögum fremur en á hvert lögbundið verkefni. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er heildarfjárveiting til Fjármálaeftirlitsins 2.383 millj. kr. Fjárveiting til stofnunarinnar er fjármögnuð annars vegar með eftirlitsgjöldum frá eftirlitsskyldum aðilum sem nema 2.330 millj. kr. og hins vegar með greiðslum fyrir sértækar aðgerðir sem nema rúmum 52 millj. kr., sbr. 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999.