Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1901  —  657. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Í ljósi áætlana ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins og í ljósi fyrirhugaðra stofnanabreytinga innan lögreglunnar, kemur til greina að flytja mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar til Akureyrar og ef ekki, hvers vegna?

    Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu sinnir fræðslu og menntun bæði fyrir verðandi og starfandi starfsfólk lögreglu. Meðal helstu verkefna eru starfsnám lögreglufræðinema, umsjón með símenntun, skipulagning og framboð sérhæfðra námskeiða en nánar segir um hlutverk mennta- og starfsþróunarsetursins í 37. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Starfsemin snýr að öllum lögregluembættum landsins og þar af eru um 80% lögreglumanna staðsett innan eða í að hámarki klukkustundarfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Þá er aðstaðan einnig notuð af sérsveit ríkislögreglustjóra ásamt því að ýmsar stofnanir nýta sér aðstöðuna, til að mynda njóta starfsmenn Skattsins, Fangelsismálastofnunar, slökkviliðsins og Landhelgisgæslunnar sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu góðs af aðstöðu mennta- og starfsþróunarsetursins.
    Ekki er stefnt að því að flytja mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar til Akureyrar. Ekki er talið tilefni til þess að standa undir þeim gríðarlega kostnaði sem slíkur flutningur myndi hafa í för með sér. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra gæti kostað um 2 milljarða kr. að byggja upp sambærilega aðstöðu á Akureyri. Þá mun jafnframt verða ansi kostnaðarsamt og óhagkvæmt að fjármagna ferðalög norður þess stóra hluta lögreglumanna sem starfa á höfuðborgarsvæðinu og umdæmum þar í kring.