Ferill 912. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1995  —  912. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Úrvinnslusjóðs.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Úrvinnslusjóður?
    Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Hann skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög um Úrvinnslusjóð.
    Úrvinnslusjóður á að leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs og semja við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga eftir því sem við á.
    Samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, er hlutverk Úrvinnslusjóðs eftirfarandi:
     a.      Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess.
     b.      Úrvinnslusjóður skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi. Úrvinnslusjóður skal leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs. Úrvinnslusjóður semur við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga eftir því sem við á.
     c.      Úrvinnslusjóði ber að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu, sem og tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs.
     d.      Úrvinnslusjóði er heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.
     e.      Úrvinnslusjóði er heimilt að gera samninga um að taka að sér verkefni sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Slíkir samningar skulu samþykktir af ráðherra.
     f.      Úrvinnslusjóður skal ár hvert gera skýrslu um innheimtu og ráðstöfun úrvinnslugjalds eftir uppgjörsflokkum, svo og um magn og skilahlutfall gjaldskyldrar vöru og úrvinnslu hennar. Auk þess geri Úrvinnslusjóður ár hvert fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar á eftir með hliðsjón af áætlun um magn gjaldskyldrar vöru á markaði, flokkaðs úrgangs sem safnast og kostnaði við úrvinnslu hans á grundvelli útreikninga, útboða og verksamninga.
     g.      Úrvinnslusjóður skal hafa samráð við hlutaðeigandi aðila um atriði er þá varða.
    Samkvæmt lögun um meðhöndlun úrgangs ber Úrvinnslusjóði að safna upplýsingum um magn rafhlaðna og rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgangs sem sett er á markað og það magn af úrgangi sem er safnað og ber sjóðnum einnig að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun þessara vara. Úrvinnslusjóði ber einnig samkvæmt lögunum að standa skil á gjöldum sem framleiðendur og innflytjendur bera vegna reksturs skráningarkerfis og eftirlits Umhverfisstofnunar til stofnunarinnar.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Úrvinnslusjóðs er að finna á heimasíðu stofnunarinnar, www.urvinnslusjodur.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Úrvinnslusjóðs og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Úrvinnslusjóðs samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 1.975,0 millj. kr. og er hún ætluð til að sinna verkefnum ríkisaðilans en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.