Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2011  —  42. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um veiðar á fuglum á válistum.


     1.      Hversu margir fuglar, skipt eftir fuglategundum, sem finna má á válistum samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands, brotið niður á einstaka flokka válista, hafa verið veiddir árlega undanfarin 10 ár?
    Náttúrufræðistofnun Íslands tekur saman válista yfir lífríki Íslands, þ.m.t. fugla. Við gerð nýjasta válistans árið 2018 er stuðst við viðmið Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) frá árinu 2017. Mat á ástandi tegunda gerir kröfu um nokkuð nákvæma vitneskju um útbreiðslu þeirra, fjölda einstaklinga og stofnstærðarbreytingar. Válisti fyrir fugla var fyrst gefinn út af Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2000 1 en þá voru metnar 32 tegundir fugla á válistann samkvæmt þágildandi viðmiðum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins. Flestar tegundirnar fóru á válistann vegna lítillar stofnstærðar eða takmarkaðrar útbreiðslu en nokkrar tegundir vegna fækkunar í stofni yfir ákveðið tímabil fyrir útgáfu válistans. Staða rjúpunnar var síðan skoðuð árið 2004 og var hún þá metin í yfirvofandi hættu samkvæmt válistaviðmiðum vegna fækkunar í stofninum og var í kjölfarið bætt við válistann.
    Hættuflokkar válista eru sjö; útdauð tegund, tegund útdauð á Íslandi, tegund í bráðri hættu, tegund í hættu, tegund í nokkurri hættu, tegund í yfirvofandi hættu og tegund ekki í hættu. Ef gögn skortir til þess að meta hættuflokkinn þá eru tegundir listaðar sérstaklega. Við endurskoðun fuglaválista Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2018 var 91 tegund metin, þar af voru 49 tegundir sem greindar voru í mismikilli hættu. 2 Fjörutíu tegundir voru ekki taldar í hættu en gögn skorti til þess að hægt væri að meta tvær tegundir. Tíu tegundir sem voru á válistanum árið 2000 eru ekki lengur á listanum og af þeim eru tvær veiðitegundir, grágæs og helsingi.
    Á válistanum frá 2000 voru fimm tegundir fugla sem heimilt var að veiða taldar í einhverri hættu, þ.e. svartbakur, hrafn, helsingi, stuttnefja og grágæs. Rjúpu var bætt við hann árið 2004. Helsingi var metinn vera í hættu vegna lítils varpstofns en hinar fimm tegundirnar voru skráðar vera í yfirvofandi hættu, allar vegna hnignandi stofna. Þar sem aðgengilegar veiðitölur ná aðeins fram til ársins 2018 verður í þessu yfirliti notast við gögn úr veiðiskýrslum frá Umhverfisstofnun fyrir árin 2009–2018 fyrir tegundirnar fimm á válistanum frá 2000, ásamt rjúpunni. Sérstaklega verður gerð grein fyrir veiði tegunda sem komu nýjar inn á válistann árið 2018 (sjá töflu 2).
    Veiði þeirra sex fuglategunda sem voru á válista árið 2000 hefur farið heldur minnkandi frá árinu 2009, nema veiði á helsingja sem hefur aukist aðeins, sbr. töflu 1, en helsingi er ekki lengur á válista.

Tafla 1. Yfirlit yfir árlega veiði á tegundum fugla sem voru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2000 til ársins 2018.

Tegund 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Svartbakur 10.232 8.583 8.087 7.536 7.548 6.393 8.252 9.526 6.805 5.132
Hrafn 3.018 3.867 2.849 2.717 3.362 3.015 2.426 2.742 2.633 2.226
Helsingi* 1.621 1.370 1.386 1.970 2.158 2.013 1.863 2.220 1.819 3.146
Stuttnefja 6.798 7.173 5.121 5.256 5.263 4.643 3.434 4.342 3.496 1.600
Grágæs* 58.182 48.239 42.071 41.005 45.219 43.000 38.120 39.464 43.125 40.092
Rjúpa 88.547 73.963 42.304 38.283 45.091 33.185 37.033 34.813 51.061 49.568
* Tegundir ekki á válista 2018.

    Veiði á svartbaki hefur minnkað um helming á þessu tímabili, fór úr 10.232 fuglum 2009 niður í 5.132 fugla árið 2018. Veiðin minnkaði jafnt og þétt frá 2009 til 2014 þegar hún var komin í 6.393 fugla, en jókst aftur næstu tvö árin, í 8.252 fugla árið 2015 og 9.526 fugla árið 2016. Síðan minnkaði veiðin aftur niður í 5.132 fugla árið 2018, eins og fram kemur í töflu 1 og á mynd 1. Stofn svartbaks hefur minnkað mikið síðustu áratugi og var gróflega metinn 6–8 þúsund pör árið 2016. 3 Heildarstofninn er óþekktur en gæti verið 20–25 þúsund fuglar og veiðin á síðustu árum því verið um eða yfir fjórðungur af stofninum sem telst mikið veiðiálag. Sérstaklega þegar haft er í huga að varpárangur svartbaks hefur verið mjög lélegur eftir að viðkoma sandsílis brást kringum 2005.
    Veiði á hrafni dróst einnig saman á þessu tímabili og fór úr 3.018 fuglum árið 2009 niður í 2.226 fugla 2018. Á þessu tímabili var mest veitt árið 2010, þegar veiðin fór í 3.867 fugla, en frá 2015 hefur veiðin verið innan við þrjú þúsund fuglar á ári. Hrafnastofninn var metinn um 14 þúsund fuglar kringum 1985 en ekki liggur fyrir nýrra mat. 4 Varpfuglum hefur fækkað á flestum svæðum sem hafa verið skoðuð en um helmingur stofnsins er ókynþroska fuglar og erfiðara að meta fjölda þeirra. Árleg veiði á hrafni er líklega vel yfir 20% af heildarstofni. Rétt er að geta þess að hvorki svartbakur né hrafn eru veiddir til matar, eingöngu er um að ræða veiðar til þess að verjast eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón af völdum þessara tegunda. Friðun hrafns og svartbaks var aflétt með reglugerð í kjölfar gildistöku laganna og heimilt hefur verið að veiða þær báðar allt árið síðan.
    Veiði á stuttnefju, grágæs og rjúpu hefur að jafnaði heldur dregist saman á þessu tímabili, en veiði á helsingja hefur aftur á móti farið vaxandi. Rétt er að taka fram að veiðar á þessum tegundum eru fyrst og fremst stundaðar sem sportveiði, til nytja og eigin neyslu og helsinginn hefur þá sérstöðu meðal þessara veiðitegunda á válista að stofninn hefur vaxið á seinustu árum. Veiði á stuttnefju fór úr 6.798 fuglum árið 2009 niður í 3.496 árið 2017 og svo niður í 1.600 fugla árið 2018.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Árleg veiði frá árinu 2009 til 2018 á svartbaki, hrafni, helsingja og stuttnefju sem voru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2000.

    Veiði á grágæs, sem ásamt helsingja hefur ekki verið á válista frá 2018, hefur verið sveiflukenndari og dregist heldur saman, var 58.182 fuglar árið 2009 og fór niður í 40.092 fugla árið 2018. Auk þess er veitt úr þessum sama stofni á vetrarstöðvum hans á Bretlandseyjum, þannig að við bætast e.t.v. 10–15 þúsund fuglar sem drepnir eru árlega. Mat á grágæsastofninum byggist á talningum hér á landi og á vetrarstöðvum erlendis en það er örðugleikum bundið vegna þess að íslenskir varpfuglar blandast við aðrar grágæsir á vetrarstöðvunum. Veiðin er hlutfallslega mjög mikil og gæti verið um eða yfir 30% af þeim stofnum. Talningar undanfarin ár benda til minnkandi stofnstærðar grágæsa á allra síðustu árum eftir að hafa verið stöðug um árabil. 5
    Rjúpnaveiði er mun sveiflukenndari en hjá fyrrgreindum tegundum, enda eru náttúrulegar sveiflur í stofnstærð rjúpunnar miklu meiri og tíðari en hjá öðrum tegundum hér á landi. Veiði á rjúpu var langmest fyrstu tvö árin á tímabilinu, 88.547 fuglar árið 2009 og 73.963 fuglar árið 2010 en lækkaði niður í um 35 þúsund fugla á árunum 2014–2016, og jókst síðan aftur í um 50 þúsund fugla bæði 2017 og 2018. Rétt er að geta þess að veiði á rjúpu hafa lotið virkri veiðistjórnun, í náinni samvinnu við Skotvís og Fuglavernd allt þetta tímabil, þar sem breytingar hafa verið gerðar á ráðlagðri ársveiði og veiðitíma út frá árlegri vöktun og stofnstærðarútreikningum.
    Helsingi er tiltölulega nýr landnemi á Íslandi þótt hann hafi lengi verið fargestur hér á landi vor og haust á leið sinni frá Skotlandi til varpstöðva sinna á Austur-Grænlandi. Undanfarin ár hefur myndast nokkur og vaxandi varpstofn á Suðausturlandi sem líklega skýrir það að einhverju leyti að nokkur aukning hefur orðið í veiði á helsingja á þessu tíu ára tímabili. Veiðin fór úr 1.621 fugli árið 2009 upp í rúmlega 3.100 fugla árið 2018, en var frá 2012 rokkandi um og yfir tvö þúsund fuglar á ári (sjá töflu 1 og mynd 1).



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Árleg veiði frá árinu 2009 til 2018 á grágæs og rjúpu sem voru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2000.

Fuglategundir á válista frá 2018.
    Endurskoðun Náttúrufræðistofnunar Íslands á válista fugla árið 2018 leiddi til verulegra breytinga á válistanum m.a. með tilliti til þeirra tegunda sem heimilt hefur verið að veiða hér á landi. Válistaflokkunin er unnin í samræmi við hættuflokka Alþjóðanáttúruverndarsambandsins frá árinu 2017.
    Tvær veiðitegundir af válistanum frá 2000 eru ekki lengur taldar vera í hættu eða yfirvofandi hættu, en það eru grágæs og helsingi, eins og áður sagði. Á válistanum 2018 eru hins vegar ellefu nýjar veiðitegundir metnar vera í hættu eða í yfirvofandi hættu, allar vegna minnkandi stofna. Þetta eru álka, duggönd, fýll, hávella, kjói, langvía, lundi, rita, silfurmáfur, súla og toppskarfur, auk þess sem breyting varð á hættuflokki svartbaks, hrafns, stuttnefju og rjúpu. Rétt er að geta þess að kjóa má eingöngu veiða við friðlýst æðarvörp og veiði á súluungum er eingöngu bundin við hefðbundna nýtingu hlunninda á ákveðnum svæðum þar sem sýslumaður og sveitarstjórn hafa staðfest slíka nýtingu og Umhverfisstofnun hefur gefið út hlunnindakort á rétthafa hlunninda til slíkrar nýtingar.
    Veiði 2018 á tegundum fugla sem metnar voru í mismunandi hættuflokka á válista er að finna í töflu 2.


Tafla 2. Yfirlit yfir veiði á tegundum fugla árið 2018 og hættuflokkur þeirra á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Tegund Veiði 2018 Í bráðri hættu Í hættu Í nokkurri hættu Í yfirvofandi hættu
Lundi 25.675 x
Duggönd 123 x
Fýll 1.387 x
Hvítmáfur 565 x
Kjói 174 x
Stuttnefja 1.600 x
Svartbakur 5.132 x
Hrafn 2.226 x
Langvía 8.596 x
Rita 43 x
Toppskarfur 1.130 x
Álka 5.052 x
Hávella 493 x
Rjúpa 49.568 x
Silfurmáfur 1.084 x

     2.      Hvernig er háttað leyfisveitingum fyrir slíkum veiðum og eftirliti með þeim og hverjir stunda veiðarnar?
    Samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, eru allar tegundir fugla og landspendýra friðaðar og njóta verndar frá aðgerðum manna sem geta haft áhrif á afkomu þeirra og velferð. Ráðherra getur með reglugerð aflétt friðun tiltekinna tegunda fugla á tilteknum tímum að því tilskildu að stofn tegundarinnar sé sjálfbær og geti staðið undir veiðum og nýtingu. Með reglugerð nr. 456/1994 var friðun aflétt af 29 tegundum fugla en síðan hefur hún verið felld úr gildi fyrir tvær tegundir, þ.e. blesgæs og teistu, vegna fækkunar í stofnum þessara tegunda. Aflétting friðunar er almenn og gildir fyrir alla þá sem hafa heimildir samkvæmt lögunum til veiða, m.a. gilt veiðikort frá Umhverfisstofnun. Ekkert beint eftirlit er með veiðum á fuglum en í samræmi við ákvæði laganna skila veiðimenn skýrslu um undangengið veiðiár (almanaksár). Útgáfa nýs veiðikorts er óheimil nema veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hafi verið skilað.
    Samkvæmt sömu lögum eru jafnframt ákvæði um nýtingu hlunninda, sbr. 20 gr., þar sem handhafar þeirra réttinda hafa ýmsar heimildir til nytja. Þar eru m.a. ákvæði um veiðar sem segja að „á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda, álku, langvíu og stuttnefju í háf telst til hlunninda, skulu friðunarákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis“.
    Nú stendur yfir endurskoðun á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samráði við ýmsa aðila. Gert er ráð fyrir því að leggja fram frumvarp með tillögum að ýmsum endurbótum á lögunum við upphaf 151. löggjafarþings.
1     utgafa.ni.is/valistar/valisti_2.pdf
2     www.ni.is/midlun/utgafa/valistar/fuglar/valisti-fugla
3     www.ni.is/node/27117
4     www.ni.is/node/27151
5     monitoring.wwt.org.uk/wp-content/uploads/2019/09/2018-IGC-draft-report-FINAL.pdf