Ferill 832. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2015  —  832. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ræstingarþjónustu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig er ræstingu sinnt hjá ráðuneytinu og stofnunum þess? Óskað er sundurliðunar eftir stofnunum og að fram komi kostnaður árið 2019 þar sem þjónustan var aðkeypt og meðalfjöldi stöðugilda árið 2019 þar sem ræstingu er sinnt af starfsfólki á launaskrá.
     2.      Á hvaða hátt tryggir verkkaupi að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða í þeim tilvikum þegar ræstingu er útvistað?


Ráðuneytið.
    Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins annast rekstur flestra húsa fyrir ráðuneytin, þ.m.t. húsnæðis samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Samkvæmt upplýsingum frá Umbru er ræsting unnin samkvæmt samningi sem gerður var við verktaka eftir útboð Ríkiskaupa. Kostnaður við daglega ræstingu á árinu 2019 var samtals 5.311.566 kr. Það er ræsting á helmingi hússins að Sölvhólsgötu 7.
    Í útboði Ríkiskaupa voru ýmis ákvæði til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð verktaka, sjá útboð nr. 15692. Verktaka er skylt að uppfylla gildandi kjarasamninga og leggja fram gögn því til staðfestingar.
    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins og byggjast svör hvað stofnanir ráðuneytisins varðar á þeim upplýsingum.

Byggðastofnun.
    Byggðastofnun hefur einn starfsmann á launaskrá við að sinna ræstingu á skrifstofu stofnunarinnar.

Póst- og fjarskiptastofnun.
    Kostnaður stofnunarinnar við ræstingu árið 2019 var 1.973.318 kr. Samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun leitaði stofnunin til ræstingafyrirtækis síns, Dagar, og fékk staðfestingu á því að allir starfsmenn fyrirtækisins fá laun og starfskjör í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni og að aðstæður og aðbúnaður er í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Dagar eru með jafnlaunavottun.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
    Dagar sér um ræstingaþjónustu fyrir Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA). Kostnaður vegna ræstingar árið 2019 var 736.451 kr.
    RNSA hefur ekki tryggt sérstaklega að ekki sé um félagslegt undirboð að ræða en vísar í gildi, jafnlaunavottun og siðareglur Daga sem varða vinnustaðastaðla, svo sem varðandi vinnuaðstæður, samningsrétt, launakjör o.fl.

Samgöngustofa.

    Samgöngustofa er með samning við Hreint ehf. vegna reglulegra ræstinga á húsnæði stofnunarinnar. Kostnaður fyrir árið 2019 nam 9.845.005 kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er ákvæði í verksamningi stofnunarinnar við Hreint ehf. um að verksali skuli greiða laun samkvæmt kjarasamningum ASÍ og SA.

Vegagerðin.
    Ræsting er víðtæk hjá Vegagerðinni þar sem Vegagerðin er með 20 starfsstöðvar víðs vegar um landið. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er skipting greiðslna fyrir ræstingu u.þ.b. 2/ 3 aðkeypt þjónusta og 1/ 3 starfsmenn í tímavinnu. 17 manns starfa við ræstingu í tímavinnu samkvæmt uppmælingarákvæði kjarasamninga um allt land.
    Sundurliðun á kostnaði eftir starfsstöðvum árið 2019. Verktakakostnaður annars vegar og launakostnaður hins vegar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er meiri hluti þeirra fyrirtækja sem stofnunin skiptir við með Svansvottun frá Umhverfisstofnun og/eða eru framúrskarandi fyrirtæki, samkvæmt Creditinfo. Svansvottun fæst ekki nema fyrirtæki standi vel að málum, ekki eingöngu varðandi umhverfismál heldur einnig starfsmannamál. Þá er einnig gerð krafa um að bjóðendur í ræstingaþjónustu leggi fram staðfestingu um að þau standi í skilum varðandi félagsgjöld, opinber gjöld og skatta. Einnig er skipt við einyrkja og fjölskyldufyrirtæki.

Þjóðskrá.
    Þjóðskrá Íslands er með tvær starfsstöðvar, í Reykjavík og á Akureyri, og er ræsting aðkeypt á báðum starfsstöðvum. Stofnunin greiddi fimm aðilum fyrir almennar ræstingar, gluggaþvott og þrif á rimlagardínum á árinu 2019. Heildarkostnaður Þjóðskrár Íslands vegna ræstingar árið 2019 var 12.520.116 kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er í gildandi samningum vísað til launataxta og starfskjara samkvæmt kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og annarra aðildarfélaga ASÍ og varða almennar reglur kjarasamninga.