Ferill 677. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2023  —  677. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Ráðuneytið hefur skilgreint nokkurn fjölda starfa sem unnin eru utan ráðuneytisins og sendiskrifstofa. Einkum er um að ræða störf við bókhald, skjalavinnslu og þýðingarvinnu sem fram fer víða um landið. Starfsstöðvar eru á Ísafirði, Sauðárkróki, Seyðisfirði og Akureyri á vegum utanríkisráðuneytisins, auk þess sem ráðuneytið nýtir þjónustu sýslumannsembættisins í Vík í Mýrdal vegna bókhaldsvinnu. Einnig eru starfandi þýðendur við þýðingamiðstöð sem vinna í fjarvinnu án staðsetningar á starfsstöð.
    Samhliða auknum stafrænum lausnum munu opnast fleiri möguleikar í störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Ráðuneytið er því sífellt að endurskoða hvaða störf er hægt að skilgreina sem störf óháð staðsetningu.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Ráðuneytið er með 14 stöðugildi innan landsins utan höfuðborgarsvæðisins og hafa slík störf verið auglýst með staðsetningu á starfsstöðvunum sem starfræktar eru á viðkomandi stað.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Engar fyrirætlanir eru um að breyta eða fækka á starfsstöðvum utan höfuðborgarsvæðisins en stór hluti starfsemi utanríkisþjónustunnar fer fram á erlendri grundu og því er aðeins hluti starfsliðs á hverjum tíma staðsettur á Íslandi.
    Nú þegar starfa 6% starfsmanna ráðuneytisins utan höfuðborgarsvæðisins (14 af 233) og mun hærra hlutfall ef litið er einungis til starfsmanna sem ekki eru flutningsskyldir. Ráðuneytið leggur áherslu á fjölbreytni starfa óháð staðsetningu í þeim tilgangi að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu. Þó ekki hafi verið mótuð eiginleg áætlun stefnir ráðuneytið að því að uppfylla kröfur byggðaáætlunar fyrir árslok 2024.

    Alls fóru tvær vinnustundir í að taka þetta svar saman.