Ferill 817. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2058  —  817. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni á málefnasviði ráðherra.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum á málefnasviði ráðherra sinnir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið?
    Verkefnum er skipt milli ráðuneyta með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018. Málefni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru talin í 2., 3., 4., 7. og 8. tölul. 2. gr.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna á málefnasviði ráðherra og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sinnir verkefnum á málefnasviði 7 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, 14 Ferðaþjónusta, 15 Orkumál og málaflokki 16.10 Markaðseftirlit og neytendamál. Fjárheimildir til verkefna ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 sem hér segir:
    7        Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar: 15.926,9 millj. kr., þar af 1.451,5 millj. kr. sértekjur.
    14    Ferðaþjónusta: 2.005 millj. kr., þar af 15,4 millj. kr. sértekjur.
    15    Orkumál: 4.521,5 millj. kr., þar af 232,8 millj. kr. sértekjur.
    16.10 Markaðseftirlit og neytendamál: 3.209,5 millj. kr., þar af 117,2 millj. kr. sértekjur.