Ferill 931. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2070  —  931. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um hagsmunaverði.


1.      Hversu margir ráðherrar og aðstoðarmenn ráðherra hafa látið af störfum hjá Stjórnarráði Íslands á undanförnum tíu árum? Svar óskast sundurliðað eftir starfsmannahópi/ embætti og ári.
    
Eftirfarandi tafla sýnir fjölda ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra sem látið hafa af störfum hjá Stjórnarráði Íslands á undanförnum tíu árum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



2.      Hversu mörg þeirra gerðust hagsmunaverðir, sbr. nýsamþykkt lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands, innan sex mánaða eftir að störfum þeirra fyrir Stjórnarráð Íslands lauk? Svar óskast sundurliðað eftir starfsmannahópi/embætti og ári.
    
Lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands, nr. 64/2020, voru sem kunnugt er samþykkt á Alþingi í júní í sumar og öðlast gildi 1. janúar 2021. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna er æðstu stjórnendum óheimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði eftir að störfum þeirra í Stjórnarráði Íslands lýkur. Fram til þessa hafa ekki gilt sérstakar reglur um starfsval þessara aðila að loknum störfum hjá Stjórnarráðinu eða um eftirlit ráðuneytisins með því og hefur ráðuneytið hvorki safnað né haldið utan um slíkar upplýsingar. Í ráðuneytinu liggja því ekki fyrir upplýsingar um hversu margir ráðherrar og/eða aðstoðarmenn þeirra gerðust hagsmunaverðir innan sex mánaða frá því að þeir létu af störfum. Eftir gildistöku laganna 1. janúar 2021 mun það hins vegar koma í hlut forsætisráðuneytisins að hafa eftirlit með því að framangreindri skyldu skv. 2. mgr. 5. gr. laganna sé sinnt, auk þess sem það kemur í hlut ráðuneytisins að veita undanþágur frá ákvæðinu skv. 3. mgr. sömu greinar eins og nánar verður rætt um að aftan.

3.      Hversu margir ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar hafa látið af störfum hjá Stjórnarráði Íslands á undanförnum tíu árum og hversu mörg þeirra gerðust hagsmunaverðir innan sex mánaða eftir að störfum þeirra fyrir Stjórnarráð Íslands lauk? Séu slíkar upplýsingar ekki til reiðu hjá forsætisráðuneytinu vegna skiptingar stjórnarmálefna milli ráðuneyta hvernig hyggst ráðherra þá uppfylla eftirlit með 5. gr. áðurnefndra laga?

    Í forsætisráðuneytinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar hafa tekið við starfi hagsmunavarða eftir að þeir hafa látið af störfum í Stjórnarráðinu enda heyrir starfsmannahald ráðuneyta undir hlutaðeigandi ráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018, með síðari breytingum.
    Með gildistöku laga nr. 64/2020 1. janúar 2021 mun það hins vegar koma í hlut forsætisráðuneytisins að viðhafa eftirlit með ákvæðum laganna, m.a. 2. mgr. 5. gr., þar sem fram kemur að æðstu stjórnendum sé óheimilt að taka við starfi hagsmunavarðar í sex mánuði eftir að hafa látið af störfum í Stjórnarráðinu. Í eftirliti ráðuneytisins mun m.a. felast að taka afstöðu til undanþágubeiðna, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá er í 2. mgr. 6. gr. laganna gert ráð fyrir því að ráðherra geti að eigin frumkvæði tekið til skoðunar tilvik þar sem grunur leikur á um brot á ákvæðum 2.–5. gr. laganna. Þá er gert ráð fyrir því að ráðuneytið öðlist yfirsýn yfir þá sem gegna hlutverki hagsmunavarða þar sem hagsmunavörðum verður gert skylt að tilkynna um sig og hlutverk sitt áður en þeir leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda fyrir hönd einkaaðila, sbr. 4. gr. laganna. Ekki er þess vegna gert ráð fyrir því að forsætisráðuneytið haldi skrá yfir starfsval allra æðstu stjórnenda, ráðherra og aðstoðarmanna eftir að þeir láta af störfum heldur er hugsunin frekar sú að ráðuneytið fari með almennt og viðvarandi eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt, sem m.a. getur falist í frumkvæðisathugunum.