Ferill 991. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2124  —  991. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um salerni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra tryggja samræmda framkvæmd laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, þannig að rekstraraðilar og vinnustaðir geti boðið upp á kynhlutlausa salernisaðstöðu, í ljósi þess að á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðherra er meginreglan sú að salerni séu ekki kyngreind (sbr. þskj. 1430) en á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra er meginreglan sú að tryggja að lágmarksfjöldi salerna sé aðgreindur milli kvenna og karla (sbr. þskj. 1422)?

    Tímamótalöggjöf um kynrænt sjálfræði tók gildi í júlí á síðasta ári. Lögin miða að því að bæta réttarstöðu trans og intersex fólks og færa hana til nútímahorfs. Með lögunum var hlutlaus skráning kyns gerð heimil sem felur í sér viðurkenningu á því að ekki falla allir einstaklingar undir tvískiptingu í kven- og karlkyn. Heimildin gerir það að verkum að í laga- og reglugerðarákvæðum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona) verður jafnframt að gera ráð fyrir þeim sem kjósa að hafa hlutlausa skráningu kyns.
    Í ljósi framangreindra breytinga var talið nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun ýmissa laga og stjórnsýslufyrirmæla sem fela í sér afgerandi tvíhyggju varðandi kyn. Forsætisráðherra skipaði starfshóp í október 2019, í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, sem var falið það verkefni að fjalla um og gera tillögur um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks. Ráðgert er að forsætisráðherra leggi fram frumvarp á komandi þingi sem byggt verður á tillögum starfshópsins. Fyrirhugaðar breytingar á löggjöf lúta að ýmsum málefnasviðum í þessu sambandi. Má þar nefna ákvæði laga um réttindi í tengslum við meðgöngu og fæðingu barns, einkum um fjárhagslega aðstoð við foreldra, löggjöf um tæknifrjóvgun og ákvæði sem lúta að kynjajafnrétti. Enn fremur er gert ráð fyrir breytingum á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá er gert ráð fyrir að samhliða leggi dómsmálaráðherra fram frumvarp á Alþingi er lýtur að þeim breytingum sem gera þarf á barnalögum, nr. 76/2003, og nauðsynlegar eru til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu.
    Í svari umhverfis- og auðlindaráðherra á framangreindu þskj. 1430 á 150. löggjafarþingi kemur fram að heildarendurskoðun reglna á málefnasviði ráðherrans sé í vinnslu en að áfram verði miðað við að meginreglan verði sú að salerni verði ekki kyngreind. Sé það hins vegar gert verði rekstraraðilum skylt að bjóða upp á einstaklingssalerni fyrir karla, konur og þau sem kjósa að hafa hlutlausa skráningu kyns.
    Forsætisráðherra telur engum vafa undirorpið að eftir gildistöku laga um kynrænt sjálfræði verði jafnframt að gera ráð fyrir þeim sem kjósa að hafa hlutlausa skráningu kyns í lagaákvæðum, reglugerðum og reglum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona). Í svari félags- og barnamálaráðherra annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðherra hins vegar, sem vísað er til í fyrirspurn þessari, er fjallað um þær reglugerðir og reglur sem gilda um búningsaðstöðu og salerni. Umræddar reglugerðir og reglur eru komnar til ára sinna og ljóst að þörf er á endurskoðun þeirra. Sú endurskoðun er þegar hafin í einhverjum tilvikum og standa vonir til þess að hlutaðeigandi ráðherrar og ráðuneyti þeirra flýti endurskoðun stjórnsýslufyrirmæla í þessu sambandi með framangreinda meginreglu að leiðarljósi svo að tryggja megi að fólk búi við jafna aðstöðu að þessu leyti óháð kyni.