Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2146  —  113. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um skuldbindingu íslenska ríkisins um að réttilega innleiddar EES-gerðir hafi forgangsáhrif í íslenskum rétti.


     1.      Með hvaða hætti hefur ráðherra hagað undirbúningi þess að svarað verði áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar Evrópu, dags. 13. desember 2017, vegna þess sem stofnunin telur vera óviðunandi innleiðingu íslenska ríkisins á skuldbindingum sem felast í bókun 35 við EES-samninginn þess efnis að komi til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga gildi EES-reglur í þeim tilvikum?
    Bókun 35 var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 2/1993 sem tóku gildi 1. janúar 1994. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í fyrstu 18 ár samningstímans en stofnunin leitaði fyrst eftir upplýsingum um málið frá íslenskum stjórnvöldum með bréfi, dags. 11. apríl 2012. Formlegt samningsbrotamál hófst hins vegar ekki fyrr en íslenskum stjórnvöldum barst svonefnt formlegt áminningarbréf (e. „Letter of Formal Notice“), dags. 13. desember 2017, vegna innleiðingar Íslands á bókun 35. Er það fyrsta skrefið í formlegu samningsbrotamáli, en næsta skref er fólgið í útgáfu rökstudds álits áður en stjórn stofnunarinnar tekur ákvörðun um hvort máli verði vísað til EFTA-dómstólsins.
    Í ljósi þess að ESA taldi ástæðu til að hefja formlegt samningsbrotamál á hendur Íslandi þar sem því er haldið fram að þessari innleiðingu hafi verið ábótavant, réttum aldarfjórðungi eftir að bókunin var innleidd í íslenskan rétt, var talið mikilvægt að fara vandlega yfir þær röksemdir sem fram komu í bréfi ESA og leggja mat á hvort athugasemdir stofnunarinnar kölluðu á endurskoðun 3. gr. laga nr. 2/1993 og jafnframt undirbúa svör Íslands við formlegum athugasemdum ESA. Athugun á framangreindum álitaefnum varðar ýmsa mikilvæga þætti er snerta aðild Íslands að EES-samningnum, m.a. hvernig reglum samningsins hefur verið beitt af dómstólum hér á landi og hvernig hægt er að tryggja hnökralausa framkvæmd samningsins innan ramma íslenskrar stjórnskipunar.
    Í því augnamiði að meta réttmæti þeirra athugasemda sem ESA hefur sett fram í framangreindum erindum þá hefur ráðherra annars vegar skipað sérstakan starfshóp íslenskra sérfræðinga og embættismanna og hins vegar aflað utanaðkomandi álits um málið frá erlendum sérfræðingi á þessu sviði. Hafa niðurstöður þessara aðila verið til skoðunar í utanríkisráðuneytinu að undanförnu.
    Hinn 8. maí 2020 var samþykkt í ríkisstjórn minnisblað utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um málið, en í því var lagt til að ráðherra yrði falið, í nánu samráði við oddvita stjórnarflokkanna, að svara erindi ESA efnislega og leggja til grundvallar tiltekin sjónarmið sem reifuð eru í minnisblaðinu.
    Hinn 3. júlí 2020 lagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fram í ríkisstjórn nýtt minnisblað ásamt drögum að bréfi til ESA. Í svarbréfinu var m.a. tekið fram að þá staðreynd að stofnunin hafi ekki gripið til aðgerða vegna innleiðingar á bókun 35 fyrr en á árinu 2017 verði að túlka svo að ákvörðunina um að höfða samningsbrotamál megi alfarið rekja til síðari tíma dómaframkvæmdar hér á landi. Jafnframt var bent á að stjórnskipun hér á landi er ekki hin sama og í hinum EES/EFTA-ríkjunum, sem skýri þá leið sem farin var við innleiðingu bókunarinnar. Nánari skoðun á innleiðingu bókunarinnar kalli á ítarlegri greiningu á samspili ákvæða stjórnarskrárinnar, því hvað ákvæði hennar fela í sér varðandi valdaframsal, umræðna um mögulegar breytingar á stjórnarskránni og þróunar dómaframkvæmdar hér landi. Einnig var vísað til nýlegs dóms stjórnlagadómstóls Þýskalands sem fylgir ekki dómi (forúrskurði) dómstóls Evrópusambandsins í sama máli og varpar ljósi á flókið samspil Evrópuréttar við ákvæði í löggjöf einstakra ríkja EES-svæðisins um áhrif EES-réttar að landsrétti. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu í síðastnefndu minnisblaði um að fela utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að senda umrætt svarbréf til ESA og var svarið sent samdægurs.
    Hinn 25. ágúst sl. lagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra enn á ný fram í ríkisstjórn minnisblað um málið. Þar er upplýst nánar um fyrrnefndan dóm stjórnlagadómstóls Þýskalands. Í minnisblaðinu kemur fram að í dóminum hafi þýski stjórnlagadómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að annars vegar dómur (forúrskurður) frá dómstóli Evrópusambandsins (ESB) í máli C-493/17 Weiss and Others og hins vegar tilteknar ákvarðanir frá Seðlabanka Evrópu hefðu gengið lengra en valdheimildir þessara stofnana heimiluðu og því væri ekki unnt að styðjast við þær í þýskri réttarframkvæmd. Þetta væri í fyrsta skipti sem þýskur dómstóll neitar að beita forgangsáhrifum ESB-réttar.
    Í minnisblaðinu er gerð grein fyrir því mati utanríkisráðuneytisins að í ljósi dóms stjórnlagadómstóls Þýskalands sé þegar af þeirri ástæðu ekki tímabært að huga að breytingum á lögum til samræmis við framkomnar athugasemdir ESA á meðan óvissa ríkir í þessum málum almennt á EES-svæðinu. Í því mati felist þó á þessu stigi hvorki sú afstaða að málatilbúnaði ESA sé hafnað né að fallist sé á hann. Ráðuneytið telji jafnframt rétt að íslensk stjórnvöld áskilji sér áfram rétt til að móta afstöðu sína til málsins og tilkynna ESA eftir því sem framvinda málsins skýrist frekar. Í þessu mati felist að íslensk stjórnvöld geri ráð fyrir að ESA muni af framangreindri ástæðu bíða með frekari málarekstur vegna bókunarinnar þar til staða málsins hefur skýrst betur á EES-svæðinu.
    Ríkisstjórnin samþykkti tillögu minnisblaðsins um að ESA yrði með bréfi upplýst um framangreinda afstöðu, sem lýst yrði sem formlegri afstöðu íslenskra stjórnvalda. Stofnuninni var í kjölfarið tilkynnt um þessa afstöðu íslenskra stjórnvalda með bréfi, dags. 10. september 2020.

     2.      Hvaða efnisþætti og lagarök telur ráðherra helst eiga við í þessu efni?
    Eins og kemur fram hér að framan voru í fyrrgreindum minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar, dags. 8. maí, 3. júlí og 25. ágúst 2020 rakin helstu lagarök er átt gætu við í máli þessu. Í því sambandi má nefna langa, athugasemdalausa og skilvirka framkvæmd EES-samningsins hér á landi, þ.m.t. ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993, mismunandi stjórnskipun innan EES-ríkjanna og nauðsyn á samræmdri framkvæmd á EES-samningnum innan alls EES-svæðisins, ekki síst í ljósi dóms þýska stjórnlagadómstólsins sem getið er um hér að framan.
    Ríkisstjórnin samþykkti tillögu síðastnefnda minnisblaðsins um að ESA yrði með bréfi upplýst um afstöðu íslenskra stjórnvalda, sem lýst yrði sem formlegri afstöðu íslenskra stjórnvalda. Stofnuninni var í kjölfarið tilkynnt um þessa afstöðu íslenskra stjórnvalda með bréfi, dags. 10. september 2020.
    Í fyrrnefndu bréfi til ESA, dags. 10. september 2020, kemur fram að stjórnvöld áskilji sér áfram rétt til að móta og tilkynna til ESA afstöðu sína til málsins og geri ráð fyrir að ESA muni bíða með frekari málarekstur vegna bókunarinnar þar til staða málsins hefur skýrst betur á EES-svæðinu, m.a. með skírskotun til formlegra viðbragða framkvæmdastjórnarinnar í ljósi fyrrgreinds dóms.