Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 35  —  35. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa.

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir.


I. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

1. gr.

    Í stað tölunnar „30“ í 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. laganna kemur: 42.

2. gr.

    Í stað tölunnar „30“ í 1. málsl. 30. gr. laganna kemur: 42.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta skal þó aldrei vera lægri en lægstu laun hverju sinni samkvæmt kjarasamningum.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „149.523 kr.“ í 2. mgr. kemur: 318.250 kr.
     b.      Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: en þó skulu grunnatvinnuleysisbætur aldrei vera lægri en sem nemur 95% af lægstu launum samkvæmt kjarasamningum hverju sinni.

5. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „4%“ í 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: 6%.

6. gr.

    2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum orðast svo: Hið sama gildir á tímabilinu 1. júlí 2020 til og með 31. október 2020 enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli og á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 1. júní 2021 enda hafi launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli.

7. gr

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum orðast svo:     Þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skal sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði. Miða skal við alla þá sem voru atvinnulausir 1. september 2020. Þeir sem lokið höfðu þriggja mánaða tekjutengdu tímabili 1. september 2020 fá greidda þrjá mánuði tekjutengda til viðbótar og miðast greiðslan við upphæð hins fyrra þriggja mánaða tekjutengda tímabils. Hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 fellur niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæði þessu.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2021“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. júní 2021.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hér á landi nutu alls 18.443 atvinnulausir einstaklingar atvinnuleysisbóta úr almenna bótakerfinu í lok septembermánaðar, en 3.319 höfðu minnkað starfshlutfall samkvæmt hlutabótaleið. Samtals voru þetta 21.762 einstaklingar. Í þessum tölum eru ekki þeir sem nú eru á uppsagnarfresti og því fyrirséð að atvinnuleysi mun aukast á næstunni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun, október 2020.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun, október 2020.


    Meðallaun fyrir fullt starf er í kringum 800 þúsund kr. á mánuði samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofu Íslands um laun fyrir árið 2018.
    Á Íslandi eru atvinnuleysisbætur áunnin réttindi launafólks. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis fyrir tilstilli verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka sem tóku slaginn fyrir almenning. Atvinnuleysistryggingar eru hagkvæmar frá þjóðhagslegu sjónarmiði og miðað við hagstjórnarleg markmið.
    Grunnatvinnuleysisbætur eru 289.510 kr. á mánuði. Að auki eru greiddar 11.580 kr. eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni sem er yngra en 18 ára. Með lögum nr. 37/2020 voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða til 31. desember 2020 eða í 17.371 kr.
    Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar út í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils, sem er alls 30 mánuðir. Tekjutengda tímabilið hefur verið lengt tímabundið í sex mánuði frá 1. september 2020 en allir þeir sem þáðu grunnatvinnuleysisbætur fyrir þann tíma fá aðeins þrjá mánuði tekjutengda. Með þessu frumvarpi er ætlunin að tryggja að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði enda illskiljanleg og órökstudd sú mismunun sem lengd tímabilsins felur í sér standi það óbreytt. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 kr. á mánuði. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabil verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur 348.500 kr. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á rekstur heimilis og fjölskyldu hans.
    Með hlutabótaleiðinni er atvinnurekendum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Í þessu frumvarpi er lagt til að viðmiðið verði lækkað aftur í allt að 25% starfshlutfall enda getur það skipt verulegu máli fyrir atvinnurekanda að halda ráðningarsambandi við t.d. fjóra starfsmenn í stað tveggja fái ákvæðið að standa óbreytt. Hlutabótaleiðin yrði framlengd til 1. júní 2021 því að augljóslega mun taka tíma að byggja upp starfsemi að nýju eftir djúpa atvinnukreppu.
    Augljóslega mun sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum draga verulega úr neyslu sinni. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum.
    Kreppan í kjölfar COVID-19-faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og á fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru mun lægri en lágmarkslaun. Til að dreifa byrðunum telja flutningsmenn þessa frumvarps afar mikilvægt að tekjutengda tímabilið verði lengt um þrjá mánuði, grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar í 95% af lágmarkslaunum og rétturinn til atvinnuleysistryggingar lengdur um 12 mánuði. Auk þess verði framlag með hverju barni hækkað varanlega og hlutabótaleiðin framlengd til 1. júní 2021.
    Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma. Störfum fækkar, erfiðara verður að finna aðra vinnu og líkur á langtímaatvinnuleysi aukast. Slæmar félagslegar og heilsufarslegar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru þekktar og þær eru kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur og samfélagið.
    Þegar fram líður verður mikilvægast að fjölga störfum. Það mun taka tíma. Atvinnuleysisbætur má hins vegar hækka strax. Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best. Að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist.
    Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins, að ef atvinnuleysisbætur hækki muni atvinnulausum fjölga. Því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum. Þegar störfum fækkar þúsundum saman í heimsfaraldri sem veldur miklum erfiðleikum í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar. Engin ný störf verða til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnu við þessar aðstæður. Auk þess sýna rannsóknir að atvinnuleysi sé ekki meira í löndum sem búa við öflugar atvinnuleysistryggingar.
    Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið notar til að hækka atvinnuleysistryggingar skilar sér beint til baka í sköttum og auknum efnahagsumsvifum.