Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 37  —  37. mál.
Fyrirsögn. Greinargerð.




Tillaga til þingsályktunar


um tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára o.fl.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sem kveði á um fyrningu heildaraflahlutdeildar í öllum tegundum um fimm hundraðshluta á ári og sölu sömu hlutdeildar á uppboðsmarkaði til 20 ára í senn. Samhliða því leggi ráðherra fram frumvarp til laga um afnám laga um veiðigjald, nr. 145/2018, og nýtt frumvarp til laga um að hlutfall tekna ríkissjóðs af uppboði aflaheimilda skuli varið í sérstakan uppbyggingarsjóð sem hafi það verkefni að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins.
    Ráðherra leggi fram frumvörpin eigi síðar en á vorþingi 2021.

Greinargerð.

    Óvissa fylgir kvótakerfinu, bæði pólitísk og lagaleg, sem er til þess fallin að draga úr virði aflahlutdeildar og framleiðni atvinnugreinarinnar. Því er til mikils að vinna að minnka óvissuna sem kostur er og koma á varanlegri lausn til framtíðar. Þrátt fyrir óvissuna er arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja talsvert meiri en almennt gerist í atvinnulífinu. Mikilvægt er að gjaldtaka atvinnugreinarinnar endurspegli verðmæti hennar en dragi ekki úr arðsemi hennar. Uppboð aflaheimilda, líkt og tillaga þessi kveður á um, er til þess fallið að tryggja að sem mest samræmi sé milli arðsemi greinarinnar og ábata íslensku þjóðarinnar af henni.
    Lagaleg óvissa kerfisins snýr fyrst og fremst að eignarréttarlegri stöðu veiðiheimilda í kjölfar ótímabundinnar úthlutunar þeirra, sem komið var á með lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990. Með því var fest í sessi nýtingarfyrirkomulag á fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sem nýtur að mati ýmissa fræðimanna verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Á sama tíma kveður 1. gr. laga um stjórn fiskveiða á um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
    Til að leysa úr þessari óvissu er að mati flutningsmanna mikilvægt að afnema varanlegan rétt til nýtingar auðlindarinnar. Er hér lagt til að það verði gert með fyrningu heildaraflahlutdeildar, jafnt í öllum tegundum, um 5% á ári og sölu sömu hlutdeildar á opnum uppboðsmarkaði. Við sölu verði gerðir nýtingarsamningar við handhafa aflaheimilda sem kveða á um nýtingarrétt til 20 ára. Nýtingarsamningar þessir verði einkaréttarlegs eðlis og staðlaðir. Hver samningur taki aðeins til aflahlutdeildar í ákveðinni tegund á því tímabili sem hann nær yfir.
    Tímabundinn afnotaréttur er að mati flutningsmanna tillögunnar forsenda þess að ná megi tveimur mikilvægum markmiðum, annars vegar að lagareglur endurspegli með ótvíræðum hætti eignarrétt þjóðarinnar og hins vegar að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiða. Þannig yrði komið á festu um varanleika aflahlutdeilda og umráðaréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni um leið skýrt skilgreindur. Með skýrum tímabundnum afnotarétti er greitt fyrir því að handhafar aflahlutdeilda geti farið með þær sem óbein eignarréttindi, t.d. varðandi framsal og veðsetningu, en hafi ekki á þeim beinan og varanlegan eignarrétt. Þessi nálgun er enn fremur til þess fallin að viðhalda heilbrigðum hvötum núverandi fyrirkomulags fiskveiðistjórnar um sjálfbæra nýtingu, góða umgengni um auðlindina, langtímaarðsemi, nýsköpun og vöruþróun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs til lengri tíma.
    Vegna þessa nýja fyrirkomulags gjaldtöku, sem í uppboði fælist, yrði ekki lengur þörf á lögum um veiðigjald og er því lagt til að ráðherra leggi samhliða fram frumvarp um niðurfellingu viðeigandi laga.
    Sjávarútvegurinn er atvinnugrein sem skapar verðmæti fyrir alla þjóðina. Stór hluti verðmætanna verður til í hinum smærri byggðum landsins og er útgerðin að mörgu leyti lífæð þeirra. Að mati flutningsmanna er sanngirnismál að byggðirnar sem skapa verðmætin og íbúar þeirra njóti ágóðans af verðmætasköpuninni. Þess vegna er lagt til að ráðherra setji á fót sérstakan innviðasjóð sem hluti tekna ríkissjóðs af uppboði aflaheimildanna verði látið renna í. Skal úthlutunum úr sjóðnum varið í að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins og tryggja þannig að hærra hlutfall af verðmætum hafsins sé nýtt til að styðja samfélögin sem sækja þau og skapa.
    Við undirbúning frumvarpsins skal ráðherra styðjast við tillögu Viðreisnar um tímabundna sölu aflahlutdeildar á uppboði, sem lögð var fram í vinnu nefndar, skipaðrar 8. maí 2017, um framtíðarfyrirkomulag við gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni, og frumvarp til laga um stjórn veiða úr makrílstofni sem lagt var fram á 149. þingi (808. mál).