Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 82  —  81. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.
    Ráðherra leggi fram á Alþingi tímasetta stefnu um afreksfólk í íþróttum fyrir 1. júní 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var fyrst flutt á 140. löggjafarþingi (396. mál) og síðast á 150. löggjafarþingi (537. mál).
    Afreksíþróttir hafa skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólk okkar verið góð landkynning á erlendri grund. Jafnframt er öllum ljóst mikilvægi þess að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir. Fyrirmyndir á þessu sviði eru ómetanlegar fyrir allt forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Þessa þætti má telja mikilvægari en nokkru sinni fyrr þegar fyrir liggja niðurstöður kannana sem sýna að rúmlega 80% íslenskra barna á aldrinum 11–17 ára fá ekki nægjanlega hreyfingu á degi hverjum og að slíkt hefur ekki eingöngu áhrif á líkamsburði heldur líka þroska heilans. Ýmislegt hefur verið gert af hálfu hins opinbera sem vert er að nefna, sérsamböndum innan íþróttahreyfingarinnar hefur verið gert kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands, ferðasjóður íþróttafélaga hefur verið efldur og stutt hefur verið við afrekssjóð ÍSÍ, en betur má ef duga skal.
    Síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni. Í desember 2019 skrifaði hópur afreksíþróttafólks undir beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytis og annarra sem málið varðar um að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks. Í yfirlýsingu hópsins kemur m.a. fram að árangurstengdir styrkir frá Afrekssjóði ÍSÍ séu oftar en ekki einu tekjur afreksíþróttafólks til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir. Styrkirnir eru ekki skilgreindir sem laun, sem leiðir til þess að afreksíþróttafólk vinnur sér ekki inn réttindi á meðan á ferlinum stendur. Eftir að honum lýkur standi margt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust, án lífeyrisréttinda, stéttarfélagsaðildar, atvinnuleysisbótaréttar, aðgengis að sjúkra- og starfsmenntasjóðum eða réttinda til fæðingarorlofs, svo að eitthvað sé nefnt.
    Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur mótað afreksstefnu sína þar sem settar hafa verið fram tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber, ásamt því að horfa á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Mörg íþróttafélög í samvinnu við sveitarfélög hafa gert slíkt hið sama.
    Íslendingar hafa átt margt afreksíþróttafólk, hvort heldur í hópíþróttum eða einstaklingsíþróttum, sem hefur náð frábærum árangri á alþjóðavísu. Það er tímabært að stjórnvöld móti stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við sveitarfélögin og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og styðji þannig íþróttahreyfinguna með markvissari hætti.
    Í þingsályktunartillögu þessari er því lagt til að ráðherra verði falið að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum, stefnu sem feli m.a. í sér faglegan og fjárhagslegan styrk. Mikilvægt er að stefnan verði unnin í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin til þess að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni. Þannig eru mestar líkur á að stefnan verði grundvöllur að öflugum stuðningi við afreksfólkið okkar sem eykur líkur á að sem mestur árangur náist. Nauðsynlegt er að stefnan verði tímasett, t.d. til næstu 5–10 ára, og fjárhagslegur stuðningur tryggður samhliða. Stefnan verði endurskoðuð árlega.
    Flutningsmenn leggja til að ráðherra leggi fram tímasetta stefnu fyrir júní 2021. Þá telja flutningsmenn eðlilegt að ráðherra haldi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis upplýstri um framgang málsins.