Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 107  —  106. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um skákkennslu í grunnskólum.


Flm.: Karl Gauti Hjaltason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Brynjar Níelsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Páll Magnússon, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Smári McCarthy, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að kanna hvort tilefni sé til þess að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskólanna. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands, Skáksamband Íslands, Skákskóla Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og eftir atvikum aðra til að kanna hvort tilefni sé til sem og möguleiki á að innleiða reglulega skákkennslu í grunnskólum. Ráðherra upplýsi Alþingi um framvindu málsins á vorþingi 2021.

Greinargerð.

Saga skáklistar á Íslandi.
    Skáklistin á sér sterkar rætur í íslensku þjóðlífi og bera Íslendingasögurnar þess glögglega merki. Tafl em ek örr at efla, íþróttir kann ek níu eru fleyg upphafsorð vísu sem Rögnvaldur Kali jarl í Orkneyjum kvað. Álitið er að skákin, lík því sem hún þekkist í dag, hafi borist hingað til lands síðla á 12. öld, en fram að þeim tíma hafi menn stundað hið forna hnefatafl. Skák virðist upphaflega hafa verið talin til konunglegra íþrótta en þó fljótlega náð útbreiðslu meðal almennings hér á landi. Árið 1861 fannst meðal annars hnefataflsmaður í kumli við Baldursheim í Mývatnssveit. Haugféð frá Baldursheimi var afhent sem grunnur að íslensku forngripasafni í Reykjavík og segja má því að fundur kumlsins hafi orðið kveikjan að stofnun Þjóðminjasafnsins. Þá þarf ekki annað en að rýna örlítið í tungumálið til að sjá að í mörgum málsháttum og orðatiltækjum koma fyrir orð sem eiga uppruna sinn í skáklistinni enda skákiðkun fylgt þjóðinni um aldir.
    Þjóðin hefur átt marga snjalla skákmenn, en um miðja 20. öld eignuðust Íslendingar skákmenn á heimsmælikvarða, fyrstan Friðrik Ólafsson stórmeistara sem var einn af þjóðhetjum hins unga lýðræðis rétt upp úr miðri öldinni. Skákiðkun hérlendis tók mikinn kipp þegar heimsmeistaraeinvígið í skák var haldið hér á landi sumarið 1972, þar sem fulltrúar stórveldanna tókust á á skákborðinu, þeir Bobby Fischer og Boris Spassky. Enn er mikill áhugi á þessum atburði nær hálfri öld síðar og fjöldi gesta leggur leið sína að grafreit heimsmeistarans Bobby Fischers í Laugardælum og heimsækir Fischersafnið á Selfossi.

Áhrif skákiðkunar á nemendur.
    Því hefur löngum verið haldið fram að skákiðkun sé holl iðja og má segja að það hafi verið hinn almenni skilningur. Í því samhengi hafa lengi verið uppi hugmyndir um að skák efli hina ýmsu hæfileika nemenda. Þetta hefur jafnframt komið fram í erlendum rannsóknum. Við skákiðkun þarf að læra og fylgja ákveðnum leikreglum, nota ímyndunaraflið, bera saman mismunandi möguleika, beita rökhugsun og búa til áætlanir. Allt eru þetta eiginleikar sem mikilvægt er að nemendur þrói með sér.

Rannsóknir um áhrif skákkennslu á nemendur á Íslandi.
    Hinn 2. janúar 2013 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sem falið var að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum með sérstakri áherslu á áhrif skákkennslu á námsárangur og félagslega færni barna, kortleggja stöðu skákkennslu í grunnskólum, afla gagna og vitnisburða og rýna í alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum skákiðkunar í skólum. Auk þess var nefndinni falið að gera tillögur að tilraunaverkefni á sviði skákkennslu. Skýrsla nefndarinnar kom út 14. mars 2013 og ber heitið Skák eflir skóla. Nefndin skoðaði fjölda rannsókna sem gerðar hafa verið erlendis á áhrifum skákkennslu á nemendur og voru niðurstöðurnar þær að skákkennsla hefði meðal annars góð áhrif á námsgetu, einbeitingu, ímyndunarafl, sjónminni, forsjálni, ákvörðunartöku, greiningu á úrlausnarefnum, óhlutbundna hugsun, áætlunargerð, fjölþættar lausnir, þrautseigju, félagsleg tengsl og samheldni.
    Um gildi skákiðkunar til eflingar félagslegra tengsla og samheldni innan skóla segir í skýrslunni: „Það sem vakið hefur hvað mesta eftirtekt í rannsóknum seinni tíma á áhrifum skáklistarinnar í skólastarfi er hversu vel skákin hefur reynst félagslega og þá sem samfélagslegt tæki innan veggja skólans. Skákiðkun leiðir þannig saman ólíka hópa krakka með mismunandi bakgrunn sem að öðrum kosti leiða jafnan ekki saman hesta sína; skákin gefur mismunandi kynslóðum og árgöngum barna og ungmenna tækifæri til að kynnast og eiga samskipti og þjappar saman ólíkum hópum nemenda sem að öðrum kosti hafa tilhneigingu til að einangrast frá hver öðrum. Þá virðist skákin ná vel til barna og ungmenna sem ekki endilega finna sig í hinum hefðbundna ramma skólans.“

Rannsóknir um áhrif skákkennslu á nemendur erlendis.
     Sambærilegar erlendar rannsóknir hafa einnig rennt stoðum undir að skákiðkun sé sérstaklega heppileg fyrir nemendur á yngri skólastigum. Þá má sérstaklega nefna sænskar rannsóknir um notkun skákar í kennslu en kennarar nefndu aðallega hversu gott tæki skák væri til að byggja upp bekkjaranda og efla félagsfærni nemenda þar sem í skák séu allir jafnir óháð kyni, tungumálakunnáttu o.fl. Þá geti skákkennsla nýst nemendum sem eigi í erfiðleikum með að einbeita sér að hefðbundnu námi. Skákkennsla í skólum rímar þannig vel við þá grunnþætti menntunar sem taldir eru upp í aðalnámskrá grunnskólanna þar sem meðal annars segir að félagsfærni sé ein af forsendum þess að geta átt í góðum og jákvæðum samskiptum auk þess sem efla beri rökhugsun, gagnrýna og lausnamiðaða hugsun.

Skákiðkun íslenskra nemenda.
    Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið ötull talsmaður þess að efla skuli skákkennslu í skólum og á fundi með forseta Alþjóðaskáksambandsins í apríl 2019 sagði hún: „Skákkennsla og skákiðkun í skólum er jákvæð og sóknarfæri í að efla hana. Það er almennur velvilji gagnvart skákinni innan skólasamfélagsins og við Íslendingar höfum átt velgengni að fagna á vettvangi hennar. Ég fagna því ábendingum og framtaki skákáhugafólks sem vill veg hennar sem mestan. Skákin er skemmtileg, hún er leikur sem þjálfar hæfni sem við viljum sannarlega leggja rækt við í menntakerfinu svo sem seiglu, greiningarhæfni og úrræðagæði.“ Orð ráðherrans falla vel að niðurstöðum framangreindrar skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2013.
    Síðustu ár hefur skákkennsla náð sterkri fótfestu í fjölda grunnskóla en hún fer fram á mismunandi hátt. Flutningsmenn telja að til mikilla hagsbóta væri að setja skák á aðalnámskrá grunnskólanna, ekki síst með áherslu á yngsta skólastigið, í því skyni að efla góða eiginleika nemenda, nota hana sem tæki til að skapa góðan bekkjaranda og gefa nemendum færi á að blómstra án takmarkana. Til þess að slík innleiðing gefist sem best þarf ákveðinn undirbúningur að fara fram og mælast flutningsmenn til þess að ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands auk hinna ýmsu skáksamtaka sem hafa annast skákkennslu meðal ungra nemenda undanfarin ár.
    Í framangreindri skýrslu nefndar um eflingu skákkennslu í skólum kom fram mikill áhugi skólastjórnenda á að taka þátt í tilraunaverkefni um innleiðingu skákkennslu og færð sannfærandi rök fyrir því að skákkennsla skyldi tekin upp í skólum sem hluti af fastri stundaskrá grunnskólanna. Skáksambandið hefur staðið fyrir kennaranámskeiðum, t.d. nú nýverið í tengslum við skákhátíð á Selfossi þar sem kennari var Jesper Hall, formaður kennslunefndar Evrópska skáksambandsins. Það ætti því að vera einfalt að sækja þekkingu og reynslu til að standa að innleiðingu skákkennslu í grunnskólum.
    Skák hefur verið innleidd í aðalnámskrá nokkurra ríkja og 15. mars 2012 samþykkti Evrópuþingið yfirlýsingu þess efnis að aðildarríki Evrópusambandsins skyldu innleiða skákkennslu í menntakerfi landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að skák sé aðgengilegur leikur fyrir börn óháð félagslegri stöðu sem geti aukið félagsfærni þeirra og dregið úr mismunun. Þá hafi skák góð áhrif á einbeitingu, þolinmæði, þrautseigju, sköpunargleði, innsæi, minni og rökhugsun óháð aldri barna.
    Ljóst er að mikill einhugur ríkir meðal almennings og innan skólakerfisins um jákvæð áhrif skákiðkunar á nemendur og telja því flutningsmenn að kanna skuli hvort tilefni sé til að auka vægi skákkennslu með því að innleiða hana í aðalnámskrá grunnskólanna.