Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 351  —  315. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 frá 23. október 2020 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi) frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 frá 23. október 2020 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi) frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I) og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (sbr. fskj. II).
    Þar sem innleiðing fyrrnefndrar gerðar krefst breytinga á lögum var ákvörðun nr. 165/2020 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, „Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“, kemur fram að frá árinu 1994 til ársloka 2016 hafi Ísland tekið upp 13,4% þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili.
Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1564/ESB frá 13. september 2017.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 fjallar um sérstök leyfileg afnot verka og annars efnis, sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum, í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða prentleturshamlaðir. Tilskipunin breytir tilskipun 2001/29/EB um samræmingu á tilteknum þáttum höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu þannig að vísað er til tilskipunarinnar í ákvæði b-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Megintilgangur tilskipunarinnar er að samræma reglur Evrópusambandsins um þessi efni við ákvæði Marakess-sáttmálans um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum. Sáttmálinn var samþykktur í Marakess 27. júní 2013 og er Evrópusambandið aðili að honum.
    Tilskipun (ESB) 2017/1564 er alls 13 greinar og er markmið tilskipunarinnar sett fram í 1. gr. hennar þar sem segir: „Þessi tilskipun miðar að frekari samræmingu á gildandi löggjöf Sambandsins um höfundarétt og skyld réttindi innan ramma innri markaðsins, með því að koma á reglum um notkun á tilteknum verkum og öðru efni án samþykkis rétthafa þeirra í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun.“ Þetta markmið er síðan nánar rætt í 1.–8. og 16.–18. formálsgreinum tilskipunarinnar.
Skilgreiningar eru settar fram í 2. gr. tilskipunarinnar. Þær byggjast á Marakess-sáttmálanum en lengra er gengið í að gera greinarmun á milli sjónskerðingar og lesblindu og annarra þátta sem geta valdið því að einstaklingur geti ekki nýtt sér prentað mál.
    Í 3. gr. og formálsgreinum 9 og 10 er fjallað um þau afnot sem takmarkanir og undantekningar í höfundalögum skulu tryggja að séu heimilar án sérstaks samþykkis rétthafa, á verkum sem viðkomandi rétthafi þjónustu, fulltrúi hans eða viðurkennd eining hafa löglegan aðgang að. Skv. 2. mgr. 3. gr. skulu aðildarríki tryggja að þegar verk eru sett á aðgengilegt form á grundvelli takmarkana sem tilskipunin heimilar skuli gæta að sæmdarrétti að því leyti sem mögulegt er. Í 3. mgr. 3. gr. er ítrekað að takmarkanir og undantekningar samkvæmt tilskipuninni skuli vera í samræmi við hina alþjóðlegu þriggja þrepa reglu. Í 4. mgr. 3. gr. er fjallað um samspil takmarkana og undantekninga við ákvæði um tæknilegar ráðstafanir. Í 5. mgr. 3. gr. er kveðið á um að takmörkunum og undantekningum samkvæmt tilskipuninni megi ekki afsala með samningum. 6. mgr. 3. gr. heimilar aðildarríkjum að koma á bótagreiðslum vegna takmarkana og undantekninga samkvæmt tilskipuninni, sbr. formálsgrein 14.
    4. gr. kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að viðurkenndar stofnanir, sbr. 5. gr. og formálsgreinar 11–14, megi gera eintök fyrir aðrar viðurkenndar stofnanir í öðrum aðildarríkjum. Einnig er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja að rétthöfum þjónustu og viðurkenndum einingum sé heimilt að nota eintök frá viðurkenndum einingum í öðrum aðildarríkjum.
    5. gr. kveður á um skyldur viðurkenndra stofnana varðandi öryggisatriði til að tryggja rétta meðferð takmörkunarheimildarinnar og upplýsingagjöf til rétthafa höfundaréttar og rétthafa þjónustu. Formálsgreinar 12–15 fjalla einnig um skilyrði notkunar verka samkvæmt takmörkunarheimildum tilskipunarinnar.
    6. gr. kveður á um að aðildarríki skuli hvetja viðurkenndar stofnanir til að upplýsa um nöfn sín og samskiptaleiðir við sig til stjórnvalda. Þessar upplýsingar eiga aðildarríki síðan að senda til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
    7. gr. kveður á um að framkvæmd tilskipunarinnar skuli vera í samræmi við persónuverndarlöggjöf, sbr. einnig formálsgrein 15.
    8.–13. gr. fjalla um breytingar sem þarf að gera á tilskipun 2001/29/EB vegna Marakess-tilskipunarinnar um skýrslugerð framkvæmdastjórnar ESB vegna tilskipunarinnar, innleiðingartíma, gildistökudag og aðildarríki ESB séu viðtakendur tilskipunarinnar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Tilskipunin er liður í aðild Evrópusambandsins að Marakess-sáttmálanum, eins og að framan greinir. Með því að innleiða tilskipunina er jafnframt búið í haginn fyrir Ísland til að gerast aðili að sáttmálanum en ýmis hagsmunasamtök sjónskertra og leshamlaðra hafa óskað eftir að Ísland verði sem fyrst aðili. Gera þarf breytingar á höfundalögum. Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- og lestrarhömlun) (136. mál á 151. löggjafarþingi).

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 var send utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá utanríkismálanefnd Alþingis, dags. 14. mars 2018, kemur fram að málið hafi fengið efnisumfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd. Nefndin gerði ekki athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn en lagði áherslu á mikilvægi samráðs við helstu hagsmunaaðila áður en vinna við frumvarp færi fram. Utanríkismálanefnd tók undir þessi sjónarmið.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 frá 23. október 2020 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi).


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0351-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0351-f_II.pdf