Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 436  —  350. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (heildaraflahlutdeild).

Flm.: Páll Magnússon.


1. gr.

    Við 3. mgr. 13. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kaupi einstakur aðili, sem fyrir á fiskiskip með aflahlutdeild, eignarhlut í útgerð, sem á fiskiskip með aflahlutdeild, skal leggja hlutfall kaupanda í aflahlutdeild seljanda saman við þær heimildir sem hann á fyrir. Telst sú heildaraflahlutdeild tilheyra kaupanda í skilningi 1. og 2. mgr. og sætir þeim takmörkunum sem þar er kveðið á um.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fari heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila yfir þau mörk sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. skulu aðilar gera ráðstafanir til að koma heildaraflahlutdeild þannig fyrir að hún rúmist innan lögbundinna marka fyrir lok fiskveiðiársins 2025/2026.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/20016, til frekari afmörkunar á því hvernig telja skal saman aflahlutdeild aðila með hliðsjón af ákvæðum um lögbundna hámarksaflahlutdeild, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.
    Reglur um hámarksaflahlutdeild voru lögfestar með lögum nr. 27/1998, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í greinargerð með frumvarpi að þeim lögum kom fram að meginmarkmið reglna um hámarksaflahlutdeild væri að einstök fyrirtæki gætu ekki orðið það stór að það beinlínis hamlaði eðlilegri samkeppni í útgerð.
    Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps er því að kveða afdráttarlaust á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni hluti eða meiri hluti, leggst hið nýja hlutfall aflaheimildar við það sem fyrir var í eigu kaupanda. Liggur þá strax ljóst fyrir hvort aflahlutdeild aðila fari umfram þau mörk sem sett eru í 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna. Sem dæmi má nefna að ef eigandi útgerðarfyrirtækis A sem á fyrir 5% aflahlutdeild kaupir 49% í útgerðarfyrirtæki B sem á alls 6% aflahlutdeild verður heildaraflahlutdeild útgerðarfyrirtækis A samtals þau 5% sem fyrir voru að viðbættum 49% af 6% aflahlutdeild seljanda, eða tæp 3%, þ.e. alls tæp 8%. Þeirri breytingu sem lögð er til með frumvarpinu er því ætlað að koma í veg fyrir að allt að helmingur allra aflaheimilda geti safnast á hendur eins aðila.
    Aðila ber eftir sem áður, skv. 1. mgr. 14. gr. laganna, að tilkynna Fiskistofu um kaup á eignarhlut í lögaðilum o.fl. sem snýr að því að aðili auki við aflahlutdeild fiskiskipa í sinni eigu og að fyrirsjáanlegt sé að samanlögð aflahlutdeild fari umfram þau mörk sem sett eru með 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.
    Þá er lagt til að sett verði nýtt ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um aðlögunartíma fyrir þá aðila sem verða fyrir áhrifum af þessum breytingum og fara yfir lögbundið hámark aflahlutdeilda á grundvelli þeirra. Efni frumvarpsins getur haft íþyngjandi áhrif á atvinnustarfsemi sem byggð hefur verið upp í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma og þykir því rétt að gefa þeim aðilum rúman aðlögunartíma að breyttum reglum. Sambærilegt ákvæði var sett í lög þegar krókaaflahlutdeild var felld undir reglur um leyfilega hámarksaflahlutdeild.
    Þeirri breytingu sem lögð er til með þessu frumvarpi er ætlað að skýrar frekar þær reglur sem gilda um hámarksaflahlutdeild hverju sinni í lögum um stjórn fiskveiða og taka af allan vafa um að við kaup einstakra aðila á hlut í öðru útgerðarfyrirtæki leggst hlutfall aflahlutdeildar í eigu seljanda við þá aflahlutdeild sem fyrir er hjá kaupanda. Eru breytingarnar því til einföldunar og ætlað að styrkja stoðir heilbrigðrar samkeppni í sjávarútvegi.