Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 490  —  303. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um birtingu laga í Stjórnartíðindum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvert er verklag við birtingu laga í Stjórnartíðindum? Eru í gildi vinnureglur í ráðuneytinu um birtingu laga og ef svo er, hver er texti þeirra reglna? Ef slíkar reglur eru í gildi telur ráðherra að sá dráttur sem varð á birtingu laga um fiskeldi, sem samþykkt voru á Alþingi 20. júní 2019, hafi verið í samræmi við þær reglur? Telur ráðherra að rétt hafi verið staðið að birtingu fyrrgreindra laga?

    Verklag við birtingu laga í Stjórnartíðindum mótast af eftirfarandi vinnureglum sem unnið er eftir:
          a.      Tvö skjöl með texta meginmáls samþykkts lagafrumvarps annars vegar og svokölluðum „haus og hala“ hins vegar eru send frá Alþingi til Stjórnartíðinda með tölvupósti þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Samþykkt lög eru jafnframt send frá Alþingi til viðkomandi ráðuneytis sem útbýr skjöl með áritun ráðherra á tillögu til forseta um að staðfesta lögin sem ráðuneytið sendir til forsætisráðuneytis ásamt beiðni um að koma lögunum til forseta til samþykktar. Skal það gert innan tveggja vikna frá því að lagafrumvarp er samþykkt á Alþingi. Staðfesting forseta veitir samþykktu lagafrumvarpi lagagildi.
          b.      Lögin eru skráð í auglýsingakerfi Stjórnartíðinda og skjölin færð inn á málið og merkt við að þau séu óstaðfest, meðan beðið er staðfestingar forseta Íslands á þeim.
          c.      Þegar lögin hafa verið staðfest af forseta sendir starfsmaður forsætisráðuneytis skannað eintak af forsetastaðfestingu til Stjórnartíðinda þar sem fram kemur undirritun forseta eigin hendi og dagsetning staðfestingar auk undirritunar þess ráðherra sem málaflokkurinn heyrir undir.
          d.      Þessar upplýsingar eru færðar inn í skráningu málsins hjá Stjórnartíðindum, ásamt skjalinu.
          e.      Ef fyrir liggja mörg lög til birtingar á sama tíma, eins og gerist alltaf fyrir áramót og í þinglok, er birtingu laganna raðað upp í samræmi við gildistökudag eða óskir frá viðkomandi ráðuneyti ef einhverjar eru, enda eru það ráðuneytin sem bera ábyrgð á að koma lögum til Stjórnartíðinda í birtingu. Leitast er við að jafna birtingum niður á daga eftir því sem afkastageta og fyrirhugaðar birtingar í B- og C-deildum Stjórnartíðinda leyfa. Þegar mikið liggur fyrir getur slík lagabirtingalota tekið allt að 2–3 vikur.
          f.      Þó að ekki þurfi að prófarkalesa texta laganna þarf að prófarkalesa nýjan „haus og hala“, þ.e. nafn laga og klásúlu um staðfestingu forseta/handhafa forsetavalds og undirritanir, sem og að gæta þess að enginn texti falli niður milli blaðsíðna því að blaðsíðustærð texta eins og hann kemur frá Alþingi og blaðsíðustærð Stjórnartíðinda er ekki sú sama, þannig að brjóta þarf textann um.
          g.      Þegar allt er yfirfarið og komið í rétt form eru lögin gefin út á tilgreindum útgáfudegi.
    Ráðuneytið bendir á að skv. 6. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, sbr. og 10. tölul. 3. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018, er það á hendi dómsmálaráðuneytis að gefa út Stjórnartíðindi. Það er skylda þess ráðuneytis sem umrædd lög heyra undir að „fá útgefanda handrit af hverju því sem afgreitt hefur verið og birta ber í Stjórnartíðindum“. Er það þannig hlutverk starfsmanna viðkomandi ráðuneyta að koma þeim lögum sem varða málaflokka þess ráðuneytis til Stjórnartíðinda og óska eftir útgáfu þeirra. Þetta felur í sér að viðkomandi ráðuneyti hefur ákveðið forræði á málinu, þ.e. getur vegna sérþekkingar á viðkomandi málefnum haft ástæðu til að samræma útgáfu laganna annarri vinnu við lagaframkvæmdina hjá undirstofnunum og t.d. fyrirhugaðri reglugerðasmíð á grundvelli laganna eða af öðrum ástæðum. Þannig hefur útgáfu laga í Stjórnartíðindum verið forgangsraðað þannig að ef áhersla hefur verið lögð á að lög séu birt með flýtibirtingu þá er það gert eða ef óskað er birtingar á ákveðnum degi þá er við því orðið. Farið var eftir framangreindu verklagi við birtingu þeirra laga sem vísað er til í fyrirspurninni og lögin réttilega birt í Stjórnartíðindum.