Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 505  —  245. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um viðbrögð við aðgerðum bandarískra stjórnvalda gegn meðafla sjávarspendýra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru viðbrögð ráðherra við reglum bandarískra stjórnvalda um vernd sjávarspendýra við veiðar (Marine Mammal Protection Act), sem taka gildi í ársbyrjun 2022, og hvaða vinna hefur farið fram innan ráðuneytisins í tengslum við þær og áhrif þeirra á útflutning sjávarafurða til Bandaríkjanna?
     2.      Hefur ráðherra eða ráðuneyti hans rætt þetta mál formlega við fulltrúa bandarískra stjórnvalda, og þá hverja og hvenær?

    Utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Washington hafa, í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fylgst náið með aðgerðum bandarískra stjórnvalda vegna breytinga á lögum um verndun sjávarspendýra sem tóku gildi árið 2016. Í upphafi var þjóðum sem flytja sjávarfang til Bandaríkjanna gefinn fimm ára aðlögunarfrestur, en vegna Covid-19 heimsfaraldursins hefur gildistöku nýju lagaákvæðanna verið frestað til 1. janúar 2023.
    Strax frá upphafi var ljóst að gildistaka reglnanna gæti haft mikil áhrif á útflutning sjávarafurða frá Íslandi, en í lögunum er lagt bann við að skaða eða drepa sjávarspendýr við fiskveiðar og gerð krafa um ásættanlegt hlutfall meðafla miðað við stofnstærð. Sendiráð Íslands í Washington hefur verið í reglulegum samskiptum við NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration), stofnunina sem sér um innleiðingu ákvæðisins gagnvart fiskveiðiþjóðum og öflun upplýsinga og gagna sem snúa að meðafla frá öllum fiskveiðiþjóðum sem stunda útflutning til Bandaríkjanna. Þá hefur sendiráðið einnig átt í samskiptum við viðskiptaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vegna málsins.
    Þá taka sendiráð Íslands í Brussel og Washington þátt í reglulegu samráði fiskveiðiþjóða, þar sem löggjöfin hefur verið til umræðu og skipst er á upplýsingum um ferlið og afleiðingar bannsins, m.a. til að tryggja að sömu kröfur séu gerðar til allra fiskveiðiþjóða. Einnig hefur fastanefnd Íslands í Genf vakið athygli á málinu og spurt Bandaríkin út í áform þeirra varðandi innleiðingu laganna í úttekt á viðskiptastefnu Bandaríkjanna í Alþjóðaviðskiptastofnuninni í desember 2018.
    Málið hefur margoft verið tekið upp bæði í formlegum og óformlegum samskiptum íslenskra og bandarískra stjórnvalda, m.a. á fundum utanríkisráðherra með NOAA í maí 2019 í Washington. Nú síðast var málið tekið upp á samráðsfundi Íslands og Bandaríkjanna um efnahagsmál, sem fram fór 27. október 2020. Fundurinn var leiddur af skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála.
    Utanríkisráðuneytið á fulltrúa í samráðshópi sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skipaði í maí 2020. Þar eiga sæti, auk fulltrúa ráðuneytanna tveggja, fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum smærri útgerða. Samráðshópnum er ætlað að „vera til ráðgjafar um samskipti íslenskra stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld vegna málsins. Hópurinn hefur að auki það hlutverk að vera vettvangur til skoðanaskipta og mótunar viðbragða sem og að miðla upplýsingum til greinarinnar um kröfur Bandaríkjanna um aðgerðir til að lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr.“

    Alls fóru 4 vinnustundir í að taka þetta svar saman.