Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 539  —  333. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um mun á rekstrarkostnaði Vífilsstaða og annarra hjúkrunarheimila.


     1.      Hvers vegna eru daggjöld sem renna til reksturs hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum umtalsvert hærri en daggjöld sem greidd eru fyrir rekstur hjúkrunarrýma á grundvelli gjaldskrár SÍ?
    Vífilsstaðir eru ekki hjúkrunarheimili og því ekki reknir á daggjöldum heldur á föstum fjárlögum. Kostnaður á legudag síðustu tólf mánuði er í kringum 57 þús. kr. Hjúkrunarþyngdin á Vífilsstöðum er umtalsvert meiri en á hefðbundnu hjúkrunarheimili og umsetning sjúklinga hraðari. Hvort tveggja kallar á aukna og sérhæfðari mönnun.
    Meðallegutími einstaklinga á Vífilsstöðum árið 2019 var 78 dagar en það sem af er árinu 2020 er meðallegutíminn 55 dagar, en mismunur skýrist af opnun hjúkrunarheimilis á Sléttuvegi í byrjun mars 2020. Meðallegutíminn á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu er um 900 dagar en miðgildi legutíma 591 dagur samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis. Umsetning sjúklinga á Vífilsstöðum er því mun hraðari og kallar eðli málsins samkvæmt á meiri mönnun.

     2.      Er munur á þjónustustigi á Vífilsstöðum og öðrum hjúkrunarheimilum?
    Vífilsstaðir eru ekki hjúkrunarheimili heldur legudeild á vegum Landspítala. Þar eru einstaklingar þjónustaðir sem lokið hafa meðferð á bráðadeildum spítalans, eru með gilt færni- og heilsumat en bíða langtímadvalar á hjúkrunarheimili. Í daglegu tali eru þessi rými kölluð biðrými. Um er að ræða 42 rúma deild en oft á tíðum fer fjöldi sjúklinga í 44 þegar nauðsynlegt reynist að losa rúm á bráðalegudeildum spítalans.

     3.      Er munur á hjúkrunarþyngd á Vífilsstöðum og öðrum hjúkrunarheimilum?
    Eins og fyrr segir eru Vífilsstaðir ekki hjúkrunarheimili, heldur legudeild á vegum Landspítala. Þannig eru Vífilsstaðir millistig milli sjúkrahúss og hjúkrunarheimilis. Mörgum einstaklinganna sem þangað koma endist ekki aldur til að komast á hjúkrunarheimili þar sem um er að ræða veikari einstaklinga en þá sem hjúkrunarheimilin taka við að jafnaði. Það fólk sem kemur á Vífilsstaði kemur allt frá Landspítala, þ.e. ekki er um val milli einstaklinga að ræða eins og reglur um hjúkrunarrými segja til um. Um 40-50% einstaklinga sem flytjast á hjúkrunarheimili koma beint að heiman, og það fólk er því eðli málsins samkvæmt að meðaltali hraustara en fólkið sem kemur frá sjúkrahúsi.

     4.      Á hvaða grundvelli er fjárþörf til reksturs Vífilsstaða metin?
    Fjárþörfin er metin út frá áætluðum fjölda inniliggjandi sjúklinga, hjúkrunarþyngd, og þar með samsetningu og stærð faghópa starfsmannahóps, þ.e. fjölda og hlutfalli hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraliða o.s.frv. Þá er fjárþörfin metin út frá hraða umsetningar einstaklinganna auk áætlunar á öðrum rekstrarkostnaði, svo sem lyfjum, mat, hjúkrunarvörum o.s.frv.

     5.      Er stuðst við þjónustusamninga SÍ við hjúkrunarheimili þegar fjárþörf Vífilsstaða er
metin?

    Nei, þjónustusamningar SÍ við hjúkrunarheimili eru ekki hafðir til hliðsjónar þegar fjárþörf er metin.