Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 556  —  394. mál.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Frá Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Ásmundi Friðrikssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Sunnu Rós Víðisdóttur, Guðjóni S. Brjánssyni og Söru Elísu Þórðardóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um áhrif kórónuveirufaraldursins á biðlista í heilbrigðiskerfinu. Í skýrslunni verði teknar saman upplýsingar um það hvernig biðlistar hafi þróast eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp í landinu og hvaða aðferðum hafi verið beitt til að takmarka vöxt biðlista og hvaða aðferðum verði beitt til að vinna niður biðlista í framtíðinni. Fjallað verði um biðlista sem tengjast almennri og sérhæfðri læknisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og endurhæfingu. Gerð verði grein fyrir stöðu mála hjá opinberum stofnunum og einkareknum stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Greinargerð.

    Í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn barst til Íslands þurfti að grípa til ýmissa sóttvarnaaðgerða. Samhliða jókst álagið mjög á heilbrigðisþjónustuna. Þetta hefur leitt til þess að ekki hefur verið hægt að framkvæma eins margar aðgerðir og áður og ýmis þjónusta hefur sætt takmörkunum. Fyrir upphaf faraldursins voru biðlistar eftir ýmiss konar heilbrigðisþjónustu allt of langir og því vakna eðlilega spurningar um stöðu mála í dag. Vegna þessa biðlistavanda er lagt til að heilbrigðisráðherra kanni og geri grein fyrir stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Þannig má leiða betur í ljós hvort grípa þurfi til frekari aðgerða af hálfu Alþingis til að stemma stigu við biðlistavandanum.