Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 741  —  387. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvers vegna hefur Ísland hvorki undirritað, fullgilt eða gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi frá 1954 né uppfærðum samningi um ríkisfangsleysi frá 1961, ólíkt t.d. öllum öðrum ríkjum á Norðurlöndum?

    Ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að því að íslenska ríkið gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra frá árinu 1954 og samningi Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ríkisfangsleysi frá árinu 1961.
    Til þess að undirbúa aðild að umræddum samningum hefur ráðuneytið átt í góðu samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna en hvatinn af því samstarfi var meðal annars átak stofnunarinnar sem miðar að því að eyða ríkisfangsleysi á heimsvísu, sem hófst árið 2014 og stendur til ársins 2024. Íslenska ríkið samþykkti einnig tilmæli um að fullgilda samningana í síðustu allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hér á landi árið 2016.
    Gerðar hafa verið ýmsar lagabreytingar á undanförnum árum sem miða að því að aðlaga íslensk lög að efni samninganna. Má til dæmis nefna að lög um útlendinga, nr. 80/2016, taka mið af þessum samningum og er tekið fram í athugasemdum með þeim að lagabreytingarnar hafi verið liður í að innleiða samningana hér á landi. Þá var í júní 2018 samþykkt frumvarp um breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og barnalögum, sbr. lög nr. 61/2018, en í athugasemdum með frumvarpinu kemur m.a. fram að tilgangur þess hafi fyrst og fremst verið að gera nokkrar úrbætur á lögum um íslenskan ríkisborgararétt til að undirbúa fullgildingu þessara tveggja samninga. Þessar lagabreytingar voru unnar í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og með hliðsjón af skýrslu sem stofnunin gaf út árið 2014 um ríkisfangsleysi á Íslandi. Eru ákvæði íslenskra laga því talin í samræmi við efni samninganna.
    Í júní 2019 sendi dómsmálaráðuneytið minnisblað til utanríkisráðuneytisins þar sem lagt var til að samningarnir yrðu fullgiltir fyrir Íslands hönd. Með minnisblaðinu fylgdu jafnframt íslenskar þýðingar á samningunum. Hinn 29. september 2019 samþykkti ríkisstjórn Íslands minnisblað frá utanríkisráðherra þar sem lagt var til að Ísland gerðist aðili að samningunum. Ljúka átti fullgildingarferlinu í byrjun árs 2020, en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur það tafist vegna COVID-19. Stefnt er að því að Íslandi verði formlega orðið aðili að þessum samningum í byrjun árs 2021.