Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 760  —  405. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um stórhvalaveiðar.


     1.      Kemur til greina að banna stórhvalaveiðar árið 2021?
    Í gildi er þingsályktun um hvalveiðar, sbr. þskj. 1120, 92. mál, frá 123. löggjafarþingi 1998–1999, þar sem Alþingi hefur ályktað að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Í dag er framkvæmd hvalveiða í samræmi við framangreinda þingsályktun Alþingis og þá löggjöf sem gildir um málaflokkinn. Jafnframt er rétt á að benda á að í reglugerð nr. 186/2019 um breytingu á reglugerð nr. 163/1973 um hvalveiðar er kveðið á um leyfilegan heildarafla á hvölum. Í 1. gr. viðauka við framangreinda reglugerð segir að leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu á árunum 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 skuli nema þeim fjölda dýra sem kveðið sé á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

     2.      Hefur Hvalur hf. orðið uppvís að brotum á reglum eða lögum sem lúta að hvalveiðum?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að viðkomandi leyfishafi hafi brotið gegn lögum eða reglugerðum sem lúta að hvalveiðum.