Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 778  —  458. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (raunleiðrétting).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    69. gr. laganna orðast svo:
    Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu endurreiknaðar og þeim breytt fyrir 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum skal Hagstofan afla skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem þörf krefur. Tryggingastofnun ríkisins uppfærir krónutölufjárhæðir til samræmis við tölur Hagstofunnar áður en kemur til greiðslna fyrir júlí. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna skulu endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir bætur almannatrygginga, greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Ákvæði samhljóða núgildandi 69. gr. laga um almannatryggingar var fyrst leitt í lög árið 1997. Frá þeim tíma hafa bætur samkvæmt ákvæðinu ekki verið hækkaðar til samræmis við vísitölur neysluverðs eða launa. Sú hækkun sem kveðið er á um í ákvæðinu er færð inn í fjárlög hvers árs, miðað við útreikning fjármála- og efnahagsráðuneytis fyrir komandi ár. Raunin hefur verið sú að sá útreikningur hefur sjaldan staðist. Taflan hér fyrir neðan sýnir þróunina frá árinu 1997.
    Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9818/2018 kemur fram að fyrirmæli 69. gr. séu matskennd en samkvæmt ákvæðinu skal hækkun bóta „taka mið af launaþróun“. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í skýringum sínum bent á að orðalag ákvæðisins vísi ekki til tiltekinnar vísitölu, líkt og launavísitölu, og að af forsögu ákvæðisins megi ráða að ekki hafi verið ætlun löggjafans, þegar ákvæðinu var breytt í núgildandi horf, að festa hækkanir við slíkan mælikvarða. Í töflunni er miðað við launavísitölu sem eina viðmiðið sem hægt er að nota sem vísbendingu um hver „launaþróun“ var í raun og veru. Gögnin eru því sett fram á þann hátt að launavísitala þýði í raun og veru launaþróun. Ef bara er tekið mið af þróun vísitölu neysluverðs þá hafa bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar hins vegar hækkað umfram verðbólgu um tæplega 39% frá árinu 1997.
    Launavísitalan ofmetur launabreytingar, t.d. vegna starfsaldursbreytinga líkt og fram kemur í skýrslu forsætisráðuneytis um launatölfræði á Íslandi. 1 Það er þó til samanburður á launaþróun og launavísitölu, t.d. í skýrslu sem gerð var í kjölfar kjarasamninga af heildarsamtökum vinnumarkaðarins. 2 Þar segir: „launaþróun félagsmanna stéttarfélaga innan ASÍ fellur nær alveg saman við þróun launavísitölu, enda vegur þessi hópur þungt í vísitölunni“. Einnig: „nóvember 2006 til jafnlengdar 2015 hækkuðu laun félagsmanna stéttarfélaga innan BSRB um 68,5% hjá sveitarfélögum og töluvert meira hjá ríkinu, eða um 76,3%. Samanburður við þróun launavísitölu leiðir í ljós að laun BSRB félaga hjá ríkinu hafa haldið í við launavísitölu á því tímabili sem til grundvallar liggur, en félagar þeirra sem starfa hjá sveitarfélögunum hafa dregist aftur úr.“
    Miðað við þetta virðist ofmatið í launavísitölunni ekki vera það mikið að sú vísitala sé gagnslaus til þess að meta hver launaþróun er í raun og veru. Enn fremur sýnir skýrsla heildarsamtaka vinnumarkaðarins gliðnun bóta almannatrygginga og launa á vinnumarkaði mjög vel. Þó að bætur almannatrygginga hafi hækkað umfram vísitölu neysluverðs þá er sú hækkun mikið lægri frá árinu 1997 en hækkun á vinnumarkaði á árunum 2006–2015.
    Þegar lögum um kjararáð var breytt árið 2019 var tekið upp nýtt fyrirkomulag við útreikning launa þingmanna og annarra ráðamanna sem eru ekki með verkfallsrétt. Þar var Hagstofu Íslands falið að reikna út hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Þetta leiddi til þess að laun þingmanna hækkuðu um 6,3% í byrjun árs 2020 á meðan reiknuð hækkun fyrir bætur almannatrygginga, sem átti að taka mið af launaþróun, var um 3,6%.
    Vandamálið virðist því vera hvernig fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknar út væntanlega launaþróun í fjárlagafrumvarpi á hverju ári. Orðin „skulu breytast árlega“ í 69. gr. laga um almannatryggingar virðast túlkuð á þann hátt að það megi ekki reikna þá hækkun oftar en einu sinni á ári. Til viðbótar virðist aldrei hafa verið tekið tillit til fyrirmæla laganna um að bætur almannatrygginga „hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“. Til dæmis má nefna að á árunum 2004–2006, 2008 og 2010–2011 var hækkun bóta almannatrygginga lægri en verðbólga viðkomandi árs. Eins og áður var vísað í var heildarhækkun þessara ára á bótum almannatrygginga samt umfram hækkun á vísitölu neysluverðs.
    Almennt séð væri ráðlegt að nota þessa nýju aðferð við uppfærslu launa hjá hinu opinbera fyrir allar stéttir sem eru ekki með verkfallsrétt. Í þessu frumvarpi er breytingin hins vegar afmörkuð við bætur almannatrygginga.

Launavísitala Verðbólga Örorkulífeyrir Kjaragliðnun örorkulífeyris
1997 5.41% 1.81% 2.00% 3.41% 156.21%
1998 9.37% 1.66% 10.87% -1.50% 151.05%
1999 6.81% 3.44% 4.00% 2.81% 153.36%
2000 6.65% 5.01% 10.85% -4.20% 149.16%
2001 8.86% 6.68% 5.67% 3.19% 155.70%
2002 7.15% 4.80% 8.50% -1.35% 150.89%
2003 5.61% 2.11% 3.20% 2.41% 152.95%
2004 4.68% 3.21% 3.00% 1.68% 149.36%
2005 6.75% 4.05% 3.50% 3.25% 146.89%
2006 9.54% 6.76% 4.00% 5.54% 142.26%
2007 9.02% 5.03% 8.56% 0.46% 134.80%
2008 8.12% 12.42% 3.50% 8.92% 134.18%
2009 3.94% 11.99% 13.98% -1.99% 123.19%
2010 4.80% 5.40% 0.00% 5.40% 125.69%
2011 6.79% 3.99% 0.00% 6.79% 119.25%
2012 7.77% 5.19% 11.88% -4.11% 111.67%
2013 5.66% 3.88% 3.90% 1.76% 116.46%
2014 5.80% 2.04% 3.60% 2.20% 114.44%
2015 7.18% 1.64% 3.00% 4.18% 111.98%
2016 11.37% 1.71% 9.70% 1.67% 107.49%
2017 6.84% 1.77% 7.50% -0.66% 105.72%
2018 6.45% 2.66% 4.70% 1.75% 106.42%
2019 4.89% 3.03% 3.60% 1.29% 104.59%
2020 6.76%* 3.58%* 3.50% 3.26% 103.26%
2021 3.60%** 2.70%** 3.60% 0.00% 100.00%
* Miðað við stöðu innan árs.
** Samkvæmt fjárlögum 2021.

1     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=40395405-2616-11e9-942f-005056bc4d74
2     eldri.samband.is/media/salek/I_kjolfar_kjarasamninga.pdf