Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 789  —  153. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um setningar og skipanir í embætti hjá löggæslustofnunum og stofnunum sem fara með ákæruvald.


     1.      Hversu margir voru settir tímabundið í embætti sem millistjórnendur og yfirmenn hjá löggæslustofnunum og stofnunum sem fara með ákæruvald á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2019, sbr. 24. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996?

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 Samtals
Ríkislögreglustjóri (önnur lögregluembætti, fyrir 1.1.2015) 4 4
Ríkislögreglustjóri (embætti ríkislögreglustjóra) 3 2 2 3 3 2 2 17
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 3 4 5 12
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum 5 2 2 9
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 0
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 3 2 5
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 2 2
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 1 1 2
Lögreglustjórinn á Austurlandi 2 2
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 0
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 0
Ríkissaksóknari 1 1
Héraðssaksóknari 1 1

    Í meðfylgjandi töflu er gert ráð fyrir að til millistjórnenda og yfirmanna teljist yfirlögregluþjónar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og aðalvarðstjórar, sbr. reglugerð nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar.
    Fram til 1. janúar 2015 fór ríkislögreglustjóri með skipunarvaldið þegar kom að skipunum og setningum yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Skipunarvaldið færðist til lögreglustjóra með lögum nr. 51/2014, en breytingin tók gildi 1. janúar 2015.
    Embætti héraðssaksóknara tók til starfa 1. janúar 2016 og miðast upplýsingarnar hvað það embætti varðar því við tímabilið 2016–2019. Embættið tók við verkefnum sérstaks saksóknara en það var lagt niður í árslok 2015. Hjá sérstökum saksóknara var ekki skylda að auglýsa störf, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara. Við stofnun embættis héraðssaksóknara fluttust nær allir starfsmenn embættis sérstaks saksóknara yfir til embættis héraðssaksóknara á grundvelli heimildar í 22. gr. laga nr. 47/2015 um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Í einhverjum tilvikum var sami einstaklingur settur oftar en einu sinni í embætti, yfirleitt með þeim hætti að setning viðkomandi var framlengd. Í framangreindri töflu er eingöngu tilgreint það ár sem upphafleg setning viðkomandi einstaklings í embætti átti sér stað.

     2.      Hversu margir hlutu á sama tímabili skipun í embætti millistjórnenda og yfirmanna hjá þessum stofnunum, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins?

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 Samtals
Ríkislögreglustjóri (önnur lögregluembætti, fyrir 1.1.2015) 2 1 1 1 5
Ríkislögreglustjóri (embætti ríkislögreglustjóra) 3 3 1 1 1 1 10
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 4 1 2 1 8
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum 4 4 8
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 1 1
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 1 1
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 0
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 1 6 2 9
Lögreglustjórinn á Austurlandi 2 1 3
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 1 1
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 0
Ríkissaksóknari 2 2
Héraðssaksóknari 1 1

    Í meðfylgjandi töflu er gert ráð fyrir að til millistjórnenda og yfirmanna teljist yfirlögregluþjónar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og aðalvarðstjórar, sbr. reglugerð nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar.
    Fram til 1. janúar 2015 fór ríkislögreglustjóri með skipunarvaldið þegar kom að skipunum og setningum yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Skipunarvaldið færðist til lögreglustjóra með lögum nr. 51/2014, en breytingin tók gildi 1. janúar 2015.
    Vísað er til umfjöllunar um embætti héraðssaksóknara hér að framan.

     3.      Hversu oft hlaut sá skipun í embætti sem áður hafði verið settur tímabundið í embættið eftir að staðan var auglýst?
    Í fjórum tilvikum hjá embætti ríkislögreglustjóra var sá skipaður í embætti sem hafði áður verið settur tímabundið í embætti. Hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var í einu tilviki sá skipaður í embætti sem hafði áður verið settur í embætti, en í þremur tilvikum voru einstaklingar fyrst settir í embætti í kjölfar ráðningarferlis (þ.e. settir tímabundið eftir að staða hafði verið auglýst og ráðningarferli lokið) og síðan skipaðir.
    Hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum var í sex tilvikum um skipun að ræða í kjölfar setningar og í einu tilviki var skipað í kjölfar setningar hjá embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum. Hjá embætti héraðssaksóknara var í einu tilviki um skipun að ræða í kjölfar setningar, en viðkomandi var fluttur til innan embættisins eftir setningu.
    Hjá öðrum embættum en framangreindum var ekki um það að ræða að einhver hefði hlotið skipun í embætti sem áður hafði verið settur tímabundið í embættið.