Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 796  —  466. mál.
1. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (forseti Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir náttúru Íslands og íslensk tunga).

Frá Helga Hrafni Gunnarssyni, Loga Einarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Jóni Þór Ólafssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Söru Elísu Þórðardóttur, Guðjóni S. Brjánssyni, Smára McCarthy, Guðmundi Andra Thorssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Helgu Völu Helgadóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni og Ingu Sæland.


    B-liður 22. gr. orðist svo:
    Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.
    Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.
    Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær, vatn, þó að gættum lögbundnum réttindum annarra til hagnýtingar og ráðstöfunar þess, og auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum. Löggjafinn getur ákveðið að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign, enda séu þau ekki háð einkaeignarrétti. Í eignarlöndum takmarkast réttur eigenda til auðlinda undir yfirborði jarðar við venjulega hagnýtingu fasteignar. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
    Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
    Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.

Greinargerð.

    Breytingartillaga þessi er lögð fram við 1. umræðu um frumvarp forsætisráðherra til stjórnarskipunarlaga um breytingu á núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í henni felst að ákvæði frumvarpsins um náttúruauðlindir er breytt á þann veg að ákvæðið verði samhljóma því ákvæði er var að finna í breytingartillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við stjórnarskrárfrumvarp sem var til meðferðar á 141. löggjafarþingi 2012–2013 (þskj. 1112 í 415. máli). Með framlagningu þessarar breytingartillögu verður sú útgáfa ákvæðisins hluti af málsmeðferð þessa þingmáls.
    Um lögskýringar við ákvæðið vísast til greinargerðar frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, um 35. gr., í þskj. 26 á yfirstandandi löggjafarþingi.