Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 890  —  467. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um átröskunarteymi.


     1.      Hvernig þróaðist umfang starfsemi átröskunarteymis Landspítalans á undanförnum fimm árum? Óskað er að m.a. komi fram fyrir hvert ár hver var
       a.      fjöldi einstaklinga sem nýtti sér þjónustuna,
       b.      meðalfjöldi einstaklinga í bið eftir þjónustu og
       c.      biðtími að meðaltali.
        Þess er óskað að upplýsingarnar séu greindar eftir kyni, því hvort um var að ræða börn eða fullorðna og hvort þjónusta hafi verið veitt á dag- eða göngudeild. Jafnframt er óskað upplýsinga um hversu oft hafi þurft að grípa til innlagnar og hve lengi að meðaltali.

    Átröskunarteymi Landspítala var formlega stofnað 1. febrúar 2006 með sérstakri fjárveitingu frá heilbrigðisráðuneytinu. Fjármögnun teymisins nú er hluti af heildarfjármagni geðþjónustu Landspítala. Um er að ræða þverfaglegt teymi sem sinnir greiningu og meðferð sjúklinga frá 18 ára aldri, með meðalalvarlega til alvarlega átröskun. Jafnframt sinnir teymið sérhæfðri ráðgjafaþjónustu. Starfsemi og þjónusta teymisins hefur verið í stöðugri þróun frá árinu 2006 með það að markmiði að auka gæði þjónustunnar. Meðferð við átröskun var uppfærð 2017 og er nú í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu á sjúkdómnum.

    a. Fjöldi einstaklinga sem nýtti sér þjónustuna.
    Á síðastliðnum fimm árum hafa alls 490 einstaklingar fengið þjónustu á dag- og göngudeild átröskunar á Landspítala. Meiri hlutinn voru konur, eða alls 430, en 60 karlar fengu þjónustu hjá dag- og göngudeildinni. Á hverju ári hefur teymið sinnt á bilinu 150–200 einstaklingum.
    Aldursdreifing þeirra sem fengu þjónustu var frá 18 ára til 70+ ára. Flestir voru á aldrinum 20–29 ára eða 394 einstaklingar (sjá nánar í töflu 1). Átröskunarteymi barna- og unglingageðdeildar, sem fellur undir kvenna- og barnaþjónustu Landspítala, sinnir börnum upp að 19 ára aldri og eru þau ekki talin með hér.

Tafla 1. Fjöldi skjólstæðinga átröskunarteymis eftir kyni og aldurshópum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     *Fjöldi í töflu með sundurliðun eftir aldurshópum er ekki alveg sá sami og heildarfjöldinn að framan þar sem einstaklingar sem færast á milli aldurshópa yfir tímabilið teljast oftar en einu sinni.

    Fjöldi innlagna hjá einstaklingum sem voru í þjónustu hjá átröskunarteyminu á tímabilinu var 5–10 á ári. Ástæða innlagnar er ekki einungis átröskunarvandi heldur einnig fjölþættur vandi sem einstaklingar með átröskun glíma gjarnan við.
    Á árunum 2015–2020 var samþykkt af Siglinganefnd Sjúkratrygginga Íslands meðferð erlendis fyrir fjóra einstaklinga.

Tafla 2. Fjöldi koma, fjöldi einstaklinga og fjöldi innlagna vegna átröskunar á ári.

Ár innskriftar Fjöldi koma Fjöldi einstaklinga á ári* Fjöldi innlagna**
2016 2.536 200 5
2017 2.246 191 10
2018 1.866 175 6
2019 1.813 141 7
2020 1.520 107 7
*Ath. að sami einstaklingur getur verið í meðferð í nokkur ár og er þá talinn með á hverju ári fyrir sig.
**Sami einstaklingur verið lagður inn oftar en einu sinni.

    b–c. Biðlisti og biðtími.

Ár Fjöldi einstaklinga á bið
2016 12
2017 18
2018 22
2019 53
2020 84

    Farið er yfir allar tilvísanir sem berast teyminu og málum forgangsraðað eftir alvarleika. Meðalbiðtími endurspeglar því ekki lengd biðtíma ef veikindi eru alvarleg.

Ár Biðtími að meðaltali
2016 2–4 mánuðir
2017 2–4 mánuðir
2018 2–4 mánuðir
2019 8–12 mánuðir
2020 18–20 mánuðir

     2.      Hvernig hefur fjárveiting til átröskunarteymis, fjöldi starfsfólks og stöðugildi þróast á sama tíma?
    Átröskunarteymið hefur ekki verið með sérstaka fjárveitingu innan geðþjónustu. Áætlaður kostnaður átröskunarteymisins árið 2020 var um 55 millj. kr. Þegar teymið var fjölmennast árið 2016 má áætla að kostnaðurinn hafi verið 73 millj. kr. (á verðlagi ársins 2020).
    Meðfylgjandi tafla sýnir yfirlit yfir mönnun og þróun stöðugilda átröskunarteymis Landspítala frá 2016 ásamt skýringum á breytingum innan og milli ára. Ekki eru talin með stöðugildi starfsmanna í langtímaveikindum. Á tímabilinu hefur orðið nokkur tilfærsla milli starfsstétta en í heildina litið er heildarfækkun upp á rúmlega tvö stöðugildi.

Fjöldi stöðugilda – langtímaveikindi ekki talin með
Nr. 2016 2017 2018 2019 2020 Breyting frá 2016
1 Geðlæknir 1,0 0,9 0,6 0,6 0,2 -0,8
2 Hjúkrunarfræðingur 0,8 0,8 0,8 0,5 0,8 0,0
3 Félagsráðgjafi 0,7 0,7 0,7 -0,7
4 Listmeðferðarfræðingur 1,0 0,7 -1,0
5 Sálfræðingur 1,8 0,8 2,8 3,8 2,6 0,8
6 Iðjuþjálfi 0,6 0,6
7 Stuðningsfulltrúi/ráðgjafi 1,6 1,6 1,6 0,8 0,8 -0,8
8 Næringarfræðingur 0,6 0,6 0,6 0,2 0,2 -0,4
Samtals 7,5 6,1 7,1 5,9 5,2 -2,3

     3.      Hver hefur starfsmannavelta í átröskunarteyminu verið samanborið við sambærileg svið innan Landspítala?
    Starfsmannavelta í geðþjónustu er að meðaltali um 20%.
    Göngudeild átröskunar er ekki eiginleg göngudeild með afmarkað starfsmannahald og ráðningar sem gerir útreikning starfsmannaveltu óáreiðanlegan. Landspítalinn reiknar starfsmannaveltu niður á deild en ekki innan einstakra teyma innan deilda. Rétt er að benda á að tiltölulega fámennt teymi eins og átröskunarteymið er viðkvæmt fyrir starfsmannaveltu. Breytingar í starfsmannahaldi hafa áhrif á hraða þjónustunnar því nokkurn tíma tekur að þjálfa nýja meðferðaraðila í stað reyndra sem hætta.

     4.      Hverjar eru helstu ástæður þess að bið eftir þjónustu átröskunarteymis hefur lengst á undanförnum misserum? Hvernig hyggst ráðherra bregðast við til að stytta þá bið og treysta grundvöll undir starfsemina til framtíðar?
    Engin ein skýring er á því að bið eftir þjónustu hefur lengst síðustu ár. Ástæðurnar eru margþættar og má þar nefna:
     *      Húsnæðisvanda, en mygla kom upp í húsnæði átröskunarteymisins á Hvítabandinu sem leiddi til óvinnufærni hluta starfsmanna. Í kjölfarið, eða árið 2019, var teymið flutt í göngudeildarhúsnæði geðþjónustunnar á Kleppi. Vegna þessa varð hlé á innskriftum nýrra sjúklinga í teymið frá mars til október 2019.
     *      Aukin eftirspurn hefur verið eftir þjónustu teymisins.
     *      Starfsmönnum í teyminu fækkaði, m.a. vegna veikinda og skorts á sérhæfðu starfsfólki.
     *      Í COVID-faraldrinum nýttu margir sér fjarheilbrigðisþjónustu sem teymið bauð upp á en aðrir kusu að vera áfram á biðlista eftir þjónustu þar til aðstæður yrðu aðrar.
    Ráðherra leggur áherslu á að stjórnendur heilbrigðisstofnana forgangsraði þjónustu stofnana í ljósi þarfar hverju sinni, eins og kveðið er á um í reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa nr. 1111/2020. Húsnæðismál teyma á geðsviði Landspítala sem búið hafa við ófullnægjandi húsakost eru til skoðunar í ráðuneytinu.

     5.      Hvaða rök voru fyrir því að loka dagdeild átröskunarteymisins? Eru áform uppi um að opna hana aftur?
    Vegna ástands húsnæðis dagdeildarinnar var henni lokað tímabundið en deildin síðan opnuð aftur, með breyttu sniði, eftir flutning á Klepp. Við flutning teymisins hafa verið gerðar ýmsar breytingar á þjónustu þess, sem byggjast á faglegum forsendum. Breytingar á fyrirkomulagi deildarinnar eru ákvarðanir sem teknar eru af Landspítala.

     6.      Telur ráðherra ástæðu til að móta heildstæðari stefnu í meðferð við átröskun, þar sem m.a. væri tekið til skoðunar að starfrækja átröskunarteymi víðar en við Landspítala og kannaður yrði möguleiki á því að starfrækja meðferðarheimili fyrir átröskunarsjúklinga?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er sú meðferð sem beitt er á geðsviði Landspítala byggð á nýjustu þekkingu hverju sinni og er veitt samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Vegna þess hversu sérhæfðrar þekkingar er þörf til að sinna þeim hópi sem glímir við átröskun er ljóst að hér á landi er ekki hægt að veita svo sérhæfða þjónustu á mörgum stöðum. Þannig gegnir sérhæft átröskunarteymi á geðþjónustu Landspítala hlutverki þekkingarmiðstöðvar með tilliti til gagnreyndrar meðferðar fyrir fólk sem greinist með átröskun. Hlutverk slíkrar þekkingarmiðstöðvar er m.a. að vera ráðgefandi og sinna handleiðslu fyrir fagfólk í fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu, sem er meginmeðferðaraðili fólks sem glímir við geðrænar áskoranir.