Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 930  —  415. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um bætt aðgengi að efnisframboði Ríkisútvarpsins.


     1.      Hvaða umbætur hafa verið gerðar í aðgengismálum blindra, heyrnarlausra og heyrnarskertra í sjónvarpsútsendingum Ríkisútvarpsins, á heimasíðu þess og í appi undanfarinn áratug?
    Nær allt fyrir fram unnið innlent sjónvarpsefni hefur verið með íslenskum texta sem aðgengilegur er á síðu 888 í textavarpinu frá því um 2008. Textun á innlendu efni var þó hafin árið 2001. Árið 2013 var byrjað að texta aðalfréttatíma sjónvarps kl. 19 í beinni útsendingu, sem og íþróttafréttir að loknum fréttatímanum og er sá texti einnig aðgengilegur á síðu 888 í textavarpinu. Árið 2016 var byrjað að texta Kastljós fyrir endursýningu, eins og kveðið var á um í þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við ráðuneytið. Þegar meiri háttar atburðir verða innan lands sem utan, sem snerta alla, er send út rittúlkun á síðu 888 í textavarpinu með aukafréttatímum. Það þýðir að rittúlkur skrifar upp túlkun á því sem sagt er í beinni útsendingu. Þá eru borgarafundir í sjónvarpi og kosningaumfjöllun send út með rittúlkun.
    Vefþula sem les upp texta af ruv.is var sett inn á vefinn samhliða uppfærslu 2014–15. Þessi breyting var stórt skref í þá átt að bæta aðgengi að vefsíðu Ríkisútvarpsins. Vefþulan er uppfærð reglulega en sífellt er verið að skoða nýjar leiðir til að auðvelda blindum og sjónskertum að nýta sér vefinn. Eitt af því sem gert var eftir ábendingar úr þeim hópi var að innleiða flýtileiðir í frétta- og dagskrárefni samhliða fyrrnefndri uppfærslu. Það einfaldar sérsniðnum tækjum að flakka á milli efnisþátta á síðunni og auðveldar upplestur. Þá má bæta því við að sérstakur hnappur sem breytir útliti síðunnar kom inn á sama tíma að því leyti að dekkri bakgrunnur þykir betri fyrir sjónskerta. Rétt er að taka fram að ábendingar hafa komið um það sem betur má fara á reglulegum fundum með fulltrúum blindra og sjónskertra. Samtalið er mikilvægt og leiðir til betri þjónustu af hálfu Ríkisútvarpsins.
    Nýr spilari Ríkisútvarpsins var breyting til hins betra hvað varðar aðgengi að dagskrárefni. Segja má að skrefið hafi þó verið stigið til fulls í lok árs 2020 þegar uppfærður spilari var gefinn út sem er í raun endurhönnun frá grunni. Þar var sérstaklega tekið mið af aðgengiskröfum BBC og öll hönnun bar þess merki. Viðbrögðin hafa verið góð enda leysti hann mörg þeirra vandamála sem Blindrafélagið hafði vakið athygli á. Ábendingar frá Blindrafélaginu, meðal annars um úrbætur í öppum, hafa einnig skipt máli og bætt þjónustuna.
    Hvað varðar textun á efni þá er texti aðgengilegur á beinu streymi í vefspilara og öppum.
    Allir þættir sem Ríkisútvarpið á texta við eru aðgengilegir í spilara á vef og í android tækjum. Samtal við þjónustuaðila hefur staðið yfir frá 2018 um úrbætur sem myndu tryggja að texti á upptökum væri í boði á öllum tækjum.
    Þá má geta þess að Ríkisútvarpið hefur tekið virkan þátt í verkefnum sem tengjast máltækni, meðal annars í samstarfi við Almannaróm. Sjálfvirk textun, upplestur á texta og raddstýring eru því tækninýjungar sem Ríkisútvarpið tekur virkan þátt í að þróa. Þess má geta að Ríkisútvarpið tók þátt í þróun á appinu Brodda, en þar má nota raddstýringu til að hlusta á fréttir og efni úr nokkrum dægurmálaþáttum Rásar 2.

     2.      Hver hefur aukningin á textun og táknmálstúlkun í efnisframboði Ríkisútvarpsins verið undanfarinn áratug og hvaða efni er lögð áhersla á að túlka og texta?
    Með tilkomu beinnar textunar árið 2013 var farið að senda út texta með fréttum og íþróttafréttum alla daga ársins og var það nýjung. Sú nýjung var fest í sessi með þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við ráðuneytið árið 2016. Í samningnum er einnig kveðið á um að táknmálstúlkun skuli fylgja sjónvarpsumræðum í aðdraganda kosninga. Er það nýjung og viðbót við daglegar táknmálsfréttir sem kveðið er á um í samningnum og verið hafa á dagskrá í 40 ár. Í þjónustusamningnum er kveðið á um að texta skuli eða túlka fréttir og fréttatengt efni og fyrir fram unnið innlent sjónvarpsefni eins og kostur er. Ríkisútvarpið hefur ævinlega uppfyllt þau ákvæði. Auk þess hefur Ríkisútvarpið sent út texta á síðu 888 í textavarpinu með öllum meiri háttar menningarviðburðum sem sýndir hafa verið í beinni útsendingu undanfarin þrjú ár. Má þar nefna Íþróttamann ársins, Íslensku tónlistarverðlaunin, Edduna og Grímuna. Einnig hátíðahöld á lýðveldisafmælinu, hátíðardagskrá á Austurvelli 17. júní og þannig mætti lengi telja. Ávörp forseta og forsætisráðherra eru alltaf með táknmálstúlkun og það sama má segja um helgistund með biskupi Íslands á jólanótt og jóladagsmessu.
    Þjónusta á táknmáli hefur ekki aukist eins mikið og textun en þó má geta þess að eitt vinsælasta sjónvarpsefnið, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – Eurovision, var sent út með táknmálskynni á RÚV 2 árið 2019 og stóð til að halda því áfram en keppnin féll niður árið 2020. Á síðasta ári, eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst, hefur aðgengisþjónusta margfaldast að umfangi. Nær allir upplýsingafundir Almannavarna hafa verið rittúlkaðir á síðu 888. Þá var þess gætt frá upphafi að táknmálstúlkur á vegum Almannavarna væri ávallt sýnilegur á skjánum. Frá 9. mars til 3. maí voru allir fréttatímar kl. 19 sendir út með táknmálstúlkun á RÚV 2 og/eða RÚV.is. Því var hætt þegar samkomubann var rýmkað.
    Á þessu ári hefur einnig önnur aðgengisþjónusta verið aukin. Á síðunni ruv.is/audskilid, á vef Ríkisútvarpsins, eru birtar fréttir með auðlesnum texta sem ætlaður er fólki sem á erfitt með að lesa eða skilja hefðbundnar fréttir. Textinn er með stærra letri og meira línubili en gengur og gerist og er settur fram á einfaldan hátt. Miðað er við að fólk með þroskahömlun geti nýtt sér þessa þjónustu en vitað er að hún hentar fleiri hópum, svo sem öldruðum, heyrnarlausum sem hafa ekki gott vald á íslensku, útlendingum sem eru að læra málið og lesblindum. Þá hafa upplýsingafundir Almannavarna verið túlkaðir á pólsku undanfarið en í fyrstu bylgju faraldursins, þegar fundirnir voru ekki túlkaðir á pólsku, voru daglega birtar fréttir á pólsku á ruv.is auk þess sem fréttir á ensku eru birtar alla daga á ruv.is/english.
    Í nýjum þjónustusamningi ráðherra og Ríkisútvarpsins sem undirritaður var 28. desember 2020 og er að finna á vefsvæði Ríkisútvarpsins er ítarlegur kafli um aðgengi að þjónustu.
    Hér má sjá yfirlit og samanburð á umfangi talsetts og textað efnis árin 2010 og 2019:
2010: 487 klst. af talsettu efni; 1.677 klst. af textuðu efni; 586 klst. textaðar í textavarpi á 888.
2019: 574 klst. af talsettu efni; 2340 klst. af textuðu efni; 1.245 klst. textaðar í textavarpi á 888.

     3.      Hvernig hefur Ríkisútvarpið sinnt lögbundnum skyldum sínum á þessu sviði og hvernig mun það leitast við að gera það áfram?
    Eins og fram kemur í 2. tölul. fyrirspurnarinnar hefur Ríkisútvarpið fylgt ákvæðum í þjónustusamningi við ráðuneytið sem byggður er á lögum um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013. Með framförum og nýjungum í tæknimálum hefur verið mögulegt að bæta mjög aðgengi blindra og sjónskertra að vef og spilara Ríkisútvarpsins. Tækifæri hafa verið nýtt til að veita heyrnarskertum aðgengi að textun á sjónvarpsefni sem ekki fellur beint undir ákvæði í þjónustusamningi, svo sem ýmsu menningarefni. Starfsfólk fylgist með þróun aðgengismála hjá öðrum evrópskum miðlum í almannaþjónustu og tekur þátt í samtarfi við þá. Þá hefur Ríkisútvarpið leitað til hagsmunahópanna til að fá sem besta mynd af þörfum þeirra og átt í góðum samskiptum við þá.
    Ríkisútvarpið hefur vilja til að efla aðgengisþjónustu eins og kostur er. Æskilegt væri að geta boðið upp á meira efni á táknmáli og eru ýmsir möguleikar þar nú til skoðunar. Gott væri að hafa meira af barnaefni á táknmáli og hugsa þarf um leiðir til þess. Þá hafa verið gerðar tilraunir með táknmálsútvarp, þ.e. að túlka útvarpsþætti á táknmál og lofa þær góðu. Mestar hafa framfarirnar orðið í þjónustu við blinda og sjónskerta enda hefur verið samstarf við þann hóp um aðgengi að vef og spilara. Sjónlýsingar, þ.e. lýsingar á því sem fyrir augu ber á skjánum, eru spennandi kostur að taka upp fyrir þennan hóp og myndi nýtast bæði í línulegri dagskrá og á vefnum. Þá er stefnt á að efla enn frekar þjónustu við fólk með þroskahömlun. Að lokum telur Ríkisútvarpið mikilvægt að auka sýnileika í miðlum sínum. Sýnileika fólks með margvíslega fötlun og ekki síður sýnileika þeirra miðla sem það nýtir sér, svo sem táknmáls og auðskilins texta.